78% framsóknarmanna vilja flugvöllinn í Vatnsmýri

Pistlar
Share

Í allri umræðunni um Reykjavíkurflugvöll vill það gleymast að því fer fjarri að sjálfgefið sé að flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýrinni. Það er ljóður á ráði margra þeirra sem hvað ákafast tala um að færa völlinn hingað eða þangað, að yfirsjást eða kannski þegja yfir því að flestir vilja hafa flugvöllin þar sem hann er. Síðan er fabúlerað út og suður eins og það sé járnslegin staðreynd að flugvöllurinn fari.

En það er öðru nær. Fyrir ári gerði Gallup könnun á viðhorfi landsmanna til staðsetningar Reykjavíkurflugvallar. Meginniðurstaðan var að 55% landsmanna vilja hafa flugvöllinn þar sem hann er nú. Það sem meira er: rúm 78% fylgismanna Framsóknarflokksins eru andvígir því að færa flugvöllinn og 58% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Allt tal um það að allir séu sammála um að völlurinn fari er ekki sannleikanum samkvæmt. Óbreytt staðsetning hefur langmestan stuðning landsmanna og næsti kostur er Keflavík skv. könnuninni með aðeins 24% stuðning, meira en helmingi minna fylgi.

Þegar aðeins er skoðuð svör Reykvíkinga í könnun Gallup verður lítil breyting. Vatnsmýrin hefur stuðning 47% þeirra, en ekki er gefið upp hvernig afgangurinn skiptist milli annarra staða.

Gallup gerði aðra könnun í nóvember 2005 fyrir Ólaf F. Magnússon, borgarfulltrúa, en aðeins meðal Reykvíkinga. Svörin voru svipuð og í fyrri könnuninni. Langflestir vildu að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða 48%. Aðeins 23% nefndu Keflavík og 6% Löngusker. Þegar fólk var beðið um að velja milli tveggja staða Vatnsmýrarinnar og Keflavíkur fékkst afgerandi niðurstaða, 59% vildu Vatnsmýrina en 41% Keflavík.

Það er sama hvernig menn skoða þessar kannanir og reyndar fleiri, það eru alltaf flestir sem vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Það er staðreynd sem ekki verður þöguð í hel sama hvað menn reyna. Og sá kostur kostar ekkert í samanburði við hina.

Athugasemdir