Fækkun starfa og lækkun tekna.

Pistlar
Share

Á tveimur svæðum landsins hefur orðið afturför síðustu ár og byggðin veikst. Þetta má lesa greinilega út úr gögnum Hagstofu Íslands um þróun starfa og atvinnutekna frá 1998 til 2004. Á Vestfjörðum er breytingin svo mikil að segja má með fullum rökum að svæðið hafi orðið fyrir miklu áfalli. Þá hefur störfum fækkað umtalsvert á Norðurlandi vestra.

Í heildina er á þessum landssvæðum meðalatvinnutekjur fyrir aðalstarf lág og störfum fækkar jafnt og þétt. Þetta eru dæmigerð einkenni fyrir svæði í afturför og það þarf atbeina stjórnvalda til þess að snúa þróuninni við. Fyrst og fremst þarf aðgerðir í atvinnumálum sem eiga að fjölga störfum á sem flestum sviðum. Til þeirra þarf að verja verulegu fjármagni, og vitað er af reynslunni að árangurinn mun verða í beinu sambandi við fjárhæðirnar sem lagðar eru fram. Það gildir í þessu sem öðru að peningar eru afl þess sem gera skal.

Þetta eru ekki ný sannindi fyrir stjórnvöld. Þau eru að beita sér fyrir atvinnuuppbyggingu á Austurlandi og Norðurlandi eystra. Til þess hefur verið miklum tíma, mannafla og milljörðum króna af opinberu fé í undirbúning, rannsóknir og samninga við erlend fyrirtæki. Ætla má að stofnkostnaður við álver og virkjanir verði nokkuð á fjórða hundrað milljarða króna. Það er býsna mikill kostnaður á hvert ársverk þegar litið er til þess að samtals verða störfin innan við 1000 í þessum tveimur álverum og tilheyrandi virkjunum. Hvert starf mun þá kosta um 300-400 milljónir króna.

Það má örugglega ná miklum árangri með minni tilkostnaði, stóriðjan er óvenjulega dýr atvinnusköpun, en engu að síður þarf peninga og þá verða stjórnvöld að leggja fram, ef einhver alvara á að vera að baki áformum þeirra og vilja til þess að efla byggðirnar. Fækkun starfa á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra frá 1998 til 2004 er um 720 störf eða sem nemur einu og hálfu álveri. Það þykir mikill búhnykkur að fá álver til Austurlands eða í Þingeyjarsýslurnar og þá geta menn ímyndað sér hversu mikið áfall það er í raun þegar málið snýst við og störfin tapast á fáum árum.

Það mætti hugsa sér til að byrja með að leggja til atvinnumála á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra svipaða fjárhæð og það kostar að skapa 10 störf í stóriðju eða 3 – 4 milljarða króna. Ég er viss um að ná megi góðum árangri með það fé til ráðstöfunar og að innlend sem erlend fyrirtæki verði fús til samstarfs við stjórnvöld og reiðubúin að leggja fram sjálf mikla peninga til atvinnusköpunar á landssvæðinu.

Á Norðurlandi vestra hefur fækkað um 260 störf á þessum sex ára tímabili eða um 5%. Fækkunin varð einkum í fiskvinnslu og öðrum iðnaði. Um 190 störf töpuðust í fiskvinnslunni og um 160 í öðrum iðnaði. Á móti þessu fjölgaði störfum um 110 í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Meðaltekjurnar eru þær lægstu á landinu og fara lækkandi sem hlutfall af tekjum á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1998 voru meðalatvinnutekjur í aðalstarfi á Norðurlandi vestra aðeins 82% af tekjunum á höfuðborgarsvæðinu,þar sem tekjurnar voru hæstar. Árið 2004 voru meðalatvinnutekjurnar á Norðurlandi vestra komnar niður í 78% af tekjum höfuðborgarsvæðisins.

Enn verri hefur þróunin orðið á Vestfjörðum. Þar voru lengi hæstu eða meðal þeirra hæstutekjurnar á landinu en það er breytt. Árið 1998 voru meðaltekjurnar á Vestfjörðum í 3. sæti á landinu og 90% af meðaltekjunum á höfuðborgarsvæðinu, en sex árum seinna voru meðalatvinnutekjurnar á Vestfjörðum fallnar niður í 6. sæti og aðeins um 80% af meðaltekjum höfuðborgarsvæðisins. Störfunum fækkaði á þessi tímabili um tæplega 10% eða um 460, það samsvarar ríflega einu álveri.

Fyrst og fremst fækkaði störfunum í fiskveiðum, þau voru 860 talsins en hafði fækkað í 520 árið 2004. Þá fækkaði um 120 störf í fiskvinnslu. Í raun kom ekkert annað í staðinn fyrir störfin í sjávarútveginum sem hurfu. Tekjurnar í fiskveiðunum á Vestfjörðum eru þær lægstu á landinu miðað við upplýsingar Hagstofunnar. Meðalatvinnutekjurnar fyrir fiskveiðar voru 3.3 milljónir króna á Vestfjörðum árið 2004, sem er aðeins 53% af meðaltekjum á höfuðborgarsvæðinu fyrir fiskveiðar, en þar voru tekjurnar hæstar. Þetta er alvarleg þróun þegar haft er í huga hversu stór þáttur fiskveiðar er í atvinnulífi fjórðungsins.

Ég efa það að önnur eins breyting hafi orðið á nokkru landssvæði síðustu áratugina og átt hefur sér stað á Vestfjörðum. Það er kominn tími til þess að horfast í augu við þessar staðreyndir sem við blasa um þróun mála á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og bregðast við í samræmi við þær.

Athugasemdir