Hvað vilja framsóknarmenn?

Pistlar
Share

Staða Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili hefur vægast sagt verið bágborin. Fylgið hefur jafnt og þétt sigið í skoðanakönnunum, sem mæla fylgi flokkanna ef kosið væri til Alþingis og hefur líklega aldrei verið lægra en um þessar mundir. Því til viðbótar er byrjað að kanna fylgi flokksins fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar í einstökum sveitarfélögum og eru byrjunin ekki uppörvandi. Þó skal munað eftir því að verulegar sveiflur hafa sést við fyrri sveitarstjórnarkosningar á fylginu og stundum hafa kosningaúrslitin orðið að lokum ágæt.

Víða hefur flokkurinn boðið fram eigin lista við bæjarstjórnarkosningar og náð ágætum árangri. Fyrir fjórum árum náðist t.d. mjög góður árangur í Kópavogi, Mosfellsbæ og Garðabæ á höfuðborgarasvæðinu og í Hveragerði, Grindavík, Árborg, Grundarfirði, Húnaþingi vestra, Hólmavík, Ísafirði, Dalvík og Fjarðabyggð svo nokkrir staðir séu nefnir.

En víða hafa framsóknarmenn kosið að starfa saman að framboði með fólki í öðrum flokkum. Aðeins á einum stað er mér kunnugt um að boðið hafi verið fram með sjálfstæðismönnum. Það var á Húsavík fyrir 4 árum. Það framboð gekk illa og verður ekki endurtekið. Annars staðar er starfað með félagshyggjufólki eða óháðum kjósendum. Fyrst ber að nefna höfuðborgina Reykjavík. Þar hafa framsóknarmenn kosið að starfa með öðrum félagshyggjuflokkum gegn Sjálfstæðisflokknum og boðið fram með þeim til sigurs í síðustu 12 árin í þrennum kosningum. Framsóknarmenn vildu halda áfram Reykjavíkurlistanum, þótt það hafi ekki orðið að þessu sinni.

Á Seltjarnarnesi, Snæfellsbæ, Stykkishólmi, Ólafsfirði,Vesturbyggð, Tálknafirði, Bolungavík buðu framsóknarmenn fram lista með samfylkingarfólki, vinstri grænum og óflokksbundnum og sameinuðust gegn Sjálfstæðisflokknum, svo ég nefni þá staði sem ég man eftir í svipinn. Alls staðar verður þessi samstarfi haldið áfram, nema hvað í sameinuðu sveitarfélagi úr Ólafsfirði og Siglufirði verður B-listi.

Fyrir komandi kosningar bætast við þennan lista Vestmannaeyjar, Reykjanesbær, Hveragerði, Garðabær og Grundafjörður. Á öllum þessum stöðum var B-listi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og árangur varð góður í þeim flestum. Engu að síður kjósa framsóknarmenn að starfa saman að framboði með samfylkingarfólki og vinstri grænum en ekki með sjálfstæðismönnum. Meginreglan er að framsóknarmenn eru að skipa sér í sveit með öðru félagshyggjuliði sem tekst á við sjálfstæðismenn um meirihlutann í viðkomandi sveitarstjórn. Skýrir valkostir eru lagðir fyrir kjósendur. Í þessum 11 sveitarfélögum að viðbættri Reykjavík býr ríflega helmingur þjóðarinnar.

Spurningin er hvað megi lesa úr þessu um vilja framsóknarmanna. Ef til vill er styrkur flokksins í sumum sveitarfélögunum það lítill að menn kjósa samstarf, en það tel ég ekki eiga við nema á fáum stöðum. ´Eg bendi á að nú er sameiginlegt framboð í sveitarfélögum þar sem góður árangur náðist síðast, svo sem Hveragerði, Grundarfirði og Garðabær. Ég hygg að líklegasta skýringin sé sú að framsóknarmenn telji sig eiga það mikið sameiginlegt með öðru félagshyggjufólki að eðlilegast sé að starfa með þeim. Það er líka athyglisvert hvað framsóknarmenn eru oft í fararbroddi fyrir slíku framboði og njóta trausts flokksmanna í öðrum félagshyggjuflokkum.

