Athugunarstjórmál eru besti kosturinn.

Pistlar
Share

Enn er staðsetning Reykjavíkurflugvallar í brennidepli í. Fjögur af fimm framboðum í Reykjavík boða það að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. En engu að síður hefur breyting orðið í hinni pólitískri umræðu. Fram til þessa hefur mest farið fyrir þeim sjónarmiðum að flytja flugvöllinn til Keflavíkur en nú er enginn flokkurinn sem hefur það á stefnuskránni. Það er umtalsverð breyting sem rétt er að taka eftir og vekja athygli á.

Satt að segja hefur umræðan um flugvöllinn um árabil verið átakanlega 101 Reykjavík miðuð og það sem verra er byggð á fáfræði og vanþekkingu. En þáttaskil urðu þegar læknar og flugmenn létu til sín taka. Þá komu fram upplýsingar um nauðsyn þess að hafa tvo flugvelli á sunnanverðu landinu og bent var á að til þess að aðalsjúkrahúss landsmanna gæti sinnt hlutverki sínu yrði flugvöllurinn að vera nálægt því.

Þá var líka sýnt fram á að þyrlur gætu ekki einar sinnt því hlutverki að flytja sjúklinga suður, það yrðu að byggja sjúkraflugið á flugvélum líka. Skýrasta dæmið um vanmátt þyrlunnar kom í ljós þegar Steingrímur J. Sigfússon, alþm.lenti í bílslysi í vetur norðan Blönduóss. Þyrlan, em fór í sjúkraflugið gat ekki flogið yfir landið heldur varð að fara sjónflug frá Reykjavík vestur með ströndinni og fara yfir Laxárdalsheiði til Hrútafjarðar og þaðan áfram. Af því flugvél var ekki tiltæk varð flugtíminn miklu lengri en annars hefði orðið og tími skiptir máli í sjúkraflugi.

Eftir þá lotu má segja að ábyrgðarlausa og sjálfhverfa umræðan hafi hljóðnað sem betur fer. Nú grundvallast stefna flokkanna á því að hafa tvo flugvelli og annan við aðalsjúkrahús allar landsmanna. Það er mikil framför. Það er hins vegar áhyggjuefni að svo virtist að innan flokkanna réðu menn ekki við að afla nauðsynlegra grunnupplýsinga og þekkingar til þess að móta skynsamlega stefnu. Stefnubreytingin sem orðin er varð vegna utanaðkomandi áhrifa.

Spurningin sem eftir stendur er þessi: hvernig gat það gerts að flestir flokkarnir báru fram svona illa ígrundaða stefnu ? Ég velti því fyrir mér hvort þetta mál sýni ekki mikinn veikleika í lýðræðislegu starfi flokkanna, ákvarðanatöku án umræðu og athugunar til undirbúnings. Sumir kjósa líklega að kalla það athafnastjórnmál sem þykir fínt og andstæða umræðustjórnmála, sem gert er lítið úr. En það er nú einu sinni tilgangur stjórnmálaflokka að vera vettvangu umræðu og athugunar á málum sem leiði svo til niðurstöðu.

Valdasæknir stjórnmálamenn vilja gjarnan gera lítið úr samráði og athugun og tala um athafnastjórnmál. Vissulega eru slíkir starfshættir fljótvirkari en reynslan sýnir að þeir eru líka líklegri til þess að leiða til vondrar niðurstöðu og þeir drepa niður lýðræðislegt starf á skömmum tíma. Stjórnmálaflokkur án þess dregst upp og breytist úr hreyfingu í hirð í kringum forystuna. Ég vil ekki gera lítið úr umræðustjórnmálum, þau eru nauðsynleg sem undirbúningur ákvörðunar og athafna. Þá leið vil ég kalla athugunarstjórnmál. Hún felur í sér umræðu, athugun og ákvörðun.

Þessi spurning, sem ég bar fram áðan, verður áleitnari þegar ég fylgist með tillögum flokkanna um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Nú segja flokkarnir að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni hingað og þangað um nágrenni borgarinnar. En enginn þeirra getur lagt fram grundvallaupplýsingar sem eiga að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin. Hvað kostar flutningurinn, hver á að borga, hvert á að fara og hvers vegna? Og hvernig eru þessir kostir í samanburði við Vatnsmýrina? Þótt stefnan nú sé skárri en áður var, þá er greinilegt að það vantar allar forsendur til þess að komast að niðurstöðunni. Forsendur, sem eiga að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin og eiga að vera grundvöllur ákvörðunarinnar. Sérstök samráðnefnd ríkis og Reykjavíkurborgar er einmitt að vinna að því að athuga mögulega staði fyrir flugvöll og áætla kostnað. Nefndin hefur ekki skilað af sér enn, en samt eru fjórir flokkar af fimm í borginni búnir að tilkynna þá stefnu sína að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni. Hvernig má þetta vera?

Athugasemdir