Til betri tíma

Pistlar
Share

Haustið hefur verið mörgum landsmönnum erfitt, að vonum. Tugþúsundir urðu fyrir fjárhagslegu tjóni þegar viðskiptabankarnir féllu. Þúsundir horfa upp á atvinnumissi. Fasteignaverð fellur eins og steinn til jarðar. Þjóðfélagið er skuldum vafið eins og skrattinn skömmunum. Framundan er niðurskurður hjá hinu opinbera og hækkun skatta. Algjört endurmat á umfangi velferðarkerfisins bíður handan við áramótin.

Eðlilega hefur reiðin verið mikil og hún þarf að fá útrás. En eftir reiðinni kemur raunsæið og það sér til þess að málin eru felld í ásættanleg farveg. Þar hefur Alþingi tekið forystu með löggjöf um rannsókn á atburðarrásinni. Þáttur hvers og eins verður athugaður og upplýstur og ekkert á að draga undan. Ætla má að árið 2009 verði ár uppgjörsins. En munum að Ísland er réttarríki og það markar leikreglurnar. Réttarríkið er mikilvægara en dómstóll götunnar.

Eitt vil ég undirstrika öðru fremur, gerendurnir bera mesta ábyrgð. Það er alltaf þannig og eigendur bankanna voru gerendurnir. Þeir tóku ákvarðanirnar og verða að bera ábyrgð á þeim. Þeir skuldsettu bankanna, þeir hrærðu í sparnaði fólksins, þeir spiluðu með hlutabréfaverðið. Gerendurnir eiga flesta fjölmiðla landsins. Fjölmiðlarnir finna víða sökudólga og yfirleitt aðra en eigendur bankanna. Þá staðreynd verða menn að hafa í huga. Svo bera aðrir ábyrgð líka. Fyrst eftirlitsstofnanir ríkisins, svo ráðherrarnir sem framkvæma lögin og Alþingi sem setur leikreglurnar, loks kannski fleiri.

En ekki verður öll okkar ógæfa rakin til bankahrunsins. Það mátti hverjum manni vera ljóst að undanfarin 4 ár lifði þjóðin um efni fram. Opinberar tölur staðfestu mikla skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja. Of hátt gengi krónunnar leiddi af sér falskan kaupmátt. Verðhækkun íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 100% var langt umfram raunveruleg verðmæti. Dansinn kringum gullkálfinn var stiginn sem aldrei fyrr. Sá dans getur aldrei endað nema illa. Þessu hlaut að linna, sem það gerði.

Nú er komið að því að takast á við erfiðleikana og vinna bug á þeim. Nú þarf að borga skuldir, draga saman neysluseglin og læra aftur að meta önnur verðmæti en þau veraldlegu. Læra það að hægt er að eiga gott líf af minni efnum. Nú horfum við til betri tíma.

Eitt mega lesendur hafa í huga, að það er sannarlega gott að búa í Kópavogi.

greinin birtist í blaði Frjálslynda flokksins í Kópavogi.

Athugasemdir