Aðgöngumiði sem kostaði einn milljarð króna

Pistlar
Share

Í Fiskifréttum, sem komu út í dag, er úttekt á sjávarútvegi í Vopnafirði. Rakin er saga síðustu ára þar sem sveitarstjórnin var í aðalhlutverki og vann að því að tryggja hagsmuni íbúanna. Það sem upp úr stendur er að það þurfti að hafa eignarhald á veiðiheimildunum og að eini aðilinn sem tók að sér að verja almenna hagsmuni íbúanna var sveitarstjórnin, opinber aðili.

Sveitarfélagið keypti sumarið 2004 eignarhlut Eskju hf. í Tanga hf. til þess að koma í veg fyrir að kvóti fyrirtækisins yrði fluttur úr plássinu. Þau kaup voru grundvöllurinn að því að tryggja atvinnu á staðnum til framtíðar. Sveitarstjórinn kemst svo að orði að kaupin hafi verið aðgöngumiði Vopnfirðinga að því að hafa sjálfir möguleika til þess að semja um framtíðina hvað þessi mál varðaði. Aðgöngumiði sem kostaði tæpan einn milljarð króna, meira en milljón kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins.

það gefur auga leið að sveitarfélagið gat ekki risið undir fjárfestingunni, en forræðið yfir veiðiheimildum fyrirtækisins gaf stöðu til samninga við önnur fyrirtæki um útgerð og vinnslu í sveitarfélaginu. Samningar tókust m.a. við HB Granda hf. um samruna félaganna og það haslaði sér völl í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski og hefur fjárfest á staðnum fyrir háar fjárhæðir. Upplýst er í úttektinni að í raun hafi verið um það samið að Grandi myndi leggja niður bræðsluna í Örfirisey og flytja tækin austur.

Hreppurinn á enn verulegan hlut í fyrirtækinu, þótt það sé í minnihluta. Einn sveitarstjórnarmaður sem rætt er við segir að auðvitað hafi Vopnfirðingar séð eftir því að láta yfirráð yfir aflaheimildunum af hendi, en hann bendir á að fyrirtækið hafi fjárfest svo mikið á staðnum að hann óttast ekki að það fari með kvótann burt. Það er vonandi að mat hans reynist rétt og vissulega hafa Vopnfirðingar ýmislegt með sér.

Þessi saga vekur rækilega athygli á því hversu ófullkomin löggjöfin er um stjórn fiskveiða og beinir athyglinni að því að réttarbætur geta legið gegnum opinbert forræði að einhverjum hluta af aflaheimildunum. Forræði, sem lýtur að ráðstöfun heimildanna eða tekjum af nýtingu þeirra. Þá fengjust annað hvort beinar tekjur sem hægt er að nota til atvinnumála í sveitarfélaginu eða samningsaðstaða eins og Vopnfirðingarnir unnu úr.

Fjárhæðirnar sem þarf að leggja fram í sjávarútvegi, ef koma á fót nýju fyrirtæki, eru slíkar að hvorki sveitarfélög eða einkaaðilar í fámennum byggðarlögum geta risið undir þeim í núverandi kerfi. Það er eðlilegt að hluti af þjóðareigninni, veiðiheimildunum, sé falin opinberum aðilum í byggðarlögum við sjávarsíðuna til þess að styrkja þau.

Þrátt fyrir allt eru fjárhæðirnar aðeins brot af því sem varið er til stóriðju. Hvert ársverk í stóriðju fyrir austan kostar um 500 milljónir króna og þótt öll hugsanleg afleidd störf séu reiknuð stóriðjunni til tekna kostar starfið um 200 milljónir króna. Þetta fé leggja opinberir aðilar fram að hálfu leyti, þeir borga helminginn af aðgöngumiðanum að atvinnunni. Gleymum því ekki.

Athugasemdir