Innstæður landsmanna úr landi?

Pistlar
Share

Í bönkum landsins munu vera um 2000 milljarðar króna innstæður. Þegar bankarnir voru að falla á síðasta ári gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu og ábyrgðist allar innstæður í bönkunum. Full pólitísk samstaða var um yfirlýsinguna og þær tvær ríkisstjórnin sem síðan hafa verið myndaðar hafa ekki dregið hana til baka.

Þessi ákvörðun leiddi til þess að neyðarlögin gengu svo langt sem raun ber vitni. Það var ekki verið að láta skattgreiðendur bera skuldir óreiðumanna og ekki heldur var skuldum einkafyrirtækisins Landsbankans velt yfir á landsmenn. Það var verið að verja eignir landmanna, innstæðurnar. Þær voru fluttar úr gömlu þrotabönkunum yfir í nýja ríkisbanka. Til þess að þeir gætu starfað voru einnig teknar úr gömlu bönkunum handvaldar eignir, sem gætu staðið sem trygging fyrir innstæðunum og leikreglunum um forgangskröfur var breytt eftir á.

Með þessu móti gat ríkið ábyrgst innstæðurnar innanlands, sem voru um 1400 milljarðar króna, án þess að þurfa að leggja til nýju bankanna fé nema fyrir brot af samanlagðri fjárhæð innstæðnanna. Innstæðueigendurnir töpuðu engu og um það var fullkomin pólitísk samstaða að þannig skyldi það vera. Það er af þeirri einföldu ástæðu að ekkert bankakerfi verður rekið án innstæðna.

En vandinn var sá að Landsbankninn hafði safnað sparifé í Bretlandi ogHollandi, samtals um 1300 milljörðum króna. Ég hef áður látið það koma fram í pistlum hér að ég tel að íslenska ríkinu sé skylt að lögum að standa við lágmarksábyrgð á þessum innstæðum. Það er lögum um innstæðutryggingar og lögum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá tel ég að ríkið geti ekki haft breytilega ábyrgð á innstæðum eftir útibúum.

Til viðbótar tilgreindum lögum bætast við ákvæði stjórnarskrárinnar, sem leggur bann við mismunun eftir þjóðerni. Það gerir það afar torvelt fyrir ríkið að tryggja allar innstæður í íslenskum útibúum Landsbankans en tryggja engar innstæður í erlendum útbúum sama banka.Það er jafnlíklegt að Alþingi og ríkisstjórnin vinni mál fyrir dómstólum þar sem þessu er haldið fram og að fallist yrði á það að innstæður í Reykjavík væru tryggðar að fullu og öllu en innstæður á Ísafirði algerlega án nokkurrar skuldbindingar ríkisins.

Ég sé það í samkomulagi ríkisstjórnarinnar við Breta og Hollendinga, sem kynnt var í dag, að íslenska ríkisstjórnin stendur enn á því að engin lagaleg skylda sé til að ábyrgjast Icesave innstæðurnar þrátt fyrir að samþykkt sé að borga þær að lágmarki til.

Þá blasir sú staðreynd við að ríkisstjórnin og væntanlega Alþingi telja að engin ábyrgð ríkisins sé á innstæðum í erlendum útibúum íslenskra banka. Óhjákvæmilega leiðir af þessu að engin ábyrgð ríkisins er heldur á innstæðum í innlendum útibúum íslenskra banka. Það þýðir að eigi Tryggingarsjóðurinn á ekki fyrir kröfum á hann , þá einfaldlega tapa innstæðueigendur sínu fé. Það eru um 2000 milljarðar króna í innstæðum um þessar mundir í íslenska bankakerfinu. Þær innstæður eru því ótryggðar og verða það áfram miðað við yfirlýsingarnar.

En það blasir líka við að allar aðrar þjóðir Evrópska efnahagssvæðisins eru algerlega ósammála íslenskum stjórnvöldum. Það þýðir að innstæður í bönkum þeirra landa eru tryggðar að því lágmarki sem löggjöfin um innstæðutryggingar kveður á um hvort heldur skipt er við íslensk eða erlend útibú viðkomandi banka.

Íslenskir innstæðueigendur verða af þessum sökum að flytja fé sitt til banka í öðrum EES löndum til þess að búa við viðunandi öryggi á sínu sparifé. Um leið og höftum verður aflétt af flutningi fjár úr landi má búast við því að innstæðueigendur fari að færa fé sitt í erlenda banka.

Hvers vegna ættu þeir að geyma peningana sína í landi þar sem Tryggingarsjóðurinn á ekki krónu og mun ekki eiga að óbreyttu í áratugi, löggjafarvaldið og ríkisstjórnin eru samstíga í því að túlka gildandi lög þannig að engin ábyrgð ríkisins sé á skuldbindingum Tryggingarsjóðsins og engin fyrirhuguð lagasetning er til þess að tryggja spariféð?

Athugasemdir