Fjárveitingarvaldið er hjá Alþingi

Pistlar
Share

Forsætisráðherra Geir H. Haarde, hefur sagt um kaup ríkisins á 75% hlutafjár í Glitni að heimildar Alþingis verði aflað, gerist þess þörf. Hann var eiginlega að segja með þessu að alls ekki væri víst að útgjöld upp á rúmlega 90 milljarða króna þyrftu samþykki Alþingis. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur Blöndal sagði í Kastljósi í vikunni að litið væri til þess að 33. grein laga um fjásrreiður ríkisins gæfi ríkisstjórninni heimild til þessara útgjalda.

Það er rétt að skoða þetta frekar. Greinin nefnist: Ófyrirséð greiðsluskylda A-hluta og er svohljóðandi:
33. gr. Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.

Þarna kemur til álita hvað er átt við með ófyrirséð atvik og hvort Glitnismálið falli undir fá skilgreiningu. Greinin er skýrð í frumvarpinu á þann hátt að : „Sem dæmi um greiðslur af þessu tagi má nefna greiðslu bóta vegna bótaskyldu sem fellur á ríkið samkvæmt skaðabótareglum. Ríkið kaupir almennt ekki frjálsar ábyrgðartryggingar til að standa straum af slíkum útgjöldum“.

Glitnismálið er ekki af þessum toga, það grundvallast á samningum milli ríkisins og stjórnar Glitnis og þarf samþykkis hluthafafundar. Það munu líða um það bil tvær vikur þarna á milli. Það er nægur tími til þess að leggja málið fyrir Alþingi á þeim tíma, ef nauðsynlegt er talið að samþykki þess liggi fyrir á undan hluthafafundi. Það er svo ljóst að ekkert skyldar Alþingi til þess að afgreiða málið með fjárveitingu fyrir sitt leyti fyrr en þinginu sýnist. Það er engin tímaþröng í málinu ef grannt er skoðað. Seðlabankinn getur einfaldlega sinnt hlutverki sínu og greitt úr vandanum með því að lána Glitni eða veita honum ábyrgðir þar til Alþingi hefur afgreitt hlutafjárkaupin.

Að auki er rétt að taka eftir orðalaginu í skýringunum: bóta sem fellur á ríkið. Samningur er á engan hátt þannig að hannn falli á ríkið. Niðurstaðan er algerlega ótvíræð, að mínu áliti, umrædd 33. grein fjárreiðulagann veitir ekki heimild til útgjaldanna, sem þýðir að leggja verður frumvarp fyrir Alþingi og afla heimildar þess.

Í öðru lagi er rétt að vekja athygli á því að ekki er aðeins að afla þurfi heimildar fyrir útgjöldunum heldur þarf líka að fá samþykki Alþingis fyrir kaupunum á hlutabréfunum. Í 29. grein sömu laga segir að afla skuli heimildar í lögum til að kaupa eignarhluti í félögum og hvernig sem menn vilja skilja 33. greinina þá er algerlega ómögulegt að lesa úr henni heimild til þess að kaupa hlutafé í Glitni.

Eftir skoðun málsins þá er niðurstaðan sú að fjárveitingarvaldið er hjá Alþingi og ríkisstjórninni ber að virða það. Það verður að leggja fyrir Alþingi frumvarp og afla heimilda til kaupa á hlutafénu og fjárveitingar fyrir kaupverðinu.

Ég er satt að segja verulega uggandi yfir því forsætisráðherra við annan mann og kannski fleiri telji sig geta leitt málið til lykta án atbeina Alþingis, nema þá til þess að blessa eftir á það sem þegar hefur verið löngu gert. Það fer eiginlega hrollur niður eftir bakinu þegar ég heyri þennan talsmála.

Athugasemdir