Fjölskyldu- og útgjaldakosningar.

Pistlar
Share

Málatilbúnaður stjórnmálaflokkanna í höfuðborginni er farinn að taka á sig skýra mynd. Um helgina kynntu stóru flokkarnir tveir stefnuskrár sínar og megináherslur. Í Reykjavík eru sveitarstjórnarkosningarnar sérstaklega áhugaverðar. Þær gefa mjög sterka vísbendingu um fylgi flokkanna á landsvísu og svo hitt að áherslur framboðanna draga fram mat flokkanna á því hvað kjósendur eru að kalla eftir. Segja má að línurnar fyrir komandi Alþingiskosningar verði að nokkru leyti lagðar í borgarstjórnarkosningunum árinu á undan.

Eitt er strax orðið ljóst, skattalækkunarfárið sem tröllreið öllu fyrir síðustu Alþingiskosningar, er búið að vera. Það minnist enginn á skattalækkun. Að vísu nefnir Sjálfstæðisflokkurinn lækkun fasteignagjalda, en í ljósi mikillar hækkunar fasteignamatsins verður lækkun álagningarprósentunnar varla til þess að skatturinn lækki. Svo ég hef ekki litið á þessa tillögu þeirra sem skattalækkunartillögu.

Það er að vísu sérstakt rannsóknarefni hvernig á því stóð að hver flokkurinn á fætur öðrum tók upp á því að lofa tugmilljarða króna skattalækkun fyrir síðustu Alþingiskosningar. Ég veit ekki hvaðan krafan um slíkt kom. Aldrei hitti ég kjósanda sem var með þessa kröfu, en marga kjósendur sem vildu aukin útgjöld til velferðarkerfisins og samgöngumála svo eitthvað sé nefnt. Fyrir vikið var ráðist í nærri þrjátíu milljarða króna árlega skattalækkun og sérstaklega hlaðið undir hátekju- og eignafólk, og svo segjast menn ekki eiga fyrir því að bæta kjör láglaunafólks. En skattalækkunin er altént runnin af flokkunum í bili.

Nú er greinilegt að kjarninn í stefnuskrám flokkanna er að bæta kjör og aðbúnað fjölskyldufólks. Lækka leikskólagjöld eða fella þau alveg niður, lækka kostnað barna og unglinga við íþrótta- og tómstundaiðkun, auka dagþjónustu eða lækka kostnað við hana. Setja meiri pening í skólastarf, styrkja tónlistarmenntunina og íþrótta- og æskulýðsstarfið. Í stuttu máli að auka útgjöld borgarinnar og minnka kostnað fjölskyldufólks. Ekkert minnst á lækkun útsvarsins eða annarra skatta. Það er greinilega engin eftispurn eftir skattalækkunarstefnu. Nú er kallað eftir þjónustu og útgjöldum. Þess vegna eru framundan útgjaldakosningar. Það má líka kalla þær fjölskyldukosningar.

Til viðbótar eru svo flokkarnir allir nokkuð rausnarlegir við kjósendur á fé ríkisins. Þeir boða miklar og dýrar samgönguframkvæmdir, að sjálfsögðu á kostnað ríkisins, þeir vilja byggja nýjan flugvöll sem ríkið á að sjálfsögðu að borga og þeir boða að nú muni málefni aldraðra flytjast til sveitarfélaga og við það verði leystur vandinn sem þar er og hefur gert öldruðum gramt í geði og að sjálfsögðu mun ríkið eiga að leggja til peningana.

Sérstaklega finnst mér Sjálfstæðismenn í Reykjavík vera ótrúlega útbærir á fé til aldraðra í ljósi þess að sami flokkur gengur allra flokka lengst í því að lækka skatta og að halda fast í budduna þegar sótt er eftir meira fjármagni við fjárlagagerð ríkisins. Hvernig dettur mönnum í hug að halda því fram við kjósendur að við það eitt að flytja þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga muni ríkið setja meira fé til málaflokksins en það gerir nú? Hvers vegna ætti fjármálaráðherra að samþykkja meiri útgjöld til sveitarfélaga en heilbrigðisráðuneytið fær nú til þess að vinna sama verkið? Það má skilja Sjálfstæðismenn svo að vandinn í málefnum aldraða sé Framsóknarflokknum að kenna, þar sem flokkurinn fer með heilbrigðisráðuneytið og því er nauðsynlegt að Sjálfstæðismenn í borginni tali skýrar en hingað til.

Vandinn á stjórnarheimilinu er að meiri áhersla hefur verið á lækkun almennra skatta en aukið fé til málefna aldraðra og þeim pólitísku áherslum verður að breyta. En kannski er tillagan um það að færa þjónustu við aldraða meira og minna til sveitarfélaga óbein viðurkenning á þörfinni fyrir stefnubreytingu frá skattalækkun til þjónustu, ein leið til þess að segja kjósendum að áherslunum hafi verið breytt. Þetta er, að mínu mati, til marks um að velferðaráherslur hafa náð yfirhöndinni í pólitískri umræðu og ef það er rétt munu kosningarnar á næsta ári snúast um velferðarkerfið og þjónustu við einstaka þjóðfélagshópa svo sem aldraða. Félagshyggjan verður í fyrirrúmi.

Athugasemdir