Bætiflákar Ríkisútvarpsins fyrir lögleysu

Pistlar
Share

Það var einkennilegt að heyra í fréttum kl. 16 frásögn Ríkisútvarpsins af þingfundi í morgun. Farið var með rangfærslur um staðreyndir og gert lítið úr gagnrýni á fundarstjórn forseta Alþingis og hún kölluð deilur um keisarans skegg. Það verður ekki hjá því komist að gera athugasemdir við svona fréttaflutning og skýra málið svo útvarpshlustendur hafi að minnsta kosti aðra frásögn við að styðjast, ef þeir hafa áhuga á að kynna sér hana. Að vísu er frásögn á lítilli heimasíðu líklega léttvæg í samanburði við áhrifamátt Ríkisútvarpsins, en við það verður að una.

Það er ekki svo að þingmenn eigi þess alltaf kost að blanda sér í umræður. Það á t.d. við þegar þingmál eru tekin fyrir samkvæmt dagskrá og þá er meginreglan að hver þingmaður geti talað tvisvar í hverri umræðu. Annað er upp á teningnum þegar mál ef tekið fyrir með öðrum hætti, sem getur gerst með utandagskrárumræðu eða umræðu í upphafi þingfundar um störf þingsins. Takmarkaður tími er til slíkrar umræðu og því fáir þingmenn sem komast að.

Um það gilda reglur í sérstökum lögum um þingstörfin hvernig forseti Alþingis á að bera sig að og ákvarða hverjir fái að taka til máls og þá hverjir ekki. Það eru ekki deilur um keisarans skegg eða þras um í hvaða röð menn ætti að komast í ræðustól, eins og fréttamaður Ríkisútvarpsins komst svo smekklega að orði um gagnrýni á fundarstjórn forseta, sem málið snýst um, heldur það hverjir fái yfirhöfuð að tala og koma sínu sjónarmiði að. Málflutningur er jú það sem málið snýst um á þingfundum Alþingis, þeir eru haldnir til þess. Áhrif og árangur í stjórnmálum ræðst m.a. af því hverjir fá að tala og koma sínu máli á framfæri einmitt við tækifæri eins og var í morgun þegar fjölmiðlar beina kastljósi sínu að umræðunni.

Þingfréttamaður Ríkisútvarpsins gerir beinlínis lítið úr gagnrýninni með því að segja "var tekið til við að ræða fundarstjórn forseta og hversu ómöguleg hún væri að mati þeirra sem komust síðar í ræðustól en þeir vildu". Þarna er farið með rangt mál. Málið snerist ekki um það í hvaða röð menn kæmust að í umræðunni heldur hvort menn yfirhöfuð kæmust að. Málið snerist um það að forseti fór ekki eftir þingsköpum og eigin túlkun á þeim og hleypti með því einum að og meinaði öðrum að taka til máls.

Um það snýst málið, að fara að lögum. En þessu er snúið á öfugan veg í fréttinni, þar er því sjónarmiði gert hátt undir höfði að þeir sem gera athugasemd við ranga framkvæmd laga beri ábyrgð á því að virðing almennings á Alþingi fer þverrandi samkvæmt nýlegri skoðanakönnun, en ekki þeir sem fara rangt að. Ég er á annarri skoðun og tel að Alþingi hafi sett ofan einmitt vegna þess að ráðamenn þess hafi ítrekað verið berir að því að virða ekki eigin lög og reglur. Svona fréttamat er sambærilegt við það að gagnrýna þann sem gerir athugasemd við það að bíl sé ekið gegn rauðu ljósi en ekki ökumanninn.

Umræður um störf þingsins eru aðeins mögulegar í upphafi þingfundar og mega aðeins standa yfir í 20 mínútur. Hver þingmaður má tala í 2 mínútur í senn og enginn oftar en tvisvar. Þessi möguleiki er oft nýttur til þess að taka upp mál fyrirvaralítið. Í dag var einmitt þetta gert og eðlilega tekið upp nýframlagt stjórnarskrárfrumvarp formanna stjórnarflokkanna.

