Raunvaxtaránið – 27 milljónir króna

Pistlar
Share

Dýrast að taka húsnæðislán á Íslandi. Þetta var fyrirsögn á frétt í Morgunblaðinu 17. nóvember í fyrra og lýsti niðurstöðu skýrslu sem neytendasamtökin létu vinna í samvinnu við neytendasamtök í 9 öðrum Evrópuríkjum. "Vextir hér eru þeir hæstu á því svæði sem könnunin nær til. raunvextir eru að jafnaði frá 2 og upp í tæplega 5 prósentustigum hærri en í hinum Evrópulöndunum. Að auki er kostnaður við greiðslu afborgana mun hærri og uppgreiðslugjald er yfirleitt hærra" segir í fréttinni og er vitnað beint í tilkynningu Neytendasamtakanna.

Þetta er lýsingin á stöðunni þegar Íbúðalánsjóður var að veita húsnæðislán á 4,15% vöxtum umfram verðtryggingu. Viðskiptabankarnir kveinkuðu sér undan þessu og sögðust tapa á sínum lánveitingum, vextirnir þyrftu að vera hærri. Og vextirnir hafa hækkað, nú veitir Íbúðalánasjóður lán á 4,85% vöxtum og ég sá um daginn bréf frá KB banka með 5,05% vöxtum. Bankarnir vilja að Íbúðalánsjóður hætti lánveitingum og að viðskiptabankarnir sjái einir um húsnæðislánin.

Segja má að við eigum tvo kosti í stöðunni. Annars vegar er hægt að halda áfram með miðstýrt lánakerfi með ríkisábyrgð og nota styrk ríkisins til þess að lækka raunvextina niður í það sem gerist erlendis. Að lágmarki á að vera hægt að lækka vextina umfram verðtrygginguna um 2% frá 4,15% eins og þeir voru í fyrra. Það er raunhæft að bjóða almenningi húsnæðislán með 2,15% vöxtum í núverandi vertryggingu lánsfjár.

Hinn kosturinn er að verða við kröfum bankanna. Hver og einn þeirra stundi lánveitingar á eigin forsendum og án ríkisábyrgðar. Það mun leiða til þess að vextir verði um 1-2% hærri en í núverandi kerfi. Að meðaltali má ætla að vaxtahækkunin frá 4,15% verði um 1,5%. Þá eru vextirnir orðnir 5,65% ofan á verðtrygginguna. Hækki almennt vaxtastig þá hækka þessir vextir líka.

Ef bornir eru saman þessir valkostir, húsnæðislán annars vegar með 2,15% vöxtum og hins vegar 5,65% á 15,9 milljóna króna láni til 40 ára, en það var til skamms tíma hámarkslán Íbúðalánsjóðs, kemur í ljós að kostnaðarmunur lántakandans er gríðarlegur.

Kostnaður við lán með 4,15% vöxtum er samtals 16,7 milljónir króna, en þá er verðtryggingin ekki tekin með. Ef vextirnir lækka niður í 2,15% þá mun kostnaður greiðandans verða 7,8 milljónir króna og minnka um 8,9 milljónir króna. Þessi kjarabót er svipuð og 14,8 milljóna króna launahækkun á lánstímanum og samsvarar 5 ára meðalatvinnutekjum manns í fullu starfi. Er það ekki verðugt verkefni stjórnmálamanna að bæta kjör almennings um slíkar fjárhæðir og það án skattalækkana eða launahækkana?

Ef vextirnir hækka hins vegar í 5,65% þá verður kostnaðurinn 24,2 milljónir króna og hækkar um 7,5 milljónir króna frá 4,15% vaxtastiginu. Það kostar lántakandann allar tekjur hans í rúm fjögur ár. Krafa bankanna um kerfisbreytingu í íbúðalána þýðir þetta, það verður almenningur sem mun borga sem svarar fjögurra ára tekjum, miðað við opinberar upplýsingar um meðalatvinnutekjur í fullu starfi.

Að lokum er rétt að bera saman leiðirnar tvær. Vaxtalækkunarleiðin, sem ég tel að eigi að fara færir kostnaðinn af 15,9 mkr. láninu niður í 7,8 milljónir króna, en bankaleiðin hækkar kostnaðinn í 24,2 milljónir króna. Munurinn er 16,4 milljónir króna. Til þess að geta greitt þá fjárhæð þarf að afla um 27 milljóna króna launatekna á lánstímanum. Það eru öll laun í 9 ár miðað við meðalatvinnutekjur í fullu starfi. Það verður mikill arður af rekstri bankanna við þessar aðstæður, arður sem almenningur borgar.

Athugasemdir