Þingforseti stjórni Alþingi

Pistlar
Share

Forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína í gærkvöldi á Alþingi. Þar lagði oddviti ríkisstjórnarinnar mikla áherslu á breytingar í stjórnmálum. Jóhanna vill móta ný vinnubrögð og nýjar hefðir í umræðunni og þróa breytt verklag.

Þetta eru þarfar áherslur og gott að vilji rikisstórnarinnar standi til þess að falla frá mörgum ósiðum í stórnmálunum sem viðgengist hafa áratugum saman og frekar farið versnandi á síðustu árum. Einn ósíðurinn er vaxandi vald foringja flokkanna sem þeir hafa tekið sér og beitt gagnvart þingmönnum og Alþingi. Er mál að linni þeirri óheillaþróun og vonandi að ráðherrum ríkisstjórnarinnar takist að hemja sig og umgangast Alþingi af tilhlýðilegri virðingu, sérstaklega fjárveitingarvald þess.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag varð forsætisráðherranum hins vegar á og skriplaði á skötunni. Aðspurður sagði ráðherrann að hugsanlegt væri að hlé yrði gert á fundum Alþingis í sumar áður en lokið væri afgreiðslu á þingsályktunartillögu um viðræður við Evrópusambandið um aðild nema fyrir liggi önnur mál sem þingið gæti tekið fyrir á meðan.

Þarna átti Jóhanna Sigurðardóttir ákjósanlegt tækifæri til þess að hefja breytingarnar á vinnubrögðunum og verklaginu. Hún átti svara spurningum fréttamanna þannig að það sé forseta Alþingis að stjórna þinghaldinu og til hans verði þeir að snúa sér til þess að fá svör um það. Forsætisráðherrann á ekkert með það að gefa út yfirlýsingar um verkefni þingforseta og ég hugsa að Jóhanna átti sig á þessu þegar hún er búin að íhuga málið aðeins.

Svona hafa að vísu forsætisráðherrar undanfarin ár hagað sér en því á einmitt að breyta. Ríkisstjórnin á ekki að stjórna Alþingi. Fyrir fáum mínútum var á Sky viðtal við forsætisráðherra Breta um stöðu forseta breska þingsins. Hann sagði stutt og laggott: það er ekki hlutverk forsætisráðherra að svara til um það og vísaði á forseta þingsins. Sama hefði Jóhanna Sigurðardóttir átt að gera og hún á að undirstrika sjálfstæði forseta Alþingis í störfum sínum.

Þetta eru breytingar sem skipta máli ef þær verða.

Athugasemdir