Hjúkrunarrými í stað skattalækkunar.

Pistlar
Share

Eitt af brýnustu úrlausnarefnum í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir er að skapa öldruðum mannsæmandi aðbúnað og lífskjör. Að sönnu er margt sem vel hefur áunnist undanfarin ár, en engu að síður eru skortur á hjúkrunarrýmum mikill. Það mál verður hér til umfjöllunar.

Samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum eru um 350 einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Að auki eru um það bil 950 einstaklingar sem deila herbergi á hjúkrunarheimili með öðrum en maka sínum. Þörfin er því um 1300 rúm sem vantar strax. Það er verkefni stjórnvalda að leysa vandann.

Að auki mun öldruðum fjölga á næstu árum. Ef horft er til næstu 10 ára mun þeim, sem eru eldri en áttræðir, fjölga úr 7.300 í 9.700 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Miðað við að fjórðungur þeirra þurfi hjúkrunarrúm kallar fjölgunin á 600 ný rúm að 10 árum liðnum. Að jafnaði má segja að 60 ný rúm þurfi á hverju ári næsta áratuginn.

Kostnaðurinn er mikill, það fer ekki milli mála. Miðað við daggjöld skv. RAI 1.0 eru þau um 14 þúsund krónur á hverjum sólarhring. bráðavandinn upp á 350 rúm kosta því um 1.8 milljarða króna á ári. Einsetning í herbergi kostar mun minna vegna þess að þegar er greitt daggjald vegna einstaklinganna, en áætla má að rekstrarkostnaður aukist um 25% pr. einstakling við það að hver verður einn í herbergi. Það kostar um 1.2 milljarða króna fyrir 950 einstaklingana sem deila herbergi í dag með öðrum en maka sínum. Samtals er kostnaður við það sem kalla má bráðavandann um 3 milljarðar króna á ári.

Kostnaðinn vegna fjölgunarinnar næsta áratug má áætla upp á 3 milljarða króna á ári í lok tímabilsins þegar 600 ný rúm verða komin í notkun. Ég hef ekki gert ráð fyrir kostnaðaraukningu vegna launahækkunar hjá starfsfólki eða aukinnar þjónustu. Það getur vel verið að það verði talið nauðsynlegt, en ég lít svo á að það falli frekar undir almenna stefnu stjórnvalda en úrlausn þess vanda sem við blasir í hjúkrun aldraðra.

Þá er komið að því að finna peninga til þess að veita þjónustuna. Ég vil taka undir þær hugmyndir sem áður hafa komið fram, að hætta við lækkun tekjuskattsprósentunnar um 2% um næstu áramót og hafa lækkunina aðeins 1%. það gefur ríkissjóði 5-6 milljarða króna í tekjur á hverju ári. Horft til næstu 10 ára munu þær tekju duga til þess að greiða allan kostnað við rekstur nýju hjúkrunarrúmanna og stofnkostnaðinn einnig.

Þetta er skýr og einföld tillaga og hún leysir vandann. Spurningin er aðeins: er pólitískur vilji til þess að hrinda henni í framkvæmd? Valið fyrir þá sem greiða skatta er hvort þeir vilja frekar bæta hag aldraðra en sinn eigin. Ég er ekki í vafa um að yfirgnæfandi meirihluti skattgreiðendanna vill borga skattinn og veita öldruðum betra ævikvöld.

Athugasemdir