Galin hugmynd.

Pistlar
Share

Fyrir skömmu greindi Bandaríski rannsóknarblaðamaðurinn Seymour Hersh frá því í tímaritinu New Yorker að gerðar hefðu verið áætlanir um að ráðast á Íran með kjarnorkuvopnum og sprengja í loft upp væntanleg kjarnorkuver Írana. Segja má að Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon hafi einhver rök fyrir því að láta athuga þennan möguleika eins og hvern annan mögulegan og ómögulegan. Það er jú þeirra hlutverk að sjá fyrir um það sem kann að gerast og vera viðbúnir.

En það óhugnanlega við málið er, samkvæmt því sem fram kemur hjá Hersh, að þegar Bandaríska herforingjaráðið vildi strika þennan möguleika út þá strandaði það á fulltrúum Hvíta hússins. Með öðrum orðum það eru fulltrúar stjórnmálanna sem vilja hafa þennan möguleika en ekki herinn. Eins og breska blaðið Guardian segir í leiðara í dag þá sýnir þetta að í ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta og kringum hana eru það margir sem eru til í hernaðarlegt hættuspil af þessu tagi að fyllsta ástæða er til þess að óttast að þeim sé alvara. Þeim væri trúandi til þess að láta til skarar skríða með þessa hugmynd sem breski utanríkisráðherrann Jack Straw kallaði algerlega galna – "completely nuts".

Undir það skal hér tekið, þetta er algerlega galin hugmynd. Fyrir því eru nokkrar augljósar ástæður. Kjarnorkuvopn eru gereyðingarvopn og áhrif þeirra einskorðast ekki við þann sem á er ráðist. Þess vegna hafa þjóðir heims lagt allt kapp á það frá upphafi að takmarka fjölda þeirra sem ráða yfir vopnunum og koma í veg fyrir að fleiri þjóðir bættust í hópinn.

Það er mótsögn í sjálfu sér að beita kjarnorkuvopnum til þess að koma í veg fyrir smíði slíkra vopna. Ef það er hægt án hættu fyrir heiminn allan og afleiðingarnar yrðu aðeins staðbundnar og tiltölulega fáir yrðu fyrir geislafallinu þá er slegin af sú stefna sem þjóðir heims hafa fylgt og rökin fyrir takmörkun á útbreiðslu vopnanna fallin um sjálft sig.

Í öðru lagi myndi kjarnorkuvopnaárás Bandaríkjamanna staðfesta að kjarnorkuveldunum er ekki treystandi fyrir vopnunum og að þeim yrði beitt til þess að tryggja yfirráð núverandi kjarnorkuvelda yfir þeim ríkjum sem ekki eiga slík vopn. Að minnsta kosti myndu þessi rök eiga við um Bandaríkjamenn.

Í þriðja lagi myndi árásin á Írani sannfæra þá, og eflaust fleiri, um að þau ríki sem ekki eiga kjarnorkuvopnin yrðu fyrir árás og þess vegna væri það enn frekar keppikefli ríkja eins og Íran að koma sér upp tækni og búnaði til þess að framleiða kjarnorkuvopn. Benda mætti á að ekki hafa Bandaríkjamenn ráðist á Norður Kóreu, sem líklega ræður yfir kjarnorkusprengju, ríki hins illa eins og Ronald Reagan kallaði ríkið og eitthvað hefur Bush sagt í þessa veru líka.

Þá verður að líta á málið frá sjónarhóli Írana. Mörg nágrannaríki ráða yfir kjarnavopnum. Má þar nefna Kína, Indland, Ísrael, Rússland og Pakistan. Íranir segja einfaldlega að þeir verði að hafa kjarnorkuvopn líka til þess að tryggja eigið öryggi. Gangi það eftir, sem sérfræðingar telja líklegt að verði innan fárra ára, að Íranir eignist slík vopn munu ókyrrast þjóðir sem telja sér stafa ógn af Íran, svo sem Egyptaland og Sádi Arabía og þau munu vilja eignast kjarnorkuvopn og þannig má áfram telja.

Markmiðið verður að vera óbreytt, að telja Írani og aðrar kjarnorkuvopnalausar þjóðir á það að öryggi þeirra sé best borgið án kjarnorkuvopna. Það öryggi verða kjarnorkuveldin eins og Bandaríkin að tryggja. Það skynsamlegasta sem Bandaríkjamenn geta gert nú er að fá Ísraelsmenn til þess að láta kjarnorkuvopn sín af hendi og þannig draga úr spennunni í Miðausturlöndum. Bandaríkjamenn eiga að vernda Írani fyrir umheiminum, í stað þess að vera umheimurinn sem ógnar öryggi þeirra og með því háttalagi veldur svo umheiminum ógn af sjálfum sér og Írönum. Þetta háttalag Bandaríkjamanna er alveg galið.

Athugasemdir