Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun.

Pistlar
Share

Á Alþingi er til meðferðar frumvarp sem breytir Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Ég er andvígur því og hef margt við það að athuga.

Í fyrsta lagi er nefskattur ekki betri lausn en núverandi afnotagjald, heldur verri. Dreifing skattsins eftir fjölskyldustærð og tekjum er ekki til bóta frá afnotagjaldinu, þótt það sem svo sem ekki gallalaust. Það er heldur ekki góð lausn að mínu mati að ráðstafa almennum skatti til hlutafélags, sem þar að auki fellur ekki undir stjórnsýslulög og upplýsingalög.

Í öðru lagi hefur hlutafélagsformið skýran tilgang, það er til þess búa vöru í söluhæfan búning. Varan þarf að uppfylla kröfur um arðsemi af rekstrinum. Varan í þessu tilviki er Ríkisútvarpið bæði rekstur þess og eignir. Það er tómt mál að tala um að færa RÚV í söluklæði án þess að ætla sér að selja. Eini tilgangur hlutafélagsvæðingar er sala hlutafjárins og það mun fylgja í kjölfarið við fyrsta tækifæri. Það sem ekki á að selja á ekki að vera í hlutafélagsformi, þess vegna á Ríkisútvarpið ekki að vera hlutafélag, ef einhver alvara er í fullyrðingum um að ekki standi til að selja RÚV síðar.

Í þriðja lagi fylgir strax hf-væðingu Ríkisútvarpsins að forræði eigna stofnunarinnar færist frá Alþingi til forstjórans eins. Nú verður að fá heimild á fjárlögum ríkisins til sölu eigna Ríkisútvarpsins svo sem gildir um allar stofnanir ríkisins. Eftir lagabreytinguna er það, sýnist mér, algerlega á valdi forstjórans eins að taka ákvörðun um sölu eigna, hverjum selt og á hvaða verði. Hann mun geta selt allar eignir útvarpsins, svo sem húseign, tæki og dreifikerfi hverjum sem honum sýnist og á því verði sem honum þóknast. Hvernig dettum mönnum í hug í fyllstu alvöru að fela einum manni slíkt vald yfir eignum sem hann á ekki heldur þjóðin öll?

Þetta mál hefur verið bitbein stjórnarflokkanna í mörg ár. Allt síðasta kjörtímabil stóð járn í járn milli flokkanna, Sjálfstæðisflokkurinn vildi breyta RÚV í hlutafélag en Framsókn ekki. Til þess að árétta afstöðu og staðfestu Framsóknarflokksins var málið tekið til sérstakrar umfjöllunar innan flokksins sem lauk með þeirri stefnu að Ríkisútvarpið skyldi verða sjálfseignastofnun og reksturinn tryggður með þjónustusamningi við ríkið. Þessa stefnu bar flokkurinn svo fram fyrir síðustu Alþingiskosningar þannig að ekki fór á milli mála hvar flokkurinn stóð í þessi ágreiningsmáli í ríkisstjórn. Ég tel affarasælast að standa við þessa stefnu og tel að hún hafi meirihlutafylgi á Alþingi.Ekkert hefur komið fram sem rökstyður það að falla frá markaðri stefnu.

Á síðasta þingvetri var lagt fram stjórnarfrumvarp um að breyta RÚV í sameignarfélag og sérstaklega var útskýrst hvers vegna það form varð niðurstaðan en ekki hlutafélag. Í greinargerð með frumvarpinu stendur: "Við samningu frumvarps þessa var ekki farin sú leið að stofna hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu – hér er um að ræða félag sem ekki er ráðgert að selja".

Það frumvarp náði ekki fram að ganga og á yfirstandandi þingi gerðist það að ákveðið var að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Nú er sagt að ekki standi til að selja og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fallið frá þeim áformum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð þess stað í samþykktum flokksins eða yfirlýsingum forystumanna hans og tel að viljinn til þess að selja RÚV sé til staðar innan flokksins og vísa þar til frumvarps á Alþingi um hf-væðingu RÚV og sölu þess í kjörfarið sem nokkrir þingmenn hans hafa flutt. Þá má benda á atkvæðaskýringu eins þingmanns flokksins sem benti á að RÚV hf. væri áfangi á leið til einkavæðingar stofnunarinnar. Það þarf ekki frekar vitnanna við.

Athugasemdir