Verkin þarf að vinna

Pistlar
Share

Víst er að landsmenn standa frammi fyrir meiri erfiðleikum nú en um marga áratugi. Víst er að margir tapa miklu fé á falli viðskiptabankanna. Víst er að margir bera ábyrgð á því hvernig komið er. Og víst er að meðal þeirra eru stjórnmálamenn, bæði alþingismenn og ráðherrar. En jafnvíst er að þeirra verkefni nú er að vinna verkin sem blasa við og láta ekki undan kröfum um alþingiskosningar á næstu mánuðum. Verðbólgan leikur heimili og fyrirtæki grátt þessar vikurnar. Erlendar skuldir bankanna ógna lífskjörum þjóðarinnar og viðskiptin við útlönd eru meira og minna í lamasessi.

Úrræðin eru ekki einföld og engin þeirra eru auðveld. Það eru bara vondir kostir í boði. En það verður að vinna verkin. Ef þing verður rofið og alþingiskosningar haldnar á næstunni munu verkin ekki verða unnin. Þá mun enginn vilja taka ákvörðun um hvaða vonda kost eigi að taka. Þá mun bara reka á reiðanum þar til búið verður að kjósa og mynda nýja ríkisstjórn. Það mun enginn stjórnmálaflokkur þora að leggja spilin á borðið fyrir kjósendur og segja allan sannleikann um fjárhagsstöðu hins opinbera, niðurskurðinn sem þarf að ráðast í, skattahækkunina sem er meira en líkleg og kjaraskerðinguna sem verður.

Það mun enginn flokkur vilja taka á sig óþægindi í aðdraganda kosninganna og líklega munu flokkarnir keppast um að halda því fram að hægt sé að komast hjá áhrifum kreppunnar með þessu eða hinu töfraúrræðinu, taka upp evru eða norska krónu, ganga í ESB, afnema verðtrygginguna, neita að borga þetta eða hitt. Í þrjá til fjóra mánuði mun efnahagsstjórnunin reka á reiðanum og svo mun ný ríkisstjórn í meginatriðum gera það sem núverandi ríkisstjórn er að gera og á að gera næstu mánuði. Eini munurinn er sá að vandinn verður miklu meiri þá vegna aðgerðarleysins.

Það þarf að ná stjórn á verðbólgunni. Það þarf aðgerðir til þess að afstýra gjaldþroti heimila og fyrirtækja. Það þarf að halda uppi atvinnu. Það þarf að draga saman útgjöld hins opinbera. Það þarf að borga skuldir og koma á jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Það þarf að setja í gang rannsókn á orsrökum kreppunnar og þætti hvers og eins. Það er verkefni ríkisstjórnar að vinna þessi verk. Til þess er hún kosin og hún situr uppi með það að hafa tekið að sér þetta verkefni hvort sem henni líkar betur eða verr.

Það er ekki ráðrúm til þess um þessar mundir að kjósa nýja ríkisstjórn og það hefur lítið upp á sig að skipta um flokka. Núverandi ríkisstjórn styðst við meiri þingmeirihluta en dæmi eru um á marga áratugi og er nokkurs konar þjóðstjórn. Við þessar aðstæður eiga flokkarnir ekki að ástunda hefðbundna stjórnarandstöðu. Þeir eiga að vinna að lausn mála rétt eins og stjórnarflokkarnir. Þeir eiga að benda á verkefni sem þarf að vinna skjótt og leggja fram sínar tillögur. Þeir eiga að gagnrýna ríkisstjórnina ef hún vanrækir verkefnin eða stefnir í ógöngur. En eitt eiga þeir ekki að gera, að leggjast í gamla farið, gagnrýna vinnubrögð og úrlausnir, en hafa engar tillögur og sitja hjá í ábyrgðarleysi.

Í augum almennings ber stjórnarandstaðan ekki síður ábyrgð á því hvernig komið er en ríkisstjórnin og hún á því til jafns við stjórnarflokkana að vinna verkin næstu mánuðina. Stjórnmálamönnum hefur vissulega mistekist að koma í veg fyrir bankahrunið en þeir bæta ekki stöðu sína með því að hlaupast frá því meginverkefni sínu, að stjórna og leiða þjóðina úr úr mestu erfiðleikunum.

Þegar um hægist og mál skýrast er tímabært að taka ákvarðanir um hvað beri að gera til lengri tíma litið og hvenær eigi að kjósa. Forsenda þess að kosningar skili einhverju er að stjórnmálaflokkarnir séu búnir að fara yfir ástæður þess hvernig komið er, finna svörin og marka sér stefnu og áherslur sem síðan verður kosið um. Þessi ferill er kallaður lýðræði.

pistillinn hefur áður birst á vefritinu smugan.is.

Athugasemdir