Langvarandi mannréttindabrot á Íslandi

Pistlar
Share

Nýlegt álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna staðfestir að löggjöfin um stjórn fiskveiða hefur frá 1990 brotið í bága við samninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þann samning fullgilti ríkisstjórnin fyrir Íslands hönd eftir að ályktun Alþingis lá fyrir vorið 1979.
Nefndin telur að lögin umdeildu brjóti gegn jafnræðisreglu samningsins. Athyglisvert er að íslenska ríkið hélt uppi vörnum í málinu en mannréttindanefndin segir samt að því hafi ekki tekist að sýna fram á að úthlutunarreglur veiðiheimildannna fullnægi þeim kröfum sem gera verður um sanngirni.

Eins og nafn nefndarinnar ber með sér er litið á brot gegn samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem mannréttindabrot. Á slíkt er litið alvarlegum augum bæði af almenningi og stjórnvöldum í flestum ríkjum. Núverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talaði mjög skýrt í ræðu sem hún flutti á málþingi sem haldið var í Háskólanum á Akureyri 10. desember 2007.

Þar sagði hún að íslenskt samfélag hefði notið ómælds gagns af starfi alþjóðlegra mannréttindastofnana og að almenningur hefði lært að leggja traust sitt á mannréttindi og alþjóðlega vernd þeirra í eigin lífi. Í ljósi þessara orða er vandséð hvernig utanríkisráðherra og Samfylkingin geti látið álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna rykfalla í hillu aðgerðarleysis eins og tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa beinlínis sagt opinberlega. Ríkisstjórn sem umber og jafnvel viðheldur langvarandi mannréttindabrotum innanlands er ekki trúverðung á alþjóðavettvangi og á ekkert erindi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hefur ekki verið lögfestur sem slíkur, en velflest ákvæði hans eru þó komin inn í íslenska löggjöf. Þannig komu 1995 inn í stjórnarskrána viðamikil mannréttindaákvæði. Fyrirmynd að þessum nýju og breyttu stjórnarskrárákvæðum var einkum sótt til mannréttindasáttmála Evrópu og samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningsins sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna starfar eftir og túlkar. Meðal nýju ákvæðanna í stjórnarskráinni er sérstök jafnræðisregla, en fyrirmynd að henni var sótt til samnings Sameinuðu þjóðanna.

Íslenskir dómstólar hafa á síðustu árum í auknum mæli túlkað ákvæði stjórnarskrárinnar í ljósi alþjóðlegra samningsskuldbindinga um mannréttindi. Þess eru dæmi að Hæstiréttir Íslands hafi fellt dóma þar sem jafnræðisregla Stjórnarskrárinnar var skýrð í ljósi ákvæða þeirrar greinar samnings Sameinuðu þjóðanna sem álit mannréttindanefndarinnar byggir á.

Þar má nefna sérstaklega dóm frá desember 2000 í máli Öryrkjabandalagsins gegn ríkinu þar sem skerðing lífeyrisbóta var dæmt ólögmæt. Í þeim dómi skýrðu íslenskir dómstólar í fyrsta skipti ákvæði nýja mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, og sérstaklega jafnræðisregluna, í ljósi sama ákvæðis samnings Sameinuðu þjóðanna og mannréttindanefndin var nú að skýra betur með áliti sínu, þ.e. 26. greinar samningsins.
Það er að vonum, því jafnræðisreglan var þannig skýrð í stjórnarskrárfrumvarpinu frá 1995 „að hún væri afdráttarlaust orðuð í 26. grein alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi“.

Álit mannréttindanefndarinnar nú mun því hafa áhrif á íslenska dómstóla þegar þeir þurfa að túlka mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það getur leitt til þess að Hæstiréttur Íslands muni komast að annarri niðurstöðu en áður í sambærilegu máli. Til dæmis næst þegar dómurinn þarf að meta hvort framsalið og úthlutunarreglur íslenska kvótakerfisins samræmist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Nú liggur fyrir að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að reglur kvótakerfisins brjóti gegn jafnræðisreglu samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Það liggur líka fyrir að Hæstiréttur hefur fellt dóm þar sem skilningur á íslensku jafnræðisreglunni er sóttur til jafnræðisreglu samnings Sameinuðu þjóðanna. Það liggur ennfremur fyrir að íslenska ríkið hefur viðurkennt lögbærni mannréttindanefndarinnar til til þess að taka við erindum og athuga frá einstaklingum, ríkið hefur fyrir nefndinni tekið til varna í málinu og borið fram rök sín og tapað málinu.

Það er engin leið fyrir ríkið að neita nú að viðurkenna niðurstöðu nefndarinnar, aðilanum sem það hefur samþykkt til þess að túlka samninginn. Langvarandi mannréttindabrotum á Íslandi verður að linna.

Athugasemdir