Það er eðlilegt í ljósi þess hve víða framsóknarmenn kjósa að starfa saman að framboði með öðru félagshyggjufólki að velta fyrir sér hvert stefnir til framtíðar litið. Það hlýtur að vera tilgangur með starfi stjórnmálaflokks að bjóða fram til kosninga stefnu sína og talsmenn. Þegar flokksmenn telja í vaxandi mæli að hagsmunum þeirra og sjónarmiðum sé betur borgið í formlegu eða óformlegu samstarfi við aðra flokka heldur en með sjálfstæðu framboði er ástæða til þess að staldra við. Hvað mun leiða af þeirri þróun og hver er vilji flokksmanna?

Það var einmitt vaxandi samstarf A- flokkanna og Kvennalistans á sveitarstjórnarstiginu á síðasta áratug síðustu aldar sem varð undanfari sameiningar flokkanna á landsvísu. Eins og menn muna var það skref ekki óumdeilt, stærsti hluti flokkanna stofnaði Samfylkinguna en aðrir Vinstri græna. Aðeins Alþýðuflokkurinn rann heill og óskiptur inn í Samfylkinguna en bæði Alþýðubandalagið og Kvennalistinn klofnuðu.

Fyrir tæpum mánuði skrifaði ég pistil á heimasíðuna í tilefni af 90 ára afmæli Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins. Rifjaði ég upp hlut Jónasar frá Hriflu í uppstokkun flokkakerfisins fyrir 90 árum og spurði hvort hann myndi nú leggja til tvo flokka til þess að gæta hagsmuna alþýðunnar til sjávar og sveita eins og hann lagði grunn að á sínum tíma með Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum. Við þessum vangaveltum hafa orðið nokkur viðbrögð innan Framsóknarflokksins.

Meðal annars hafa tveir efstu menn flokksins á listanum í Reykjavík velt málinu fyrir sér og báðir lagt áherslu á það að alþýðuflokksmenn eigi pólitíska samleið með framsóknarmönnum. Það er athyglisvert í ljósi þess að Alþýðuflokkurinn var eini flokkurinn sem kom heill og óskiptur inn í Samfylkinguna. Þótt þeir hafi alls ekki talað fyrir sameiningu flokkanna þá eru ábendingar þeirra athyglisverðar og frekar dregur saman flokkana.

Þá er komið að því að svara spurningunni: hvað vilja framsóknarmenn? Samandregið virðist mér að þeir skilgreini sig sem félaghyggjumenn og vilji í vaxandi mæli starfa með öðrum á þeim pólitískum slóðum án þess aðgreina sig eftir flokkum. Þróunin virðist líka vera í átt til þess að bjóða fram skýra valkosti, helst ekki nema tvo. Slakt gengi á landsvísu bendir til þess að áherslurnar sem flokkurinn stendur að í ríkisstjórn séu ekki í samræmi við félaghyggjuáherslurnar sem kallað er eftir á sveitarstjórnarstiginu.

Það kann líka að hafa áhrif að nú eru tveir flokkar sem skilgreina sig sem félagshyggjuflokk á miðju stjórnmálanna, bæði Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin. Alþýðuflokkurinn var áður alltaf mun minni flokkur en Framsóknarflokkurinn en nú hefur þetta snúist við, Samfylkingin er mun stærri en Framsókn.

Það mun koma í ljós fljótlega hvort næsta skref verði samstarf Framsóknarflokksins á landsvísu við flokkana vinstra megin við hann og hvernig því samstarfi verði háttað. En fyrst og fremst þarf forystusveit flokksins að átta sig á þeim skilaboðum sem kjósendur og flokksmenn eru að senda þessi misserin og bregðast við í samræmi við þann vilja sem að baki liggur. Það er lykillinn að góðum árangri.

Athugasemdir