Fyrr á þessu ári hefur forseti Alþingis sætt gagnrýni fyrir val sitt að ræðumönnum í umræðu af þessu tagi. Forsetinn hefur þá skýrt lagaákvæðið og þær skýringar hafa verið teknar góðar og gildar. Í síðasta mánuði, þann 12. febrúar gefur forsetinn, Sólveig Pétursdóttir, þessi svör:

"Um þetta vill forseti segja að sú regla gildir í þessari umræðu að þingmenn eru teknir á mælendaskrá í þeirri röð sem þeir biðja um orðið, og því miður er það svo að ekki komast allir þingmenn að í þessari umræðu þar sem samkvæmt þingsköpum er aðeins gert ráð fyrir 20 mínútum. Þetta hyggur forseti að hv. þingmönnum sé fullkunnugt um."

Og þann 26.febrúar 2007 gefur forsetinn þessar skýringar:

"Forseti hefði haldið að hún þyrfti ekki að útskýra hvaða reglur giltu um umræðu um störf þingsins og að hv. þingmanni eins og öðrum hv. þingmönnum væri kunnugt um það. Það er auðvitað þannig að sérstök regla gildir um þennan þátt í þingsköpum og þingmenn eru einfaldlega teknir á mælendaskrá í þeirri röð sem þeir óska eftir að taka til máls. Forseti spyr ekki hv. þingmenn að því hvað þeir ætla að ræða um efnislega. Þingmenn hafa rétt á því að taka til máls. Þar fyrir utan er sérstakur dagskrárliður sem heitir utandagskrárumræða, sem er reyndar utan dagskrár, en þeirri umræðu er þannig háttað að málshefjandi og hæstv. ráðherra komast aftur að í þeirri umræðu og hún er bundin við ákveðið málefni. Svo er ekki um þennan lið sem fjallar um störf þingsins".

En svör forseta í morgun voru á annan veg:

"Forseti vill benda hv. þingmönnum á 1. mgr. 56. gr. þingskapa. Þar segir að forseti gefi „þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess þá er dagskrármálið er tekið fyrir. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra, sem hlut á að máli, og framsögumann, svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á, eða til þess að þingmaður geti gert stutta leiðréttingu eða athugasemd er snertir sjálfan hann“.
Þannig var mál með vexti að hv. formaður Samfylkingarinnar hafði óskað eftir að ræða þetta mál aftur og einn þingmanna úr flokki hennar vék í staðinn af mælendaskrá. Að sjálfsögðu getur forseti gefið ráðherrum, og einkum og sér í lagi hæstv. forsætisráðherra, tækifæri til að ræða hér málin".

Þessi skýring forseta styðst ekki við lög og er í andstöðu við fyrri framkvæmd og úrskurði forseta. Það sem gerðist er að forseti fer ekki eftir röð ræðumanna heldur hleypir formanni Samfylkingarinnar og forsætisráðherra að aftur í umræðunni og fram fyrir þingmenn sem höfðu áður beðið um orðið og fengu þar af leiðandi ekki að tala. Það bitnaði m.a. á þingmanni Frjálslynda flokksins. Þetta var gagnrýnt og eðlilega. Forseti Alþingis verður að fara að lögum. Það gengur ekki að útvaldir fái sérmeðferð.

Mér finnst ekki eðlilegt að Ríkisútvarpið geri lítið úr því að farið sé að lögum og að jafnræðis sé gætt milli þingmanna. Fréttin í dag var að mínu mati mjög gildishlaðin, borið í bætifláka fyrir rangláta fundarstjórn sem bitnaði á Frjálslynda flokknum og þingmaður Frjálslynda flokksins er settur í neikvætt ljós. Forseti Alþingi hefur áður verið gagnrýndur af sama tilefni en þá af þingmönnum annarra stjórnarandstöðuflokka og ekki hef ég þá heyrt viðlíka fréttaflutning í Ríkisútvarpinu um framsetta gagnrýni og hlýt að benda á það.

Athugasemdir