Frelsi eins verður helsi annars

Pistlar
Share

Gagnrýnislaust og jafnvel án umhugsunar talar hver upp í annan um þá nauðung að hér hafi verið um tíma settar hömlur á gjaldeyrisviðskipti. Það er eins og hömlurnar séu óbærileg þjáning hins góða frelsis sem er troðið upp á landsmenn af hinum illa alþjóðagjaldeyrissjóði. Tvíburaforystan á vinnumarkaðnum krefst þess með samræmdu orðalagi að hömlurnar verði felldar niður strax.

Er ekki rétt að staldra aðeins við? Það var frelsið algera í fjármagnsviðskiptum sem kom okkur á kaldan klaka. Með Evrópska efnahagssvæðinu var tekin í lög í öllum aðildarlöndunum, þar á meðal á Íslandi ,að frelsið væri grundvöllur að framförumog aukinni velferð. Þegar á reyndi kom hins vegar í ljós að frelsið var of mikið, þeir sem fóru með það báru of litla ábyrgð á gjörðum sínum. Skaðinn lenti á almenningi og hann þarf að borga brúsann.

Vilja menn endurreisa óbreytt frelsi og endurtaka hildarleikinn? Mér er til efs að nokkur hljómgrunnur sé fyrir því. Lærdómurinn, sem á að draga af bankakreppunni, er að stjórnvöld í öllum löndum vilja verja sparifé og grípa inn í með ríkisábyrgð og fjárframlögum. Það er því í raun ríkisábyrgð á fjármálastarfsemi hvað það varðar.

Í þessu ljósi ber að haga lagasetningu og eftirliti með fjármálastarfsemi þannig að sem minnstar líkur séu til þess að skattgreiðendur þurfi að greiða fyrir óreiðu fjárglæframanna. Annars verður frelsi þeirra að helsi almennings. Frelsi fjármagnsins í EES samningunum er algerlega óásættanlegt og á ekki að koma á að nýju án viðeigandi takmarkana og ábyrgðar sem með það fara.

Frelsi banka til þess að stofna til skuldar með því að taka við innlánum er greinilega of mikið og þarf að setja mun strangari reglur þar um. Icesave og Edge reikningar íslensku bankanna segja allt sem segja þarf. Skattgreiðendur hafa fengið reikninginn. Frelsi bankanna til þess að lána eigendum sínum risavaxnar fjárhæðir gegn ótraustum veðum er of mikið.

Frelsið til þess að stofna til skulda er líka of mikið. Það sjáum við á bönkunum, fyrirtækjunum og einstaklingunum. Yfirvofandi er að skattgreiðendur þurfi að taka á sig háar fjárhæðir vegna þeirra sem reistu sér hurðarás um öxl.

Í Morgunblaði dagsins eru tvær fréttir sem minna á ógæfu aðila vegna óvarkárni í þessum efnum. Fyrirtækið Office1 erkomið í greiðslustöðvun og ástæðan er að skuldirnar eru í erlendri mynt en tekjurnar í krónum. Mörg sveitarfélög landsins eru komin í veruleg vandræði vegna erlendrar lántöku og í blaðinu er minnt á að sums staðar erlendis er þeim bannað að taka lán í erlendri mynt.

Kjarni málsins er sá að það eru skuldirnar sem eru vandinn. Það hafa of margir freistast til þess að taka of mikið af lánum og meira en þeir voru borgunarmenn fyrir þegar á reyndi. Og það hafa of margar fjármálastofnanir beitt öllum ráðum, þar með talið óvönduðum, til þess að koma út lánum sem lántakandinn gat fyrirsjáanlega ekki greitt.

Frelsið var of mikið og ábyrgðin var of lítil. Þess vegna þarf frekari almennar hömlur á fjármálastarfsemi bankanna en verið hafa – til þess að verja skattgreiðendur.

Athugasemdir