Tveir viðskiptaráðherrar í einni ríkisstjórn

Pistlar
Share

Það stingur mjög í augu hvernig stjórnarflokkarnir tala hvor í sína áttina í hverju málinu á fætur öðru. Það má svo sem segja að það sé í lagi að vissu marki, þar sem um tvo stjórnmálaflokka er að ræða sem hafa ólíkar stefnu í ýmsum málum. En það getur gengið út í öfgar, ríkisstjórn er mynduð um eina sameiginlega stefnu í öllum helstu málum og ráðherrarnir eiga að tala fyrir henni. Það er fráleitt að í veigamiklu máli komi fram tvö ólík sjónarmið og stefnur frá ráðherrum, eftir því í hvorum stjórnarflokknum þeir eru.

Slíkt ástand lýsir fyrst og fremst ágreiningi á stjórnarheimilinu og opinberar að stjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um eina stefnu. Það er mjög sérstakt þegar ráðherrar telja sig fyrst og fremst þurfa að halda fram eigin flokkslínu í stað þess að flytja stefnu ríkisstjórnarinnar.

Hér skulu nefnd nánast af handahófi: aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru, viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um lögin um stjórn fiskveiða, stefna í loftslagsmálum sérstaklega varðandi íslenska ákvæðið, löggjöf um orkuauðlindir og almennt afstaða til þess hvort auðlindir eigi að vera séreign eða þjóðareign, framhald á stóriðjuuppbyggingu og afstaða til nýrrar álvera eða olíuhreinistöðva, afstaða til nýlegrar skipunar héraðsdómara og almennt afstaða til þess hvernig ráðherrar eigi að beita valdi sínu, sérstakur persónuafsláttur til lágtekjufólks og áframhaldandi hvalveiðar.

Hvert og eitt þessara mála veldur miklum vandræðum í stjórnarsamstarfi í hvaða ríkisstjórn sem er, en öll þessi vandamál samanlögð gera það að verkum að ríkisstjórnin vinnur fyrst og fremst sem tvær ólíkar ríkisstjórnir, hvor fyrir sinn flokk.

Ég tók upp eitt þessara ágreiningsmála í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, evruna. Viðskiptaráðherra á að sjálfsögðu að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í þessu máli og lýsa stefnu hennar. Hann hefur hins vegar mjög ákveðið talað fyrir skoðun eigin flokks. Í Viðskiptablaðinu í júlí á síðasta ári segir viðskiptaráðherra að aðild Íslands að ESB sé langheppilegasta skrefið sem Ísland gæti tekið í framtíðarsamskiptum sínum við Evrópu og meginkosturinn yrði upptaka evrunnar.

Hann hefur fylgt þessu eftir með því að láta svo um mælt að viðvarandi himinháir vextir og gengissveiflur og efnahagslegur órói í kringum gjaldmiðilinn beini sjónum manna að framtíð krónunnar. Utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar herti á þessu sjónarmiði á dögunum þegar hann sagði að krónan væri orðin viðskiptahindrun. Viðskiptaráðherra segir að almenningur, einyrkjar og smáfyrirtæki blæði fyrir veikleika krónunnar. Á heimasíðu sinni bætir viðskiptaráðherran um betur og segir það eitt stærsta hagsmunamál almennings og fyrirtækja í dag að taka upp evruna og telur að það kosti þjóðina um 72 milljarða króna á hverju ári að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli.

Þetta sjónarmið ráðherrans er auðvitað þess eðlis að það verður að taka alvarlega. Viðskiptaráðherrann tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og fyrst hann er þessarar skoðunar um kostnað við krónuna þá verður ríkisstjórnin að bergðast við í samræmi við hana. Að öðrum kosti er ríkisstjórnin að bregðast landsmönnum og íþyngja þeim verulega. En því er ekki að heilsa viðbrögðin eru þau að forsætisráðherra vísar málflutningi viðskiptaráðherrans á bug og niðurstaðan er að ekkert er gert, en eftir situr að viðskiptaráðherrarnir eru orðnir tveir í ríkisstjórninni og talar hvor fyrir sinni stefnunni.

Þá er staðan þessi: Samfylkingin telur krónuna vera mikla byrði á íslenskan almenning og fyrirtæki. Ætlar hún að una því allt kjörtímabilið að ekkert verði aðhafst og glata með því trúverðugleika sínum gagnvart kjósendum? Frá sjónarhóli Sjálfstæðisflokksins horfir málið þannig að samstarfsflokkurinn er í raun að væna hann um að skaða hag almennings og fyrirtækja sem nemur tugum milljarða króna á hverju ári með því að standa gegn evrunni og ætla sjálfstæðismenn að sitja undir því?

Athugasemdir