Viljum við auka byrðarnar?

Pistlar
Share

"Nú eru uppi hugmyndir meðal sjálfstæðismanna og raunar samfylkingarfólks einnig, um að auka greiðslubyrði fjölskyldanna í landinu, með því að færa starfsemi Íbúðalánasjóðs til hins almenna bankakerfis. Það þýðir í raun að almenna bankakerfinu verði færð á silfurfati eign almennings að verðmæti 50 milljarðar króna og að greiðslubyrði hámarks húsnæðisláns muni aukast um að minnsta kosti 110 þúsund krónur á hverju ári."

Ofangreind tilvitnun lýsir því hvað gerist ef bankakerfið veitir almenn íbúðarlán í stað Íbúðarlánasjóðs. Það eykur kostnað lántakandans. Það eykur greiðslubyrði almennings. Þetta kemur fram í grein sem Árni Magnússon, fyrrverandi félagsmálaráðherra, birti á Hrifla.is skömmu fyrir síðustu Alþingiskosningar, þann 28. mars 2003.

Hann lýsti því að framsóknarmenn hefðu haft forgöngu um að "tryggja grundvöll hins opinbera húsnæðiskerfis með stofnun Íbúðalánasjóðs og með endurskipulagningu félagslega íbúðalánakerfisins sem var orðið gjaldþrota" og "með stofnun Íbúðalánasjóðs var húsnæðislánakerfið alfarið markaðsvætt, en almenningi tryggð hagkvæmustu mögulegu vaxtakjör sem unnt er að fá hverju sinni. Það er staða sem við framsóknarmenn viljum halda, en sumir aðrir breyta."

Árni Magnússon talaði fyrir hönd Framsóknarflokksins í húsnæðismálum fyrir síðustu kosningar. Það fór ekki á milli mála. Enda varð hann félagsmálaráðherra að þeim loknum. Hann bendir á í Hriflugreininni að með Íbúðalánasjóði er tryggt að almenningur fær lægstu mögulega vexti í gegnum ríkisábyrgðina,allir landsmenn sitja við sama borð og kostnaður við kerfið er sáralítill. Þess vegna geti, að hans mati, boðaðar breytingar ekki þýtt annað en kostnað fyrir almenning.

Árni lýkur grein sinni með eftirfarandi orðum:
"Því leggjumst við framsóknarmenn gegn þessum hugmyndum. Við viljum tryggja áframhaldandi hagkvæmustu lánakjör til kaupa og byggingu á hóflegu húsnæði fyrir fjölskyldurnar í landinu með því að standa vörð um Íbúðalánasjóð. Það er best gert með því að tryggja Framsóknarflokknum góða kosningu þann 10. maí."

Tvær skýrslur sýna að íslenskur fjármálamarkaður er almenningi dýr. Neytendasamtökin létu gera á síðasta ári úttekt á íslenska fjármálamarkaðnum og samanburði við tíu Evrópulönd. Niðurstaðan var sú að á Íslandi eru hæstu vextirnir. Nýleg norræn skýrsla leiðir það sama fram, Ísland er dýrasta landið. Það eru orð að sönnu hjá ráðherranum fyrrverandi að byrðarnar á almenning munu aukast ef bankarnir eiga að taka við íbúðarlánunum. Því hafnaði Framsóknarflokkurinn. Munum það.

Stefna flokksins er að standa vörð um Íbúðalánasjóð, sem verði öflug og sjálfstæð lánastofnun í eigu ríkisins og njóti ríkisábyrgðar. Stofnunin tryggi landsmönnum jafnræði í húsnæðismálum með því að veita hagkvæm lán. Munum það líka.

Athugasemdir