Mistök í lagasetningu jók Icesave vandann

Pistlar
Share

Mistök, sem gerð voru við innleiðingu Evróputilskipunar um innstæðutryggingar, juku greinilega á Icesave vandann sem þjóðin glímir við. Hunsuð voru viðvörunarorð og tillögur um breyttan lagatexta þegar málið var til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Hefði verið farið að þeim ráðleggingum væri staðan mun betri en hún er. Þó er óvíst að Íslendingar hefðu komist hjá öllum vandræðunum, ef þeim ráðum hefði verið hlýtt, en næsta víst að Icesave vandinn væri varla til staðar.

Það var árið 1996 í stjórnarfrumvarpi frá viðskiptaráðherra, sem tilskipun Evrópusambandsins 94/19 um innlánatryggingarkerfi var lögð fyrir Alþingi. Það var vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sem það kom til. Samræmd löggjöf á sviði fjármagns og bankastarfsemi var hluti af efnahagssvæðinu og því þurftu Íslendingar að innleiða í sín lög reglur Evrópsambandslandanna. Það er grundvöllur EES að ein og sömu lögin að grunni til skuli gilda í öllum löndunum á þeim sviðum sem samningurinn tekur til.

Ein umsögn sem efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis barst í janúar 1996 hefur vakið sérstaka athygli mína. Hún var frá Sambandi íslenskra sparisjóða. Í henni var vakin athygli á bankakreppunni , sem þá var nýlega gengin yfir á Norðurlöndum . Komið hafði í ljós að almennir tryggingarsjóðir innlánsstofnana höfðu enga möguleika á að ráða við víðtæka kreppu sem gekk á sama tíma yfir bankakerfið. Bent var á að samkvæmt reynslu þeirra væri líklegt að reglur þær, sem lagt var til að settar yrðu skv. frumvarpinu taki, ef á reynir, aðeins til minni stofnana.

Síðar segir: „Reynsla annarra þjóða bendir alfarið til í þá átt að lendi stór banki í alvarlegum vanda þá verði ríkisvaldið að grípa inn í til að forða enn meira tjóni sem og til að treysta tiltrú almennings á bankastarfsemi en ekki síður erlendra lánardrottna og annarra erlendra viðskiptaaðila. Þá er tímabært að stjórnvöld og löggjafinn hyggi að því með hvaða hætti verður brugðist við skapist þessar aðstæður hér á landi. Ríkisstjórnir Noregs, Svíþjóðar og Finnlands hafa þurft að verja hundruðum milljarða ísl. króna til að verja bankakerfi sín hruni undanfarin ár. Þar hafa verið settar lög og reglur um það hvernig staðið skuli að þessum málum“.

Þessum viðvörunarorðum Sigurðar Hafstein fyrir hönd Sambands íslenskra sparisjóða var fylgt eftir með tillögum um breytingar á frumvarpinu. Sumar voru teknar til greina, en ekki allar. Ein tillagan sem fékk ekki brautargengi var sú að undanþegnar tryggingu innlánstryggingasjóðsins yrðu „innstæður sem bera óvanalega háa vexti eða njóta annars hagræðis sem átt hefur þátt í versnandi efnahag stofnunarinnar“.

Vísað var í 1. viðauka Evróputilskipunarinnar 94/19 11. tölulið sem heimilar þjóðum að undanskilja þau innlán tryggingunni „sem innstæðueigandi hefur persónulega fengið vexti af eða annan fjárhagslegan ávinning sem hefur átt þátt í að rýra fjárhagsstöðu lánastofnunarinnar.“

Í umsögninni segir ennfremur: „Telja verður að ákvæðið eigi erindi í íslenska löggjöf enda hafi vextir verið óvanalega háir þ.e. langt yfir markaðsvöxtum. Ákvæði sem þetta skapar aðhald og aga bæði gagnvart viðskiptavinum sem gera óeðlilegar vaxtakröfur og innlánsstofnuninni sjálfri í rekstri hennar. Óvanalega háir vextir hljóta að endurspegla aukna áhættu og njóta því ekki sömu tryggingar og hefðbundin viðskipti.“

Þetta var einmitt kjarninn í Icesave innstæðunum. Landsbankinn bauð óvenjulega háa vexti til þess að útvega sér lausafé í vandræðum sínum. Þeir, sem bitu á agnið, hlutu að gera sér grein fyrir því að hærri vöxtum hlaut að fylgja aukin áhætta og eðlilegt að þeir hinir sömu bæru áhættuna. Ef tillaga sparisjóðanna hefði verið samþykkt hefðu Icesave innlánin að öllum líkindum verið utan við innlánstryggingarkerfið.

En viðskiptaráðherra, Finnur Ingólfsson, lagðist gegn breytingunni og svo virðist sem að ekki hafi verið gerður neinn ágreiningur í efnahags- og viðskiptanefnd við ráðherrann og því hvorki kom tillagan fram né náði fram að ganga. Í nefndinni þá voru þó alþingismenn sem vel áttu að vera heima í málaflokknum svo sem Vilhjálmur Egilsson, Valgerður Sverrisdóttir, Gunnlaugur Sigmundsson og Steingrímur J. Sigfússon.

Betur væri nú ef Alþingi hefði þá hlustað á framkomin viðvörunarorð og lært af biturri reynslu nágrannaþjóða okkar. En svo varð ekki. Löngum hafa tök ráðherra á Alþingi verið of mikil og ekki síður hafa einstakir hagsmunaaðilar haft of mikil ítök.

Athugasemdir