Eignabólan var líka í sjávarútvegi

Pistlar
Share

Kreppan sem ríður yfir landsmenn af miklum þunga er afleiðing af mikilli verðhækkun hlutabréfa og íbúðarhúsnæðis. Þegar upp er staðið voru ekki raunveruleg verðmæti á bak við hið háa verð. En viðskiptabankarnir höfðu óhikað lánað og þegar eignabólan sprakk stóðu bankarnir upp berstrípaðir með mikil útlán og engin veð. Þessa sögu þarf svo sem ekki að rifja upp fyrir lesendum, en ég get ekki stillt mig um að minna á að bankarnir áttu stóran hlut að máli og lögðu sig verulega fram um að blása lofti í eignabóluna með ýmsum ráðum.

En það var á fleiri sviðum sem mikið hækkun varð á afmörkuðum eignum. Í sjávarútvegi varð mikil hækkun á verði varanlegra veiðiheimilda. Í marshefti Hagvísa Seðlabanka Ísalnds kemur fram að nýjasta verð á aflahlutdeildum í þorski sé 3.800 kr/kg. Hafði verðið hækkað á einu ári úr 2.350 kr/kg. eða um 62%. Vissulega hafði afurðaverð erlendis hækkað og lánsfé var ódýrt sem hvort tveggja stuðlar að hækkun á verði kvóta, en engu að síður var morgunljóst að engin innistæða var fyrir svo mikilli hækkun.

Það hefur verið mikil eignabóla í kvótaverði síðustu ár, rétt eins og í hlutabréfunum og íbúðarhúsnæðinu á höfuðborgarsvæðinu. Þessi eignabóla hefur líka sprungið og verð á aflahlutdeild hefur lækkað verulega. Það sést best í októberhefti Hagvísa en þar kemur fram að verðið hefur lækkað niður í 2.000 kr/kg. Það er tæplega 50% verðfall á aðeins 7 mánuðum.

Mér býður í grun að skuldastaða fyrirtækja í sjávarútvegi markist verulega af eignabólunni í kvótanum og það þar séu mörg fyrirtæki illa skuldsett eftir nýleg kvótakaup. Þá er ástæða til þess að athuga hver staða bankanna er varðandi þessi útlán. Það má ætla að eignin sem átti standa á bak við lánin sé í einhverjum tilvikum og kannski mörgum, standi alls ekki lengur fyrir skuldunum. Spurningin verður því áleitin um það hversu miklar skuldir eru í bankakerfinu vegna kaupa á fiskveiðiheimildum og hver veðstaðan er á bak við þær skuldir.

Ég hef leitað eftir svörum viðskiptaráðherra um skuldir sjávarútvegsins til þess að varpa ljósi á þau atriði sem ég hef gert að umtalsefni og að auki til þess að varpa ljósi á það hvað innköllum aflaheimilda myndi hafa í för með sér fyrir bankakerfið og sjávarútvegsfyrirtækin. En segja má að sú óvænta breyting að viðskiptabankarnir eru orðnir ríkiseign skapi tækifæri til þess að fá umræddar upplýsingar og ræða af fullri alvöru að gera nauðsynlegar breytingar á úthlutunarkerfi fiskveiðiheimilda. Svörin fengust ekki í fyrstu atrennu , en ég mun halda áfram og á ekki von á öðru en að þau muni koma að lokum.

greinin birtist í Sjómanninum fyrir réttum mánuði.

Athugasemdir