Fyrir land og þjóð

Pistlar
Share

Á mánudaginn brást Alþingi við með lagasetningu óvæntustu og erfiðustu aðstæðum í íslensku þjóðfélagi um marga áratugi, ef til vill væri hægt að tala um lengra tímabil. Fjármálakerfi landsins var að falla saman og helstu viðskiptabankarnir höfðu skuldsett sig langt umfram það sem hægt er að rísa undir við núverandi aðstæður í heiminum. Það var raunveruleg hætta á því að á ríkissjóð féllu skuldir sem tæki áratugi að greiða úr.

Það þurfti að bregðast hratt við. Það gerði stjórnvöldum erfitt fyrir að ákveða leiðina hvað upplýsingar frá fjármálafyrirtækjunum reyndust ótraustar og hversu hratt aðstæður þar breyttust. Það skýrir hversu óviss skilaboð bárust um helgina um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það var ekki fyrr en sérfræðingar frá JP Morgan höfðu lagt fram greiningu sína seint á sunnudagskvöld að myndin fór að skýrast af því hvað í raun og veru væri að gerast.

Það var ekki um annað að ræða , að mínu mati en að grípa til lagasetningar til þess að verja stöðu ríkisins og þar með þjóðarbúsins og jafnframt að bjarga því sem hægt var af fjármálakerfinu. Erlend umsvif viðskiptabankanna voru í reynd skorin frá og víglínan sett um innlendu starfsemina. Ríkissjóði verður einning heimilt að setja fé inn í sparisjóði landsins til þess að tryggja að sú starfsemi muni halda áfram. Þar kemur sér vel að enn eru til sparisjóðir sem ekki féllu fyrir skjótfengri gróðavon útrásarinnar. Jafnframt var aukin ábyrgð ríkisins á innlánum og sparifé landsmanna.

Lögin eru að stofni til heimildarlög og veita fjármálaráðherra víðtækar heimildir til fjárútláta úr ríkissjóði og Fjármálaeftirliti ríkar heimildir til afskipta af fjármálafyrirtækjum til þess að vernda almannahagsmuni. Þar er sérstök ástæða til þess að verkja athygli á heimildir Íbúðalánasjóðs til þess að yfirtaka íbúðalán fjármálafyrirtækja. Það er sérstaklega gert til þess að gefa skuldurum betra skjól og meiri möguleika á því að komast í gegnum skuldbindingar sínar en annars væri.
Húsnæðisverðbólan á höfuðborgarsvæðinu hefur skapað gríðarlegan vanda þúsunda íbúðakaupenda og ríkið verður greinilega að koma að lausn málsins. Mér þykir líklegt að þessi vandi sé mun minni á landsbyggðinni og þar segir til sín að þenslan fór framhjá garði víða.

Það er aldrei gott að setja lög í mikilli skyndingu, þá er hætta á mistökum í lagasetningunni og þingleg meðferð frumvarpsins á mánudaginn var mjög hraðsoðin. Óvissa um hver þróunin yrði gerði það að verkum að ógerningur var að hafa nákvæm fyrirmæli í lögunum og grípa varð til þess að opna heimildir til víðtækra aðgerða og vona svo það besta. Lögin varð að setja samdægurs.

Við þessar aðstæður verður að sýna samstöðu og greiða fyrir afgreiðslu málsins. Það var gert á Alþingi. Að auki var að mínu mati ekki valkostur að sitja hjá og firra sig ábyrgð. Þrátt fyrir allt komu ekki fram aðrar tillögur á Alþingi en ríkisstjórnin lagði fram svo það var sjálfgert að styðja framkomið frumvarp og breytingartillögur við það. Það gerði ég og lagði mitt af mörkum til þess að skapa víðtækan stuðning við nauðsynlegar aðgerðir á næstunni fyrir land og þjóð. Ekki veitir af.

Athugasemdir