Nei við hlutafélagavæðingu RÚV

Pistlar
Share

Enn er hlutafélagvæðing RÚV komið á dagskrá Alþingis. Afstaða mín til málsins er óbreytt frá síðustu útgáfu málsins. Ég er andvígur breytingunni og held mig við samþykkta stefnu flokksins á síðasta kjörtímabili , að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun og rekstur hennar tryggður með þjónustusamningi við ríkið.

Eftir ágætt starf málefnahóps innan flokksins samþykkti miðstjórn haustið 2001 heildstæða stefnu um Ríkisútvarpið sem síðar var staðfest á næsta flokksþingi. Á flokksþingi 2001 var samþykkt að Ríkisútvarpinu yrði ekki breytt í hlutafélag og flokksþingið 2003 bætti um betur og markaði stefnuna um sjálfseignarstofnun. Þetta var svar flokksins við stöðugri kröfu Sjálfstæðisflokksins sem lengi hefur viljað breyta RÚV í hlutafélag sem síðar yrði selt.

Fyrir síðustu Alþingiskosningar 2003 var stefnan boðið skýrt og greinilega og í kosningastefnuskránni sagði: "Ríkisútvarpinu verði breytt í sjálfseignarstofnun og rekstur hennar tryggður með þjónustusamningi við ríkið". Þar stóð líka: "Framsóknarflokkurinn stendur á traustum grunni, hann feykist ekki til og frá í sviptivindum dagsins. Kjósendur okkar vita fyrir hvað við stöndum og geta treyst orðum okkar".

Eftir kosningarnar var stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn endurnýjað og ekki gengið að kröfu hans um RÚV. Það er því ekki hluti af stjórnarsáttmálanum að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Ég er ekki tilbúinn til þess að taka nú upp stefnu Sjálfstæðisflokksins og vil halda mig við þá stefnu sem flokkurinn bar fram fyrir kjósendur í síðustu Alþingiskosningum og sem ég tel að enn sé stefna flokksins.

Tilgangur þess að breyta stofnun í hlutafélag er sá einn að selja síðar. Það kom fram í fyrstu atrennunni sem gerð var að RÚV með frumvarpinu um sameignarfélag. Í greinargerð með því frumvarpi stóð: " Við samningu frumvarps þessa var ekki farin sú leið að stofna hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu- hér er um að ræða félag sem ekki er ráðgert að selja". Í kjölfarið hafa svo siglt frá ríkisstjórninni tvö hlutafélagafrumvörp og að auki yfirlýsingar og þingmannafrumvarp frá nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um sölu Ríkisútvarpsins.

Verði Ríkisútvarpið hlutafélag fellur starfsemin að miklu leyti undan núverandi löggjöf um hið opinbera, svo sem stjórnsýslulögum, lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og verður að sama skapi með svipuðu sniði og rekstur fyrirtækis á almennum markaði. Einkavæðing starfseminnar mun þá í raun hafa átt sér stað og í kjölfarið mun verða krafist breytinga á framlögum ríkisins til Ríkisútvarpsins og að þau afmarkist við þjónustu sem einkafyrirtæki sinni ekki. Hlutafélagavæðingin er þá orðin en salan fer fram síðar.

Ég vil benda á afstöðu Sambands ungra framsóknarmanna, sem "leggst gegn því að frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. verði samþykkt, og RÚV þannig gert að hlutafélagi " og " Það að breyta RÚV í hlutafélag telur SUF hins vegar aðeins vatn á myllu andstæðinga RÚV og þeirra sem vilja einkavæða starfsemi þess" Niðurstaða SUF er: "SUF hvetur því þingmenn til þess að samþykkja ekki fyrirliggjandi frumvarp, en þess í stað leggja fyrir menntamálaráðherra að hefja undirbúning að því að breyta RÚV í sjálfseignarstofnun sem hafi að fyrirmynd breska ríkisútvarpið BBC."

Þá vil ég rifja upp samþykkt stjórnar félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður :
"Stjórn Alfreðs, félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður, skorar á forystumenn Framsóknarflokksins að fresta afgreiðslu frumvarps um Ríkisútvarpið um óákveðinn tíma eða á meðan málið er rætt betur innan flokksins. Ríkisútvarpið er í hópi þeirra stofnana sem þjóðin er ánægðust með og engin knýjandi nauðsyn er á fyrirhugaðri formbeytingu eða jafnvel einkavæðingu stofnunarinnar, eins og sumir sjálfstæðismenn vilja. Málefni Ríkisútvarpsins þarfnast vandaðrar umræðu og minnir stjórn Alfreðs á ályktun miðstjórnar Framsóknarflokksins og málefnastefnuskrá frá 2003 þar sem fram komu þau fyrirheit að RÚV verði breytt í sjálfseignarstofnun sem gerir þjónustusamning við ríkið".

Að lokum vil ég geta skrifa Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu síðastliðinn sunnudag. Þar rifjar hann upp Íraksmálið og fjölmiðamálið sem risu hátt í umræðunni fyrir tveimur árum og vöktu upp harða andstöðu almennings og telur frumvarpið um Ríkisútvarpið vera einu leifarnar sem eftir eru af þeim vanda stjórnarflokkanna sem var orsök þeirra hörðu deilna. Þorsteinn segir að fylgishrun Framsóknarflokksins sé helsta ástæðan fyrir því að litlar líkur séu á því að stjórnarflokkarnir haldi velli í komandi kosningum. Það er álit ritstjórans að "engin önnur þingmál á þessum vetri hafa pólitískt gildi fyrir Framsóknarflokkinn í þeim tilgangi að kalla þá til baka sem hafa yfirgefið hann" og telur að með því að standa að Ríkisútvarpsfrumvarpinu efnislega óbreyttu hafi flokkurinn lokað dyrunum fyrir þá sem hafa horfið annað.

Það er ekki annað hægt en að taka alvarlega þetta mat fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og það er ekki hægt að halda því fram að honum gangi annað en gott eitt til fyrir Framsóknarflokkinn og stjórnarsamstarfið. Flokkurinn má ekki við því að þetta mat Þorsteins Pálssonar reynist nærri lagi og og ekki er á það hættandi að leggja í þessa Apavatnsför. Staðan er ógnvekjandi, fylgið um þessar mundir hefur aldrei verið minna í 90 ára sögu flokksins.

Athugasemdir