Einkamál stjórnmálaflokkanna

Pistlar
Share

Fyrir jólin voru sett lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Löngu tímabær lagasetning, þótt hún sé meingölluð.

Helsti ávinningurinn er að mínu mati ákvæðin um reikningsskil og upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka. Gert er skylt að láta endurskoða reikninga flokkanna samkvæmt leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar, sem getur hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna að framlög einstaklinga og lögaðila séu innan marka laganna.

Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka með samræmdum hætti. Þar skal greina a.m.k. heildartekjur og heildargjöld. Þá skal flokka tekjur eftir uppruna, þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum, ásamt helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.
Þessi ákvæði ein og sér eru mikilvæg og urðu til þess að ég ákvað að greiða frumvarpinu atkvæði mitt að lokum.

Hitt er öllu verra að stjórnmálaflokkarnir sammælast um að torvelda samkeppni frá nýjum aðilum um hylli kjósenda. Þetta er nokkurs konar olíuverðssamráðsstíll. Fjárframlög til stjórnmálasamtaka frá einstaklingum eða fyrirtækjum eru takmörkuð við tiltölulega lága fjárhæð og flokkarnir bæta sér það upp með því að hækka stórlega árlegt framlag úr ríkissjóði. Ný framboð eiga ekki þess kost að fá ríkisstuðning til þess að standa straum af kostnaði við kosningabaráttu. Skilyrði fyrir ríkisstuðningi er að boðið hafi verið fram í næstliðnum kosningum og náðst a.m.k. sá árangur að hafa fengið mann kjörinn eða 2,5% atkvæða á landsvísu. Tæknilegar viðskiptahindranir eru svona aðgerðir kallaðar í viðskiptalífinu.

Verst við lagasetninguna og málatilbúnaðinn er sú augljósa staðreynd að flokkarnir sem stóðu að málinu líta svo á að stjórnmálastarfsemi og löggjöf um hana sé einkamál þeirra. Forystumenn flokkanna skipuðu menn í nefnd sem undirbjuggu lagasetninguna. Nefndin sendi þeim skýrslu sína og tillögur. Sömu forystumenn lögðu frumvarpið fram á Alþingi og þar var það keyrt með hraði í gegnum þrjár umræður á tveimur dögum undir blálokin rétt fyrir jól þegar nokkuð öruggt er að almenningur er að hugsa um annað.

Þeir voru einir um það að taka til máls við 1. umræðu og sömdu um það að aðeins útvaldir fengju að taka við 2. umræðu. Að vísu var pistlahöfundur ekki látinn vita af þagnarbindindinu en það hefði líklega ekki breytt neinu hvort sem er. Málið var ekki sent út til umsagnar og almenningi, félagasamtökum eða öðrum sem telja sig málið varða og vilja koma sjónarmiðum sínum að var því vísvitandi og af ásettu ráði haldið frá því. Ég leyfði mér í ræðu sem ég flutti við 2. umræðu málsins að gagnrýna þessa málsmeðferð og minnti á eftirlaunalögin sem sett voru fyrir tveimur árum og spurði hvort ekki væri rétt að læra af mistökunum sem þá voru gerð.

Löggjöf um stjórnmálastarfsemi er þörf og nauðsynleg, en það er ekki einkamál fáeinna forystumanna flokkanna að ráða henni til lykta. Það þykir ekki góð latína lengur að menn sitji báðum megin borðs hvað þá að vera allt í kringum borðið eins og er í þessu tilviki. Þess vegna átti að senda frumvarpið til umsagnar og gefa rúman tíma fyrir almenning og gefa hverjum þeim sem það vildi tækifæri til þess að setja fram ábendingar og tillögur um það sem í löggjöfinni ætti að vera. Þessi löggjöf á ekki að vera einkamál stjórnmálaflokkanna.

Ég er heldur ekki viss um að þróunin undanfarin ár sé æskileg fyrir lýðræðið. Stöðugt hefur stefnt í aukið vald fárra forystumanna með aukinni miðstýringu í stjórnmálaflokkunum sem fylgir risastórum kjördæmum og veikari stöðu þingmanna bæði gagnvart forystunni og ráðherrum. Sem dæmi um breytinguna nú er að felld er niður sérstök fjárveiting til flokkanna vegna landsbyggðakjördæmanna stóru þegar þau urðu til og í staðinn verður hún hluti af almennri fjárveitingu til stjórnmálaflokkanna.

Fjölmiðlamálið er dæmi um mál sem er afleiðing þessarar þróunar. Það hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum að þingmenn stjórnarflokkanna hefðu látið beygja sig undir ofríkið sem einkenndi það mál. Það er ekki síður mikilvægt við þessar aðstæður að styrkja stöðu alþingismanna, svo sem með skaplegri kjördæmum og beinum aðgangi þeirra að ráðgjöf og þekkingu. Lýðræðið er ekki fullkomið hér á landi og á kjörtímabilinu sem er að líða hefur það rækilega komið fram. Úrbæturnar sem þarf að ráðast í felast ekki endilega í því að setja meiri peninga í stjórnmálaflokkana og auka á samtryggingu þeirra. Það gætu utanaðkomandi bent á, ef þeir fengju tækifæri til þess.

Athugasemdir