Fréttablaðið?

Pistlar
Share

Fréttablaðið er algerlega borið uppi af auglýsendum eins og kunnugt er. Það er borið út inn á öll heimili endurgjaldslaust. Slíkt blað á allt undir þeim sem borgar, auglýsandanum, það á ekkert fjárhagslega undir lesandanum. Forsenda útgáfunnar verður hins vegar alltaf fyrst og fremst fréttaflutningurinn. Jafnvel þótt tilgangurinn kunni að vera að afla tekna með sölu auglýsinga þá eru það fréttirnar sem gera það mögulegt. Blaðið verður að njóta trausts lesenda sinna til þess að halda velli. Það þarf að vera fréttablað fremur en auglýsingablað.

Þetta tvennt fer ekki alltaf saman, hagsmunir lesandans og auglýsandans. Þegar þessir hagsmunir rekast á getur illa farið. Mér finnst mikil breyting hafa orðið á Fréttablaðinu síðustu mánuði og bitið er farið úr fréttunum. Jákvæðar fréttir úr viðskiptalífinu og fréttatilkynningar eru meira áberandi en gagnrýnin umfjöllum. Þægðin við auðvaldið lekur af síðunum. Þetta er að vísu bara skoðun mín og þarf ekki að vera rétt að annarra mati, en er mér áhyggjuefni.

Í gær birti Fréttablaðið á forsíðu frétt um KB banka. Inntakið var að íslensku bankarnir hefðu lokið endurfjármögnun skulda sinna og KB banki hefði aflað sér 210 milljarða króna lánsfjár. Sagði í fréttinni að trú á íslensku bankanna hefði farið vaxandi á ný og að KB banki nyti betri kjara í þessu útboði en Landsbankinn í síðasta mánuði.
Fréttablaðinu mistókst alveg að segja frá því sem Morgunblaðið gerir á baksíðu í dag að fjármögnun bankanna sé nú mun dýrari en í fyrra. Kjörin nú séu 0,7% yfir millibankavöxtum en var áður 0,2-0,3%. Segir Morgunblaðið að ætla megi að álagið hafi um það bil þrefaldast frá því í fyrra og vekur svo athygli á því augljósa, að "full ástæða er til að ætla að bankarnir muni að mestu eða öllu leyti velta auknum fjármagnskostnaði yfir á viðskiptavini sína hér á heimamarkaði".
Einhvern vegin finnst mér það vera aðalatriðið sem Fréttablaðið hefði átt að koma til skila til lesenda sinna, að bankarnir eru að velta eigin mistökum yfir á herðar íslensks almennings.
Það er athyglisvert hvað Morgunblaðið stendur sig vel í fréttaflutningunum, í ljósi þeirrar kreppu sem ríkir inni á blaðinu vegna óeðlilegrar afskipta ritstjórans í ákveðnum málum og sýnir kannski best faglegan styrk ritstjórnarinnar.

Annað dæmi vil ég nefna af Fréttablaðinu. Það varðar fréttir af fákeppni og verðhækkun á íslenska fjarskiptamarkaðnum síðustu árin. Póst- og fjarskiptastofnun sendi frá sér á þriðjudaginn fréttatilkynningu og greindi frá niðurstöðum á athugun á farsímamarkaðnum á Norðurlöndunum. Morgunblaðið, svo ég vitni til þess aftur til samanburðar, sagði frá málinu á forsíðu og setti aðalatriði í stóra fyrirsögn : Fákeppni og hátt verð og bætti um betur á viðskiptasíðu innar í blaðinu. En ekki Fréttablaðið. Það fann ekki pláss fyrr en á bls. 26 fyrir málið. Fyrirsögnin sagði ekki alla söguna og síðan var vitnað í fréttatilkynninguna lítils háttar í umfjölluninni, sem var ágæt svo langt sem hún náði. Öðru máli gegnir í dag. Þá er rætt við talsmenn símafyrirtækjanna í mun plássmeiri umfjöllun á bls. 10 með stórri fyrirsögn: Segja skýrslu ekki rétta, og frekari lýsing á svörum fyrirtækjanna í undirfyrirsögn.

Það sem ég las út úr umfjöllun Fréttablaðsins var einfaldlega þetta: símafyrirtækin og bankarnir eru Fréttablaðinu mikilvægari en lesandinn eða með öðrum orðum neytandinn. Það skipti blaðið meira máli að flytja mál þeirra sem okra á neytendum en rök þeirra sem eiga að verja okkur fyrir okrinu.

Kannski er ég að lesa of mikið í framsetningu þessara frétta og ætla annað er Fréttablaðið vill í raun koma á framfæri. En það getur svo sem enginn skorið úr um það nema Fréttablaðið og þá með verkum sínum og betur þætti mér að blaðið sýndi fram á að ályktanir mínar eru ekki á rökum reistar. En víst er að mér finnst Morgunblaðið hafa staðið sig vel í þessum tveimur málum sem ég nefni en Fréttablaðið ekki.

Athugasemdir