Írak – til hvers?

Pistlar
Share

Í gær var þess minnst að 5 ár voru liðin frá hryðjuverkunum í Bandaríkjunum. Talið er að tæplega 2.800 óbreyttir borgarar hafi látið lífið í árásunum. Víst er að mikil samstaða er um það að fordæma hryðjuverkin þar og annars staðar og vinna bug á þeim sem standa fyrir óhæfuverkunum, en jafnvíst að það er flókið og vandasamt verkefni. Andstæðingurinn er hvorki ríki né sýnilegur her og hann ræðst að almenningi. Þetta minnir að nokkru leyti , þótt í miklu minna mæli sé, á öfgasinnaða hópa á áttunda áratugnum sem störfuðu í nokkrum Evrópuríkjum.

Átökin snúast um hugmyndir og viðhorf og aðstæður sem færa öfgamönnum hljómgrunn fyrir hryðjuverkum með sjálfsmorðsárásum. Augljóslega er víða frjór jarðvegur í múslimalöndum sem skapar hættu fyrir almenning í mörgum löndum. Það er ekki líklegt að mikill árangur náist í baráttunni gegn hryðjuverkunum fyrr er að jarðvegurinn breytist og almennur stuðningur við málstaðinn þverr. Að því eiga Vesturlönd að einbeita sér, að taka réttlætinguna frá hryðjuverkamönnunum. Stærsta hreyfiaflið er án efa málefni palestínuaraba og ná þarf niðurstöðu þar sem þeir sætta sig við. Óbilgirni Bandaríkjamanna og Ísraelsmanna gagnvart palestínumönnum er ein stærsta ógnin við öryggi Vesturlandabúa.

Innrásin í Afganistan var að mörgu leyti skiljanleg og hægt að færa sannfærandi rök fyrir henni. Öðru máli gegndi um innrásina í Írak. Spyrja má enn í dag – til hvers var ráðist inn í Írak? Eftir því sem tímar líða verðum við enn fjær því að fá svör við spurningunni. Ástæðurnar sem upp voru gefnar hafa reynst upplognar og tilbúnar. Það voru engin kjarnavopn í Írak. Það voru engin tengsl milli Saddam Hussein og Al Kaida. Almennt eru sérfræðingar á þeirri skoðun, samkvæmt fréttum í gær, að innrásin hafi aukið á hryðjuverkahættuna fremur en minnkað hana.

Svo tortryggnir eru Bandaríkjamenn orðnir á eigin stjórnvöld að um það bil þriðjungur þeirra trúir því að þeirra eigin menn hafi staðið fyrir árásunum, Blair, forsætisráðherra Bretlands er rúinn trausti vegna Íraksstríðsins og pólitískur ferill hans senn á enda og Bush Bandaríkjaforseti stendur höllum fæti sem aldrei fyrr og þingkosningar framundan. Í báðum þessum löndum hefur mistekist að viðhalda stuðningi almennings við Íraksstríðið af þeirri einföldu ástæðu að ekki hefur tekist að svara spurningunni: til hvers var ráðist inn í Írak? Undansláttur, villandi upplýsingar stjórnvalda í þessum löndum og hrein ósannindi hafa grafið undan tiltrú almennings. Því er svo komið sem raun ber vitni.

Til eru samtök sem nefnast Iraq body count. Þau safna m.a. upplýsingum um fallna í Írak. Frá því að innrásin var gerð í marsmánuði 2003 telja samtökin sig hafa staðfestar upplýsingar um að 41.751 – 46.420 óbreyttir borgarar hafi fallið í Írak. Þessu til viðbótar eru svo hermenn og aðrir sem eru undir vopnum þannig að heildarfjöldi fallinna er hærri. Það hafa sem sé fallið 15 – 17 sinnum fleiri óbreyttir borgarar í Írak en í árásunum í Bandaríkjunum. Hvenær verður minningarathöfnin um þá og munu þeir Blair og Bush koma þangað?

Það sem verra er að fjöldi fallinna fer vaxandi. Á fyrsta árinu eftir að innrásinni lauk, frá 1. maí 2003 til 19. mars 2004 er talið að 6.331 óbreyttur borgari hafi fallið. Næsta árið voru þeir 11.312 og þriðja árið, reyndar frá 20.3. 2005 til 1.3. 2006, féllu 12.617 óbreyttir borgarar í Írak. Fyrsta árið féllu að meðaltali 20 óbreyttir borgarar á dag, en þriðja árið var meðaltalið komið upp í 36 manns á dag.Hver er árangurinn? Svarið er augljóst: enginn og reyndar verri en enginn, borgarastyrjöld geysar í Írak og Bandaríkjaher hvorki ræður við ástandið né getur farið burt. Hvert er hlutverk innrásarhersins ef hann getur ekki tryggt öryggi Íraka og ekki öryggi Bandaríkjamanna og tilvist hans í Írak kallar á dagleg hermdarverk? Hver getur svarað þessari spurningu?

Athugasemdir