…en með ólögum eyða

Pistlar
Share

Það var mikill þungi í fundarmönnum á borgarafundinum á Ísafirði í gær. Undir niðri kraumar uppsöfnuð og langvarandi reiði vegna skeytingarleysis stjórnvalda um hagsmuni íbúa fjórðungsins. Það er uggur í fólki vegna sölu, lokunar og gjaldþrota einstakra fyrirtækja á Ísafirði undanfarnar vikur.

Hvert byggðarlagið á fætur öðru hefur mátt þola áföll sem hafa riðið yfir eins og brotsjóir í hálfan annan áratug. Fyrst á Patreksfirði, síðan Bíldudal, Þingeyri, Suðureyri, Flateyri, Bolungavík, Súðavík, Hólmavík og Ísafjörður. Öll áföllin tengdust sölu kvóta eða gjaldþroti lykilfyrirtækja og höfðu sömu afleiðingar, atvinna dróst saman, fólki fækkaði, tekjur lækkuðu, eignir féllu í verði.

Þegar aðalatvinnuvegurinn dregst stórlega saman verður sambærilegur samdráttur í peningaveltunni, launagreiðslum og öðrum umsvifum. Með öðrum orðum neikvæður hagvöxtur. Þetta eru fjötrar kvótalaganna.. Það duga ekki neinar smáskammtalækningar til þess að vega upp samdráttinn. Tíu milljónir króna á ári frá ríkinu í þrjú og hálft ár er eiginlega verra en ekkert. Það er sama og að gera grín að Vestfirðingum.

Á Austurlandi þurfti meira en 10 milljónir króna. Landsvirkjun setti milljarða króna í rannsóknir og undirbúning að virkjun við Kárahnjúka og framkvæmdin ásamt álveri losar 200 milljarða króna. Í Þingeyjarsýslum er verið að setja mikla peninga til þess að koma á fót álveri við Húsavík. Það tekur ríkið eina öld að verja 1 milljarði króna til atvinnumála á Vestfjörðum, það er að segja ef einhver trúir því að vaxtarsamningurinn verði framlengdur um 97 ár.

Vaxtarsamningur í eina öld er samt ekki nema 0,5% af Austfjarðaátaki ríkisstjórnarinnar. Það mun taka 200 aldir með sama áframhaldi að ná "Kárahnjúkaumfangi" á Vestfjörðum. Þyrnirós svaf lengi, heila öld, en sá svefn er sem örskotsblundur hjá þessu. Ég skil þá vel á Norðurlandi vestra að neita að skrifa undir sambærilegan vaxtarsamning fyrir sitt svæði. Það eru takmörk fyrir langlundargeðinu.

Til er máltæki sem hefst á orðunum með lögum skal land byggja. Satt er það að lög eru nauðsynleg til þess að menn byggi land í friði hver við annan. En máltækið endar á orðunum: en með ólögum eyða. Þegar það gerist að fólki fækkar um liðlega fimmtung á aðeins 12 árum í heilum landsfjórðungi eru ólög að verki. Vestfirðingar muna það að byggðin norðan Ísafjarðardjúps fór í eyði fyrir rúmum 40 árum.

Hraðinn á fólksfækkuninni nú er slík að ef horft er 2 áratugi fram í tímann með sama áframhaldi áttar sig hver maður á því að byggðin vestan Djúps vestur í Breiðafjörð getur eyðst líka. Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða.
Þess vegna skorar borgarafundurinn á kjörna fulltrúa að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum.

Athugasemdir