Við vorum ekki látin í friði!

Pistlar
Share

Í Morgunblaði dagsins er ágæt umfjöllum um fyrningarleiðina í sjávarútvegi sem stjórnarflokkarnir hafa boðað. Að vísu er hún einhliða að því leyti að aðeins er gert grein fyrir sjónarmiði útgerðarmanna. En það þarf auðvitað að kynna þeirra viðhorf og röksemdir. Umræðustjórnmál þýða einmitt þetta og svo á að vega og meta málið út frá sjónarmiðum aðila málsins.

Fyrirsögnin í Morgunblaðinu lýsir að vísu ekki neinum vilja til þess að mæta gagnrýninni á kvótakerfið. Hún virðist höfð eftir einum viðmælandanum og er: Hvers vegna erum við ekki látin í friði? Það virðist ekkert hafa breyst á þeim 10 árums em eru liðin síðan heildarendurskoðun átti að fara fram á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þá tókst LÍÚ með stuðningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að slá af allar breytingar og kerfið varð áfram óbreytt.

Enn er þessi hópur við sama heygarðshornið, leggst gegn öllum breytingum og kemur ekki með neinar tillögur til þess að lagfæra helstu gallana við kerfið. Fyrirsögnin í Morgunblaðinu segir býsna mikið. Hún lýsir því hugarfari að þetta sé einkamál útgerðarmanna og að aðrir eigi ekki að vera að skipta sér af því. Þeim komi það ekki við, hvorki sjómönnum, fiskverkafólki, íbúum á landsbyggðinni eða stjórnvöldum.

En ástæða þess að LÍÚ er ekki látin í friði er einföld. Einstakir handhafar kvótans létu okkur ekki í friði. Þeir tóku ákvarðanir án tillits til okkar, sem áttu mikið undir blómlegri útgerð og vinnslu í sjávarplássunum. Þeir gengu á bak orða sinna ef því var að skipta og bæði lugu og sviku. Þeir sköðuðu hagsmuni þúsunda, fyrst og fremst á landsbyggðinni.

Eigendur Þorbjarnarins hf í Grindavík létu Bolvíkinga ekki í friði. Þeir komu vestur og keyptu sig inn í útgerðarfélag staðarins og lofuðu gulli og grænum skógi. En sviku á augabragði og létu greipar sópa um eigur fyrirtækisins og fluttu allan kvóta þess til Grindavíkur. Varla þarf að rifja upp svik Samherjafrænda við Ísfirðinga, loforð þeirra glymur enn í eyrum Vestfirðinga: Guðbjörgin verður áfram gul, hún verður áfram ÍS og hún verður áfram gerð út frá Ísafirði. Ísfirðingar voru ekki látnir í friði. Svona má telja upp mörg fleiri dæmi sem gera það að verkum að enginn friður verður um óbreytta löggjöf um framsalið.

Það verður heldur enginn friður um það að handhafi veiðiheimilda geti látið aðra útgerðarmenn borga sér fyrir að fá að veiða kvótann sinn. Ef það verður talið nauðsynlegt að hafa framsal gegn endurgjaldi verður það hið opinbera sem á fyrst og fremst að fénýta veiðiheimildirnar og enginn annar. Menn verða ekki látnir friði við þá iðju að blóðmjólka kvótalitla útgerðarmenn fyrir afnot af sínum veiðiheimildum en greiða ekkert sjálfir til þjóðarinnar.

Fleira má nefna en læt hér staðar numið. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa sem betur fer ekki meirihluta lengur á Alþingi og geta ekki hlýtt kalli LÍÚ og kæft allar tilraunir til nauðsynlegra breytinga í sjávarútvegi. Það er sorglegt að sjá báða þessa stjórnmálaflokka hanga í frakkalafi LÍÚ eins og ekkert hafi í skorist þrátt fyrir að kjósendur hafi veitt flokkunum slíka ráðningu að þeir hafa aldrei verið samanlagt jafnveikburða frá upphafi flokkakerfisins. Leiðin fyrir þá til þess að vinna tiltrú kjósenda að nýju liggur ekki um skrifstofu LÍÚ.

Vissulega eru hugmyndir stjórnarflokkanna um breytingar frekar óljósar og jafnvel ekki allar skynsamlegar. En það breytir því ekki að það er óhjákvæmilegt að breyta og útgerðarmenn landsins eiga að taka höndum saman með stjórnvöldum og vinna verkið. Þeir geta haft áhrif ef þeir vilja, en þeir verða að viðurkenna að fiskurinn í sjónum er ekki þeirra einkamál og að þeir eiga hann ekki. Í hópi útgerðarmanna eru margir sem hafa sýnt samfélagslega ábyrgð og hafa ekki spilað á kerfið . Það á að hluta meira á þá og minna á hina.

Athugasemdir