Peningamarkaðssjóðirnir: allt upp á borðið

Pistlar
Share

Lögð hefur verið fram á Alþingi beiðni um skýrslu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði. Það eru allir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem biðja um skýrsluna. Ég er fyrsti flutningsmaður en þau Álfheiður Ingadóttir og Birkir Jón Jónsson unnu með mér að samningu þingmálsins.

Farið er fram á að viðskiptaráðherra flytji á Alþingi skriflega skýrslu um þessa sjóði og að í henni komi fram viðmiklar upplýsingar um sjóðina. Viðskiptaráðherra afli allra upplýsinga um viðskipti ríkisbankanna, hvers fyrir sig, sem hafa varðað peningamarkaðs- og skammtímasjóði gömlu bankanna þriggja og endurfjármögnun þeirra síðan Fjármálaeftirlitið f.h. ríkissjóðs tók yfir rekstur þeirra í byrjun október sl. og geri grein fyrir þeim í skýrslu til Alþingis.

Um er að ræða alla peningamarkaðs- og skammtímasjóði Glitnis sjóða hf. í rekstri Glitnis banka, Landsvaka hf. í rekstri Landsbankans, og Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. í rekstri Kaupþings banka. Mikill fjöldi fólks lagði peninga inn á þessa reikninga í góðri trú. Svo virðist sem það hafi jafnvel verið sérstaklega hvatt til þess af bönkunum og jafnvel til að færa fé af öruggum reikningum yfir í sjóði sem áhætta var bundin við.

Komið hefur fram að miklir fjármunir voru teknir út úr peningamarkaðssjóðunum skömmu áður en bankarnir komust í þrot og voru þjóðnýttir. Það kann að benda til þess að einhverjir hafi haft vitneskju um var hvað í vændum og getað forðað sér en aðrir ekki.

Talið er að bankarnir, þeir gömlu undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og skilanefnda fyrir þess hönd, og nýju bankarnir undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og bankastjórna fyrir þess hönd, hafi samtals varið allt að 200.000 millj. kr. í kaup á bréfum sjóðanna. Fyrir bréf sjóðanna var því greitt með ríkisfé, bæði þau sem gömlu og nýju bankarnir keyptu, enda bankarnir komnir í hendur ríkisins.

Erfitt hefur reynst að afla staðfestra upplýsinga um uppgjör sjóðanna, eignasamsetningu þeirra, verðmæti eigna á bak við þá og hreyfingar úr sjóðunum. Ríkisstjórnin, sérstaklega viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, hafa jafnvel borið við bankaleynd.

Mikilvægir þjóðarhagsmunir standa til þess að fram komi hvernig aðdraganda og ákvörðun var háttað um ráðstöfun allt að 200.000 millj. kr. af ríkisfé í þessu máli. Skýrslubeiðendur telja að bankaleynd eigi ekki við þegar svo miklir hagsmunir eru í húfi auk þess sem ekki er óskað upplýsinga um málefni nafngreindra einstaklinga eða lögaðila. Skýrslubeiðendur telja skýrslu þessa afar mikilvæga svo Alþingi sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Óskað er að fram komi í skýrslunni allt það sem verða má til þess að varpa skýru ljósi á atburðarrásina svo sem:

Reglur sem giltu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði fyrir hrun bankanna og þar til þeir voru gerðir upp.

Fjárfestingarstefna sjóðanna.

Hagsmuni rekstraraðilanna eða eigenda þeirra við stjórn sjóðanna.

Upplýsingar um óeðlileg viðskipti með bréf í sjóðunum síðustu 18 mánuðina.

Ákvarðanir stjórnvalda og stjórnenda bankanna, gömlu og nýju, til að endurfjármagna peningamarkaðs- og skammtímasjóðina og aðdraganda þessara ákvarðana.

Hversu miklu af skattfé ríkisins var ráðstafað, með beinum eða óbeinum hætti, til að endurfjármagna peningamarkaðssjóðina í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins.

Hvort gætt hafi verið jafnræðis við uppgjör tilgreindra peningamarkaðs- og skammtímasjóða annars vegar gagnvart eigendum verðbréfa í öðrum sjóðum í þessum þremur bönkum eða öðrum bönkum og sparisjóðum og hins vegar gagnvart fjármálastofnunum sem ekki áttu hlut að máli.

Hvernig staðið var að slitum og uppgjöri tilgreindra peningamarkaðssjóða af hálfu fulltrúa ríkisvaldsins.

Tillögur til úrbóta.

Athugasemdir