Stjórnarsáttmálinn er skýr – 90% lán.

Pistlar
Share

Fyrir síðustu Alþingiskosningar voru almenn íbúðalán í megindráttum þannig að Íbúðalánasjóður lánaði 65% af kaupverði, en bankar og lífeyrissjóður bættu við. Þó fékk um þriðjungur allt að 25% viðbótarlán í Íbúðarlánasjóði. Svo segja má að um þriðjungur kaupenda hafi fengið 90% lán frá sjóðnum. Hærri vextir voru af viðbótarlánunum hvort sem þau voru frá Íbúðarlánasjóði eða bönkunum.

Framsóknarflokkurinn setti 90% lán sem forgangsmál í kosningabaráttunni og fékk góðar undirtektir kjósenda. Hagur þeirra var augljós, einfaldari fjármögnun íbúðarkaupa eða byggingar og lægri vextir af lánsfjármagninu umfram 65%. Að auki kom til lækkun vaxtanna úr 5,1% í 4,15% (umfram verðtryggingu) vegna kerfisbreytingar á lánsfjáröflun sjóðsins eftir kosningarnar þar sem styrkur ríkisins, sem eiganda sjóðsins, var nýttur til þess að fá lægri vexti. Það skilaði sér svo áfram til íbúðarkaupandanna.

Eitt af stóru málunum í stjórnarsáttmálanum eru einmitt íbúðalánin eins og gefur að skilja eftir að annar stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, gerði málið að kosningamáli.Stjórnarsáttmálinn er skýr, í honum stendur:

• Að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur.

Þetta fer ekki á milli mála. Í lögunum um húsnæðismál nr. 44/1998 eru markmiðin skilgreind í 1. grein laganna og Íbúðalánasjóði falin framkvæmdin:

Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Þegar litið er til þess hvað eru viðráðanleg kjör verður að hafa í huga vexti og verðbætur af lánunum og bera þann kostnað lántakandans íslenska saman við kjör í sambærileg löndum. Þar er vitað að hér á landi er lánsfé mun dýrara, raunvextir af húsnæðislöndum eru 2 – 5% hærri en í 9 öðrum Evrópulöndum, sbr. Skýrslu Neytendasamtakanna. Þá er líka óhagstæður munur varðandi annan kostnað, sem lánastofnanir hér á landi taka.

Viðskiptabankarnir brugðust við fyrirhuguðum lagabreytingum um 90% með miklu offorsi. Opnuðu allar fjárhirslur sínar og lánuðu allt upp í 100% af verðmati eigna án tillits til þess að fasteignakaup færu fram. Á rúmu ári dældu þeir út um 320 milljörðum króna sem rann m.a. til þess að fjármagna einkaneyslu. Þeir kappkostuðu að fá til sín viðskiptavini og fjármagna öll lán þeirra þar með til Íbúðalánasjóðs og greiða þau lán upp. Á skömmum tíma voru greidd upp lán í sjóðnum fyrir nærri 200 milljarða króna. Það settu sjóðinn í mikinn vanda þar sem vextir fóru lækkandi og sjóðurinn gat ekki vænst þess að geta lánað aftur innborgaða féð á vöxtum sem dygðu til þess að standa undir vöxtum af því fé sem sjóðurinn sjálfur hafði tekið að láni og gat ekki greitt upp. Ætlunin var augljóslega að setja sjóðinn í slíkan vanda að hann gæti ekki starfað áfram.

Þessi ósvífla atlaga bankanna að almannahagsmunum mistókst og nú hafa bankarnir lækkað lán sín niður í 70% og hækkað vextina aftur. Þá er gerð krafa um að Íbúðalánasjóður verði lagður niður og bönkunum afhentur þessi lánamarkaður á silfurfati.

En þá ber að líta á stjórnarsáttmálann, hann er skýr og það ber að fara eftir honum. Telji ráðherrar nú að breyta þurfi sáttmálanum verður að gera það með sama hætti og sáttmálinn sjálfur var samþykktur. Miðstjórn Framsóknarflokksins er ein bær til þess samþykkja breytingar á stjórnarsáttmálanum og stefnubreyting í húsnæðismálunum verður að teljast meiriháttar atriði, sérstaklega í ljósi forsögu málsins. Þingmenn flokksins hafa samþykkt stjórnarsáttmálann og eru bundnir af honum, rétt eins og aðrir miðstjórnarmenn.

Markmiðið er þríþætt, 90% lán, landsmenn búi við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að vextir af lánunum verði sambærilegir við það sem gerist erlendis. Telji viðskiptabankarnir sig geta uppfyllt þessi skilyrði og staðið sig jafnvel og bankarnir erlendis þá er varla þörf fyrir opinberan lánasjóð. En vandinn er sá að bankarnir uppfylla ekkert af þessum skilyrðum og þess vegna má ekki hvika frá stuðningi við opinbera húsnæðislánakerfið og Íbúðalánasjóð.

Athugasemdir