Þingræðið með flensu.

Pistlar
Share

Þingræðið er alvarlega haldið af áður óþekktum sjúkdómi. Greinst hefur ný veira af stofni B5D7 sem sækir helst í ráðherra landsins og veldur því að þeir gleyma því að þingið er einn þátturinn í þrískiptingu ríkisvaldsins.

Málsgreinin gæti verið ágætt upphaf í næstu Spaugstofu og er að sjálfsögðu sett fram í hálfkæringi. En það þýðir einmitt að ekki er eingöngu um spaug að ræða heldur er alvara á bak við spaugið. Mér finnst að ráðherrar landsins hafi að undanförnu of oft sýnt að þeir vanrækja samráð og samstarf við þá þingmenn sem þeir sækja umboð sitt til.

Þingræðið byggist einmitt á því að ráðherrar sækja vald sitt til þingmannanna sem mynda stjórnarmeirihlutann. Frumvörp sem þeir flytja fá framgang á Alþingi ef þingmennirnir veita þeim stuðning sinn. Þess vegna á meginreglan að vera sú að frumvörpin eru unnin í samráði við þingmenn og fengið þeirra samþykki áður en þau eru flutt og gerð opinber. Málin eru í raun flutt í nafni stjórnarþingmannanna en ekki bara í nafni ráðherrans.

Sú tilhneiging að minnka samráðið við þingmenn fer hins vegar vaxandi og ætlast er til þess að þeir samþykki það refjalaust sem fyrir þá er lagt. Samhliða er lögð meiri áhersla á ráðherrann sem gerandann og þann sem ákvarðar. Ég vil nefna fáein nýleg dæmi.

Í síðasta mánuði var send út fréttatilkynnig frá fjármálaráðuneytinu sem hófst á orðunum: “hefur fjármálaráðherra ákveðið að gera skattalegar umbætur sem m.a. er ætlað að nýtast sérstaklega fyrirtækjum á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar”. Hið rétta er að flestar aðgerðirnar sem kynntar voru verða ekki að veruleika nema Alþingi samþykki lagabreytingar, engu að síður er tekið svo til orða að fjármálaráðherra hefur ákveðið að gera. Það þarf ekki að stafa það ofan í lesandann að inntakið í fréttatilkynningunni er að ráðherrann ræður.

Annað dæmi um ráðherraflensuna er framkoma iðnaðarráðherra á dögunum sem var að kynna frumvörp sín á blaðamannafundi á sama tíma og sömu frumvörp voru lögð fyrir stjórnarþingmenn. Það þýðir einfaldlega að ráðherrann ætlar að flytja málin eins og þau eru kynnt fyrir fjölmiðlum. Þingmönnum er stillt upp við vegg, þeir eiga að samþykkja málin og styðja þau en fá ekki að hafa áhrif á innihaldið.

Þriðja dæmið er nýlegast. Á miðvikudaginn var munnleg kynning fyrir þingflokki framsóknarmanna á væntanlegum drögum að fjölmiðlafrumvarpi, auðvitað sem trúnaðarmál. Sérfræðinganefndin boðaði að hún myndi skila af sér daginn eftir. Ekkert frumvarp var sýnt, hvorki í drögum né fullbúið. Ekki var um það að ræða að þingmenn tækju afstöðu til tillagnanna á þessu stigi. Það býður þess tíma þegar ríkisstjórnin er búin að afgreiða fyrir sitt leyti frumvarp og senda það til þingflokka.

En viti menn, strax morguninn eftir er nákvæm lýsing á málinu í Blaðinu og þar kemur fram að blaðið hefur höndum drög að nýju frumvarpi. Það sama var upp á teningnum í sjónrvarpsfréttum RÚV um kvöldið. Það er augljóst að þegar búið er að kynna tillögurnar opinberlega verður af hálfu ráðherrans, sem flytur málið, menntamálaráðherrans, ætlast til að þingmenn samþykki málið í öllum meginatriðum eins og kynnt hefur verið. Fleiri dæmi eru til en ég læt hér staðar numið. Þingræðisflensan er komin á alvarlegt stig.

En hvað á þetta að þýða? Geta ráðherrar ekki haldið leikreglur þingræðisins og aflað samþykkis og stuðnings þingmanna fyrir sínum málum áður en þau eru sett í opinbera kynningu? Það er nú einu sinni þannig að þingmennirnir eru kosnir í almennum kosningum en ekki ráðherrarnir. Þess vegna hafa þingmennirnir umboð frá kjósendum. Allt umboð ráðherranna er sótt til þingmannanna, en ekki öfugt.

Athugasemdir