Af hverju þjóðnýting?

Pistlar
Share

Sú ákvörðun ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands að þjóðnýta Glitni vekur ýmsar spurningar sem þarf að svara. Sú áleitnasta er hvers vegna Seðlabankinn fylgdi ekki ákvæðum 7. greinar laga um bankann sem heimilar honum að veita lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða lán á sérstökum kjörum gegn tryggingum eða öðrum skilyrðum sem bankinn kann að setja.

Spurningin er áleitin vegna þess að Glitnir hefur staðist öll álagspróf Fjármálaeftirlitsins og síðast í ágústmánuði. Í slíku prófi er kannað hvernig viðskiptabankinn stendur af sér áföll á ýmsum sviðum. Niðurstaðan var sú að eiginfjárstaða Glitnis var traust. Það segir skýrt að ekki er um eiginfjárvanda að ræða og bendir til þess að reksturinn sé almennt í lagi. Með öðrum orðum niðurstaða álagsprófs Fjármálaeftirlitsins er að Glitni ekki vantar hlutafé.

Í öðru lagi er spurningin áleitin vegna þess að svo virðist að ráðherrar og Seðlabanki líti á lausafjárvanda Glitnis sem jafngildi þess að bankanum verði ekki forðað frá gjaldþroti. Ummæli þess efnis hafa fallið frá Davíð Oddssyni, Seðlabankastjóra og svipuð frá viðskiptaráðherra sem talar um neyðaraðgerð. Þetta er skrýtið í ljósi þess að lögin um Seðlabanka gera greinarmun á lausafjárvanda og skorti á nægu eiginfé.

Vissulega má segja sem svo að að lausafjárvandi leiði að lokum til gjaldþrots hvaða fyrirtækis sem er, en það væri hártogun á ákvæðum laganna. Þar segir að þegar sérstaklega standi á og Seðlabankinn telji nauðsynlegt til þess að varðveita traust á fjármálakerfi landsins geti hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða lán á sérstökum kjörum og gegn tryggingum eða öðrum skilyrðum sem bankinn setur. Aðstæður Glitnis falla nákvæmlega að því sem lagagreinin í lögunum um Seðlabanka Íslands tekur á. Hvers vegna var þá ekki beitt þeim ráðum sem bankinn má grípa til, að lána eða veita ábyrgðir?

Ég sé í Morgunblaði dagsins að stjórnvöldum hafi ekki þótt trúverðugt að veita lán nú. Það myndi aðeins framlengja óvissuna og ekki koma í veg fyrir að sama staða kæmi upp við næsta gjalddaga. Þessi svör verður að skýra nánar. Ef þetta er rétt þá er eiginfjárstaða Glitnis mun verri en opinberar tölur og álit Fjármálaeftirlitsins greina frá. Eru þá þessar upplýsingar rangar og hver ber ábyrgð á því?
Á hinn bóginn þá á væntanlega eftir að fjármagna næstu gjalddaga eftir sem áður, þar sem hlutafé ríkisins fer allt í að greiða það sem bankinn á að borga í október. Liggur það fyrir að Glitnir myndi ekki takast að fjármagna sig nema með því eina ráði að hann verði ríkisbanki á ábyrgð þjóðarinnar? Ef það er svo þá þarf að skýra þá niðurstöðu í ljósi góðrar eiginfjárstöðu bankans.

Og ef það er ekki trúverðugt að veita neyðaraðstoð eins og það er orðað, þá er verið að hafna lagaúrræðinu margfræga, sem mælir fyrir um það hlutverk Seðlabankans að vera lánveitandi til þrautavara. Er það þá stefna ríkisstjórnarinnar að eina aðstoðin sem viðskiptabönkunum stendur til boða sé ríkisvæðing þeirra?

Loks vekur það spurningar hvers vegna Seðlabankinn er gerandi í aðgerð sem felst í kaupum á 75% hlutafjár í Glitni. Lögin um Seðlabankann draga alveg skýra línu á þann veg að afskipti Seðlabankans afmarkast við lánveitingu eða ábyrgðir, hlutafjárkaup eru utan við verksvið Seðlabankans. Í skýringum með umræddri lagagrein segir að forsenda afskipta Seðlabankans sé að um lausafjárvanda sé að ræða. Eiginfjarvanda verði að leysa með nýju hlutafé og að slíkum vanda komi Seðlabankinn ekki.

Það er kaldhæðni örlaganna að það var Davíð Oddsson, sem lagði fram frumvarpið um Seðlabankann árið 2001 og mælti fyrir því á Alþingi. Í ræðu sinni þá sagði hann m.a.: „ Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að þegar sérstaklega standi á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins geti hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða lán til að koma í veg fyrir t.d. bankakreppu. Sérstaklega er tekið fram að bankinn veiti ekki aðstoð til gjaldþrota lánastofnana eða lánastofnana með eiginfjárstöðu undir löglegum mörkum. Aðstoðin er takmörkuð við lánastofnanir sem lenda í vandræðum vegna lausafjárstöðu. Lánastofnanir sem t.d. uppfylla ekki skilyrði um lágmarks eigið fé verða að leysa sín mál með nýju hlutafé.“

Niðurstaða mín er sú að hlutafjárkaup verði aðeins ákveðin á Alþingi. Það fer með fjárveitingarvaldið, en hvorki Seðlabankinn né ríkisstjórnin. Ég sé hvergi heimild til Seðlabankans til þess að kaupa hlutafé hvorki í Glitni né öðrum banka. Það er kannski lokaspurningin: hvar er að finna lagaheimildir til þessarar hlutafjárkaupa ríkissjóðs og Seðlabankans?

Athugasemdir