Gallað lýðræði.

Pistlar
Share

Um lýðræðið hefur verið sagt að það sé ekki gallalaust en samt betra en önnur stjórnunarform sem reynd hafa verið um aldirnar. Það má samt ekki verða til þess að láta augljósa annmarka lýðræðisins liggja í þagnargildi. Heldur skal unnið að því bæta þær leikreglur sem settar hafa verið. Það er líka ástæða til, kosningaþátttaka fer minnkandi og æ stærri hópur kjósenda er óráðinn fram á síðustu stundu og virðist jafnvel setja sig lítið inn í helstu málin. Erlendis er þessi þróun mjög skýr og afskiptaleysi og áhugaleysi kjósenda kemur fram í lítilli kjörsókn. Í Bandaríkjunum er aðeins um helmingur kjósenda sem mætir á kjörstað í forsetaksoningum og í Bretlandi kusu aðeins um 36% kjósenda í sveitarstjórnarkosningunum í síðustu viku.

Það eru ástæður fyrir því að almenningur sýnir kosningum minnkandi áhuga. Líklega eru þær helstar að kjósendum finnst sem áhrif þeirra séu lítil á störf þeirra, sem svo setjast við stjórnvölinn eftir kosningarnar. Fulltrúarnir, sem eru kosnir, taka ákvörðun um myndun meirihluta eftir kosningar og velja ráðherra eða bæjarstjóra. Yfirleitt eru gefin óljós svör fyrir kosningar um það hvaða meirihluta eigi að mynda og hverja á að velja til starfa. Þarna er vísvitandi haldið frá kjósendum ákvörðunum sem þeir láta sig mest varða og hafa veruleg áhrif á val í kosningunum.

Í sveitarstjórnarkosningunum hefur þó frekar verið tilhneyging til þess að draga fram skýra valkosti með því að hafa fáa framboðslista og stundum bara tvo og boðin eru fram bæjarstjóraefni. Þó er hitt enn algengara að margir flokkar bjóða fram og gefa lítið sem ekkert upp um samstarfsaðila. Í Alþingiskosningum er reglan að ekkert er útilokað fyrir kosningar og kjósandinn veit harla lítið um hvaða ríkisstjórnarsamstarf flokkur hans stefnir að.

Í kosningum þurfa að vera skýrir kostir sem kjósandinn getur valið um og sérstaklega þarf að kjósa um það sem máli skiptir. Þannig er ekki kosið um ríkisstjórn í Alþingiskosningum, sem er það sem kjósandinn er fyrst og fremst að hugsa um. Kjósandinn getur ekki gefið svör við því hvaða flokka hann vill í ríkisstjórn af þeirri einföldu ástæðu að hann er ekki spurður. Hann getur heldur ekki valið ráðherraefni af sömu ástæðu. Vald kjósandans er orðið of lítið en vald flokksforystu of mikið. Það hygg ég að sé ein af ástæðunum fyrir minnkandi áhuga almennings.

Það er einfalt að gefa almenningi kost á auknum áhrifum bæði í vali á flokkum í ríkisstjórn og fulltrúum á Alþingi. Það er líka orðin knýjandi nauðsyn að losa alþingismenn undan ofurþunga ráðherravaldsins. Ráðherrar eiga að framkvæma stefnuna, sem löggjafarþingið setur þeim og til þess að það kerfi virki, sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir, verður að ýta ráðherrunum út af þinginu. Of mikið vald í fárra höndum spillir lýðræðinu.

Það er galli á lýðræðinu að meirihluti sem verður til eftir kosningar gerir minnihlutann áhrifalausan. Meirihlutinn kemur sér saman um stefnu og hrindir henni í framkvæmd, eins og nauðsynlegt er og ætlast er til, en hann kemur líka í veg fyrir að minnihlutinn komi nokkru fram. Það getur ekki verið fullnægjandi form á lýðræði að hægt sé eftir kosningarnar að gera stóran hluta kjósanda áhrifalausan. Markmiðið um að mynda starfhæfan meirihluta felur ekki í sér nauðsynlega að gera áhrifalausa aðra, sem kosnir voru. Þeir hafa sama umboð frá kjósendum. Fulltrúar 51% kjósenda taka sér 100% valdsins, slíkt kerfi þarf endurbóta við. Þær endurbætur hljóta að felast í því að kjósandinn fær meira vald í sínar hendur í gegnum atkvæðaseðilinn. Þar á auðvitað að leggja línurnar sem kjörnir fulltrúar vinna svo eftir.

Athugasemdir