Uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum

Pistlar
Share

Ræða í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag:

Tilefni þessarar umræðu er hrina uppsagna fólks í fiskvinnslu sem gengið hefur yfir undanfarnar vikur og er bein afleiðing af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um þriðjungs samdrátt í þorskveiðum. Augu almennings eru að opnast fyrir því hversu alvarleg staðan er orðin í velflestum sjávarbyggðum landsins og að komið er að ögurstundu í byggðaþróun. Framundan eru að óbreyttu gífurlegar breytingar í sjávarútvegi , veiðiheimildir munu sópast á forræði fárra fyrirtækja og í hverju þorpinu á fætur öðru munu störfin hverfa sem dögg fyrir sólu og fólkið á eftir þeim. Óbætanlegt tjón verður unnið á landsbyggðinni ef ekkert verður aðhafst.

Það sagði við mig á dögunum gamall maður vestur við Djúp, sem hefur starfað áratugum saman við sjóinn. „Þú sérð það hvað er að gerast, kallarnir munu selja kvótann hver á fætur öðrum og atvinnan er að hverfa í plássunum. Eftir nokkur ár verða ekki eftir störf í Bolungavík nema fyrir 300 – 500 manna þorp. Sama mun gerast hringinn í kringum landið. Þesar mótvægisaðgerðir eru bara brandari“.

Ég verð að viðurkenna að ég er að mörgu leyti sammála gamla sjómanninum. Störfum í sjávarútvegi hefur fækkað um 6000 síðan framsal veiðiheimildanna fór að virka um miðjan síðasta áratug. Afleiðingunum er ágætlega lýst í grein sem framkvæmdastjóri samtaka sveitarfélaga á Austurlandi skrifaði á síðasta ári undir fyrirsögninni : Þriðju deildar sveitarfélögin á landsbyggðinni eiga í vök að verjast – Rautt flagg er uppi.

Fyrir niðurskurðinn núna í þorskinum höfðu gengið yfir miklar þrengingar víða um landið. Árið 2005 hurfu 30% starfa í Súðavík á einu bretti og 7% starfa í Stykkishólmi þegar rækjuvinnslan gafst upp. Um 300 störf hurfu eins og hendi væri veifað þegar tveimur fullkomnustu frystihúsum landsins var lokað á Ísafirði. Til viðbótar þegar töpuðum störfum munu hverfa um 1000 störf í sjávarútvegi við niðurskurðinn í þorskinum sem vera á næstu árin og laun munu dragast saman um 6 milljarða króna á hverju ári. Það verðuer ekki tímabundinn samdráttur heldur varanlegur að bestu manna yfirsýn. Þau störf munu ekki koma aftur þótt veiðin verði aukin á nýjan leik. Ríkisstjórnin talar eins og hún geri sér ekki grein fyrir alvöru málsins og heldur að það sé nóg að bjóða fólki uppá að mála hús þar til úr rætist.

Á móti þessu áfalli býður ríkisstjórnin upp á mótvægisaðgerðir í 3 ár. Flaggskipið í þeim er 1milljarður króna í viðhald opinberra eigna.Settar eru 2 milljónir í byggðarlag þar sem nærfellt annar hver maður á atvinnu sína undir sjávarútvegi en 45 mkr. í byggðarlag þar sem enginn starfar við sjóinn, enginn er í fiskvinnslu, þar sem er engin höfn og þar sem er ekki einu sinni sjór. Það er alveg óþarfi af hv. sjávarútvegsráðherra og félögum hans í ríkisstjórninni að hafa fólk að háði og spotti í þrengingum þess.

Í mótvægisaðgerðunum eru innan við einn milljarður króna ætlaður til varanlegrar atvinnusköpunar á landinu öllu á næstu þremur árum. 160 mkr. til ferðaþjónustuverkefna og 200 mkr. til atvinnuþróunar og nýsköpunar eru aðeins til friðþægingar. Ríkisstjórnin veit að fyrir þessa smáaura verður engum umtalsverðum árangri náð. Hvert starf í álverinu fyrir austan kostar um hálfan milljarð króna. 150 mkr. fóru úr ríkissjóði fyrir fáum árum í að styrkja eitt verkefni við Bláa lónið. Halda ráðherrarnir virkilega að þeim takist að blekkja nokkurn mann þessum sjónhverfingum? Það þarf milljarða króna á hverju ári í nokkur ár í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni ef einhver alvara á að vera á ferðinni.

Sjávarútvegsráðherra á nú þegar að auka þorskveiðina um 40 þúsund tonn. Það er eina mótvægisaðgerðin sem kemur í veg fyrir hrun á landsbyggðinni. Ákvörðun um 130 þúsund tonna veiði næstu árin eru ekkert annað en aðför að sjávarplássum landsins, það ákvörðun um að hrekja þúsundir manna burtu af heimilum sínum og er jafn mikið mannréttindabrot og sjálf löggjöfin um stjórn fiskveiða.

Atvinnuöryggi fólks í sjávarútvegi er algerlega óviðunandi að óbreyttum lögum. Krafan þyngist stöðungt um breyttar leikreglur eftir því sem hroki og virðingarleysi ýmissa handhafa fiskveiðiheimildanna verður augljósari. Hver er búinn að gleyma loforðinu: Guðbjörgin verður áfram ÍS, áfram gul og áfram gerð út frá Ísafirði.
Sambærileg loforð hafa verið gefin og svikin í hverju bæjarfélaginu á fætur öðru um allt land síðustu 10 ár, nú síðast á Akranesi. Yfirlýsing var gefin fyrir fáum mánuðum um að flytja alla útgerð og vinnslu HB Granda til Akraness , en þegar borgaryfirvöld vildu ekki leyfa eigendunum að braska með lóðir fyrirtækisins að eigin vild og hirða gróðann af því þá var blaðinu snúið við og 100 ára sögu Haraldar Böðvarssonar hf. er að ljúka þessa dagana í hefndarskyni að því er virðist. Rúmlega 21.000 þíg tonna kvóta farinn úr bænum.

Þarf eitthvað frekar vitnanna við að það verður að breyta leikreglunum í íslenskum sjávarútvegi? Það þarf nýjar leikreglur í sjávarútvegi sem miðast við hag og öryggi íbúanna og setur handhöfum veiðiheimildanna réttmætar og nauðsynlegar skorður.

Ofangreint er innihaldið í tveimur ræðum sem ég flutti í dag við utandagskrárumræðu sem ég hóf og beindi til sjávarútvegsráðherra.

Athugasemdir