Leyndarskjalasafnið og leyniþjónustan

Pistlar
Share

Dómsmálaráðherra hefur tekist að breyta Þjóðskjalasafninu í sérstakt leyndaskjalasafn með því að senda þangað gömul gögn um hlerun á símum nokkurra Íslendinga. Greinilegt er að ráðherrann er að koma í veg fyrir að upplýst verði hvað er að finna í þessum gögnum og þjóðskjalavörður spilar með ráðherranum. Ég tek undir þau sjónarmið að svo virðist að ráðamenn séu að þæfa málið og að hindra eðlilega umfjöllum um símahleranirnar.

Framkvæmdavaldið með ráðherrann í broddi fylkingar hefur gögnin undir höndum og býr yfir vitneskjunni en takmarkar og skammtar aðgang að upplýsingunum, sem nota bene fjalla um athafnir framkvæmdavaldsins gegn einstaklingum. Meðal þeirra sem hlerað var hjá, skv. fréttum, voru menn sem voru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi. Einnig var hlerað hjá mönnum sem beittu sér fyrir öðrum skoðunum í ákveðnum málum en þáverandi stjórnvöldum var þóknanlegt.

Fyrsta spurningin, sem vaknar, er hvers vegna kappkostar dómamálaráðherrann að sveipa leyndarhjúpi yfir gögnin? Og næsta spurning er hvað er verið að fela fyrir okkur hinum? Ráðherrann verður að leggja öll spil á borðin og gera grein fyrir helstu gögnum málsins á opinberum vettvangi þar á meðal rökstuðningi þáverandi stjórnvalda fyrir hlerunum, hvaða vitneskju var aflað með þeim og hver varð niðurstaðan gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut áttu.

Ef stjórnvöld höfðu ástæðu til þess að ætla að þeir einstaklingar, sem hlerað var hjá, ógnuðu öryggi ríkisins eða borgaranna verður að skýra það og rökstyðja, svo ekki sé talað um ef hlerun símanna réttlættu gruninn og þá þarf að upplýsa hvernig við var brugðist.
Í framhaldi af því verða núverandi stjórnvöld, með dómsmálaráðherrann í broddi fylkingar að upplýsa hvort þessar starfsaðferðir eru enn viðhafðar og á hvaða forsendum.

Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að mikilvægast er að traust ríki milli stjórnvalda og almennings. Þetta mál grefur undan traustinu, leyndin og vífillengjurnar vekja grunsemdir sem ekki verða kveðnar niður nema með því að upplýsa alla þætti málsins, a.m.k. gagnvart þeim sem í hlut áttu. Sérstaklega þarf framkvæmdavaldið að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart Alþingi. Það er sérstaklega alvarlegt að njósnað hafi verið um alþingismenn, eftir því sem best verður séð eingöngu vegna pólitískra skoðana þeirra.

Það er full ástæða til þess að taka þetta mál alvarlega. Þau viðhorf, sem talin voru réttlæta hleranir á síðustu öld geta enn verið uppi eða geta orðið það síðar. Til dæmis má nefna að dómsmálaráðherra er farinn að tala fyrir sérstakri leyniþjónustu. Sú tillaga verður sérstaklega fráhrindandi þegar frammistaða ráðherrans í hlerunarmálinu er höfð í huga.

Athugasemdir