Herinn að fara – loksins.

Pistlar
Share

Í ótryggum heimi um miðja síðustu öld þótti mörgum nauðsynlegt að eiga bandamenn, sem myndu verja land og þjóð. Þess vegna gengu Íslendingar í Nató. En um það voru íslenskir stjórnmálamenn sammála að vilja ekki her á friðartímum. Á tímum kalda stríðsins voru skilgreindir ófriðartímar sem náðu hingað ti lands og því var samið við Bandaríkjamenn um dvöl herliðs þeirra. En það var umdeilt meðal þjóðarinnar og líklega urðu meiri og djúpstæðari deilur um það en nokkurt annað á lýðveldistímanum. Málið snart viðkvæman streng í sál þjóðar, sem nýlega hafði endurheimt sjálfstæði sitt eftir 7 aldir.

Nú hafa Bandaríkjamenn tekið af skarið að engin þörf sé á herliði þeirra hérlendis. Það er vitaskuld byggt á því mati að friður ríki í álfunni. Þeim stafi ekki nein hætta í þessum hluta heimsins, því ég geri ráð fyrir að Bandaríkjamenn hugsi fyrst og fremst um eigið öryggi. En af því leiðir að engin ógn standi að Íslendingum. Yfir þessu mati Bandaríkjamanna eigum við að gleðjast, friður og öryggi ríkja og þá er engin ástæða til þess að hafa erlendan her. Þetta er kjarni málsins.

Eina hugsanlega ógnin hvarf þegar Berlínarmúrinn hrundi 1989 og Sovétríkin í kjölfarið féllu saman innan frá. Líklega hafa Bandaríkjamenn viljað draga úr umsvifum hersins og færa herlið sitt til svæða þar sem meiri þörf væri á því til þess að treysta öryggi sitt. Svo virðist sem íslensk stjórnvöld hafi verið treg til þess að horfast í augu við breytta heimsmynd og gert frekari kröfur um viðveru hersins en Bandaríkjamenn töldu nauðsynlegt.

Síðustu árin hefur mest borið á kröfunni um 4 herþotur, en af einhverjum ástæðum hefur ekki verið tekið til skipulegrar pólitískrar umræðu hver þörfin væri fyrir varnir og þá hvaða varnir. Það gekk meira að segja svo langt að þagað var yfir því mánuðum saman að Bandaríkjamenn vildu kalla herþotur sínar frá Íslandi skömmu fyrir síðustu Alþingiskosningar. Viðræður við Bandaríkjamenn hafa verið meir og minna án samráðs við þjóðkjörna fulltrúa og með því markmiði, að því er best verður séð, að tryggja óbreytt ástand löngu eftir að heimurinn hafði breyst.

Það er vandræðalegt, svo ekki sé meira sagt fyrir íslensk stjórnvöld, að Bandaríkjamenn skuli missa þolinmæðina og taka einhliða ákvörðun í blóra við Varnarsamninginn. Með því segja þeir svo skýrt að ekki verður misskilið, að þeir telja enga þörf á því að hafa lið sitt hér á landi og kosta það. Það eru engin rök fyirr því af hálfu Íslendinga að vera að stæla við Bandaríkjamenn um það mat, a.m.k. fyrst við höfum ekki unnið okkar heimavinnu. Hvers vegna eigum við að hafa erlendan her ef engin er ógnin?

Eðlilegast hlýtur að vera að skilgreina öryggisþörf landsins út frá okkar hagsmunum. Aðildin að Nató stendur óbreytt og fyrsta spurningin hlýtur að vera hvort einhverju þurfi við hana að bæta? Í ljósi stöðumats Bandaríkjamanna má ætla að Varnarsamninginn við Bandaríkjamenn hafi takmarkað gildi, ef nokkuð.

Öryggi þjóðarinnar stafar ekki hætta frá óvinveittum ríkjum heldur þarf að huga að hættu af einstaklingum eða samtökum. Það er breytingin sem orðið hefur og meta þarf hvort sú hætta er raunveruleg og ef svo er þá hvernig við henni er brugðist.

Eitt verður að varast, að ræða varnamálin út frá atvinnuhagsmunum einstakra Íslendinga. Öryggismál og atvinnumál eru ólík og á ekki að blanda saman. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Athugasemdir