Yfirþyrmandi framkvæmdavald Ögmundar

Pistlar
Share

Heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, efast um að Seðlabankinn eigi að vera sjálfstæð stofnun áfram. Hann vill breyta lögum um bankann og færa hann undir framkvæmdavaldið. Gera hann háðan þeim sem huga að almannahag, eins og heilbrigðisráðherra orðar skoðun sína í viðtali í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag.

Ástæða þess að ráðherrann lætur þessa skoðun sína í ljósi er greinilega tregða Seðlabankans við lækkun stýrivaxta. Fyrst bankinn gerir ekki eins og Ögmundur vill þá er boðað að ríkisstjórnin taki að sér að ákvarða vextina.

Seðlabankinn er lögum samkvæmt sjálfstæð stofnun sem er ætlað veigamikið hlutverk í peningamálum. Það var pólitískt samkomulag á Alþingi um þetta fyrirkomulag. Formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, sat í nefnd sem undirbjó lagafrumvarpið, studdi það og lögin voru samþykkt mótatkvæðalaust með atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum.

Það er svo hlutverk ríkisstjórnar og Alþingis að stjórna ríkisfjármálum á þann veg að jafnvægi verði í þjóðarbúskapnum og stöðugleiki í verðlagi. Verðbólgan lækkar hægar en vonast var til vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa ekki unnið sitt verk. Það er beðið eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar og þess vegna getur Seðlabankinn ekki lækkað stýrivexti fyrr en ríkisstjórnin hefur gert skyldu sína. Það gæti leitt til aukinnar verðbólgu og neikvæðra vaxta á sparifé landsmanna.

Það var einu sinni stjórnmálamaður sem þoldi illa að sjálfstæðar stofnanir ríkisins létu ekki að stjórn. Fyrir sjö árum var Þjóðhagsstofnun lögð niður með lögum. Þá var einn þingmaður, Ögmundur Jónasson, sem ekki var í nokkrum vafa um hvers vegna það var gert. Í máli hans kom þetta fram:

Það sem menn finna að frv. er að verið er að leggja niður stofnun sem hefur haft einhverja tilburði til sjálfstæðis

og einnig sagði hann:
„í fyrri ræðunni vék ég að aðdragandanum eins og við þekkjum hann öll, hvernig hæstv. forsrh. reiddist Þjóðhagsstofnun sem leyfði sér að hafa uppi aðrar meiningar en hann og ríkisstjórnin um efnahagsmálin og þróun þeirra“.

Þá sagði Ögmundur Jónasson :“ Ég er að tala um mikilvægi þess að efla sjálfstæði stofnana „ og „ég er að tala fyrir fjölbreytninni í lýðræðisþjóðfélagi í örri þróun sem býr við yfirþyrmandi framkvæmdarvald“.

Enn er komið fram á sviðið hið yfirþyrmandi framkvæmdavald sem vill stjórna með tilskipunum stofnunum sem sýna tilburði til sjálfstæðis. Það tók ekki langan tíma, aðeins fjóra mánuði.

Athugasemdir