Umskiptingar

Pistlar
Share

Umskiptingar eru gjarnan á ferðinni á stjórnmálasviðinu. Sjaldan hefur það verið jafn bersýnilegt og eftir þingkosningarnar í vor. Forystumaður vinstri grænna var einarðastur og stóryrtastur allra gegn Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann er nú öllum öðrum einarðari og staðfastari málsvari þess að ljúka samningum um Icesave og fylgja efnahagsáætlun ríkisstjórnar Geirs Haarde og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Forysta Sjálfstæðisflokksins leiddi ríkisstjórn og Alþingi til þeirrar niðurstöðu að semja um greiðslu á Icesave innistæðunum og sama forysta samdi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um efnahagsáætlun og lánsfé. Það var fyrir kosningar. Eftir kosningar vill forysta sama flokks ekki borga Icesave og vill ekki samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Efnahagsáætlunin er nú ómöguleg og engin þörf á lánsfénu.

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir hafa skipt um hlutverk og stefnu. Eiga þeir ekki líka að skipta um nafn?

Steingrímur J. Sigfússon segir eitt í stjórnarandstöðu og annað í stjórn. Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafa aðra skoðun í stjórnarandstöðu en þau töluðu fyrir sem stjórnarliðar. Þetta háttalag eykur ekki álit almennings á stjórnmálamönnum, þvert á móti. Af þeim er ætlast að skoðanir þeirra mótist af málefninu en sveiflist ekki eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Steingrímur hefur það sér til málsbóta nú að hann er að gera það sem þarf. Hin hafa það ekki, þau víkja frá því sem þau vita að þarf að gera. Þau falla í þá freistni að gera ríkisstjórninni frekar óleik en að vinna að þjóðarhag. Stjórnmálin þurfa að breytast og leikrit umskiptinganna er eitt af því sem má hverfa.

Athugasemdir