Aðgerðarleysið er vandinn

Pistlar
Share

Mörgum er það eðlilega vonbrigði dagsins að stýrivextir Seðlabankans skuli aðeins hafa lækkað um 1%. Spurningin er hvers vegna. Svarið liggur í aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Það er beðið eftir ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Það þarf að ná saman á þremur árum tekjum og útgjöldum hins opinbera. Að öðrum kosti tekst ekki að koma á stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar og viðhalda lágri verðbólgu.

Þetta þarf að gera. Vanræksla síðustu 6 ára bætir ekki úr skák og gerir vandann verri. Á þessum tíma vantaði nauðsynlegt aðhald í útgjöldum til þess að vinna á móti þenslunni og frekar var gert illt verra með skattalækkun. Þegar svo skellurinn kom er ekkert svigrúm fyrir hallarekstur og skuldasöfnun í nokkur ár meðan það versta er að ganga yfir. Það kemur alltaf að skuldadögunum fyrr eða síðar og nú er sá tími kominn, því miður.

Seðlabankinn gat ekki lækkað stýrivextina meira vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa ekki skilað sínu verki. Eftir fjóra mánuði bólar ekkert á raunverulegum aðgerðum. Forystumenn ríkisstjórnarinnar kveina undan verkefni sínu en gera ekkert. Dagarnir líða einn af öðrum í skraf og þref við hina og þessa aðila í þjóðfélaginu, en engar tillögur líta dagsins ljós. Það er eins og ráðherrarnir hafi gleymt því að þeir eru kosnir til þess að taka ákvarðanir og stjórna.

Verkkvíði stjórnarflokkanna er orðinn skaðlegur almenningi og fyrirtækjum landsins. Ef ríkisstjórnin hefði unnið sitt verk væru stýrivextirnir líklega á bilinu 4 – 8% í stað þess að vera 12%. Þetta sést ef skoðuð er verðlagsþróunin undanfarið ár. Verðbólgan síðustu 12 mánuði er um 11,5% það skýrir væntanlega ákvörðun Seðlabankans. Bankinn veit ekkert hvort ríkisfjármálaverkefnið verði yfirhöfuð leyst og treystir því ekki á þessari stundu að ríkisstjórnin valdi verkefni sínu.

Á þessu ári er verðbólgan aðeins 2,1% og ef treysta má stjórnvöldum þá má vonast til þess að verðbólgan út árið verði ekki meiri. Þá yrði ársverðbólgan um 4 – 5% og stýrivextir gæti strax tekið mið af því. Ef hins vegar er litið yfir síðustu 6 mánuði þá er reynist verðbólgan vera orðin 3,7% og ef ætla mætti að hún yrði svipuð næstu 6 mánuði þá væri hún 7 – 8% .

Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Peningastefnunefnd Seðlabankans treystir ekki ríkisstjórninni og þorir því ekki að gera ráð fyrir því að verðbólgan muni lækka á næstu mánuðum. Aðgerðarleysi ríkisstjórninarinnar er orðinn helstu efnahagsvandi þjóðarinnar. Hvar er nú kjarkmaðurinn Kolbeinn í Dal?

Athugasemdir