Stóriðja er atvinnumál

Pistlar
Share

Fram til þessa hafa umhverfismál borið einna hæst í þjóðmálaumræðunni. Það ber vott um ríkan vilja til þess að ganga vel um landið og skila því í góðu ástandi til komandi kynslóða. Hver óborin kynslóð á rétt til þess að geta notið landsins. En hver kynslóð vill líka skapa sér sem best lífskjör og það gerist ekki án þess að nýta landsins gögn og gæði, auðlindir til lands og sjávar. Landnýtingin er óaðskiljanlegur hluti þess að landið er byggt. Í þessu sem öðru er hóf best á öllum hlutum, en verst er ofstækið.

Ég hrökk við þegar ég heyrði um daginn viðtal við einn geðþekkan og viðkunnarlegan frambjóðanda, sem greinilega bar miklar tilfinningar í brjóti varðandi áformaðar virkjanir og talaði um landdrekkingarstefnu sem væri að eyðileggja landið. Þarna birtist alger andstaða við virkjanir og stóriðju hvaða nafni sem þær nefnast. Ég get ekki tekið undir þessi sjónarmið. Vissulega eru til virkjunarkostir sem mér finnst óaðgengilegir, svo sem Norðlingaölduveita vegna áhrifa við Þjórsárver, en það er fráleitt að kalla það landdrekkingu þótt land fari undir vatnslón. Nafngiftin er líka gildishlaðin og vísar til þess að drekkja fólki, samanber drekkingarhyl í Öxará og gefur virkjun almennt mjög neikvæða merkingu.

Líklega eru svona ofstækisfull viðhorf gegn virkjun orkunnar andsvar við hófleysinu í hina áttina, sem hefur einkennt framgöngu ríkisstjórnarinnar á síðustu árum. Þar hefur verið gengið fram af offorsi. Verð á raforkunni er falboðið á langlægsta verði í Evrópu sem gefur lítinn þjóðhagslegan ávinning og í miðjum framkvæmdunum við Kárahnjúka, sem er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, eru boðaðar a.m.k. framkvæmdir við þrjú stór álver á stuttum tíma og tilheyrandi virkjunarframkvæmdir.

Þenslan í þjóðfélaginu hefur verið útflutningsgreinum erfið á köflum, vakið verðbólgudrauginn af værum svefni og skuldir heimilanna eru orðnar af þeim sökum mun hærri en hefði þurft að vera, ef hófs hefði verið gætt. Svo það er ekki nema von þótt fólki ofbjóði stóriðjutilstandið sem framundan er.

En við skulum hafa í huga að orkan er auðlind, hana á að nýta til þess að skapa þjóðinni góð lífskjör. Stóriðja er atvinnurekstur sem skapar mörg velllaunuð störf og á fullan rétt á sér. Í hófi eins og annað gagnvart umhverfinu, efnahagslífinu og öðrum atvinnugreinum. Þessa auðlind á að nýta og gæta þess að arðurinn af henni renni til þjóðarinnar og auðgi atvinnulíf, líka þar sem hún er nýtt.

Þingeyingar eiga fullan rétt á því að orkan í héraði þeirra verði til þess að efla atvinnu og byggð þar. Ég get ekki séð neina sanngirni í því að meina þeim að njóta góðs af auðlind héraðsins og ætla þeim að horfa í gaupnir sér með tvær hendur tómar á eftir fólkinu suður. Stóriðja í Hvalfirði hefur gerbreytt atvinnuástandi og íbúaþróun á Akranesi og nágrenni til hins betra á síðasta áratug. En orkuverðið þarf að vera gott, launin góð, umgengnin um landið góð og efnahagsmálin í góðu lagi.

Stóriðja í hófi er skynsamleg stefna.

Greinin birtist í Blaðinu 10. mars 2007.

Athugasemdir