Stjórnmálahreyfingar alþýðu 90 ára.

Pistlar
Share

Í dag eru nákvæmlega 90 liðin frá því að Alþýðusamband Íslands var stofnað. Af því tilefni vil ég senda sambandinu og félagsmönnum þess góðar afmæliskveðjur. Stofnun ASÍ hefur reynst heillaskref fyrir alþýðu manna og reyndar íslenskt þjóðfélag allt. Samtakamátturinn hefur verið nýttur til þess að ná fram jöfnuði í tekjudreifingu, koma á fót almannatryggingum, tryggja orlof og lágmarkshvíldartíma svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir níutíu ára starf alþýðuhreyfingar á faglegum og pólitískum vettvangi er íslenskt þjóðfélag í allra fremstu röð í heiminum. Það er gífurleg breyting frá því sem við upphafsmönnunum blasti árið 1916, en þá var landið að mörgu leyti vanþróað í uppbyggingu, skipulagi og lífskjörum. Það eru vandfundin dæmi um meiri framfarir hjá öðrum þjóðum á þessum tíma. Fullveldið og sjálfstæðið lögðu grunninn að árangrinum. Með það í höndunum hefur þessi árangur náðst.

Í upphafi síðustu aldar snerust stjórnmálin nær alfarið um sjálfstæðisbaráttuna og skipan manna í stjórnmálaflokka miðaðist við það mál. Þegar kemur fram á 2. áratug aldarinnar verður æ fleirum ljóst að það þurfti stjórnmálaflokk til þess að vinna að hagsmunamálum almennings. Stjórnmálin voru farin að litast af stéttabaráttu og gamla flokkskerfið uppfyllti ekki kröfur fólksins. Þjóðfélagið þarfnaðist nýrrar flokkaskipunar.

Alþýðusambandið var stofnað til þess að svara þessum breyttu aðstæðum. Það gegndi tvenns konar hlutverki: það var samtök verkamanna í baráttu fyrir hærri launum og betri lífskjörum. Samtímis var það stjórnmálaflokkur sem byggði á jafnaðarstefnunni. Í stefnuskrá þess frá 1917 var lögð áhersla á lýðræði, jafnræði, friðarhyggju og þingræði sem upphaf og endi alls. Ítrekað var að alþýða landsins til sjávar og sveita ætti samleið, ein alþýðustétt mætti ekki láta egna sig upp á móti annarri. ASÍ eða Alþýðuflokkurinn stefndi þarna að samstarfi við Framsóknarflokkinn, sem hafði verið stofnaður 16. desember 1916.

Strax í janúar 1916, þegar undirbúningur að stofnun ASÍ stóð sem hæst, var boðið fram í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík. Þar unnu verkamenn eftirminnilegan sigur, fengu 3 af þeim 5 sætum sem þá var kosið um. Um sumarið bauð ASÍ fram sem sjálfstæður stjórnmálaflokkur til Alþingis í landskjöri, sem þá fór fram, en vantaði herslumuninn til þess að fá mann kjörinn. Það náðist hins vegar í kosningunum í Reykjavík um haustið sama ár, þegar Jörundur Brynjólfsson var kosinn á þing.

Náið samband milli Alþýðuflokks og Framsóknarflokks birtist í nánu samstarfi flokkanna á Alþingi á 3. og 4. áratugnum í ríkisstjórn Framsóknarflokks með hlutleysi Alþýðuflokks og samsteypustjórn flokkanna síðar. Meira að segja fyrsti þingmaður Alþýðflokksins gekk síðar í Framsóknarflokksins og varð lengi þingmaður hans í Árnessýslu. Samstarf flokkanna skilaði mörgum framfaramálum í höfn og lagði grunninn að velferðarkerfinu sem við þekkjum í dag.

Það var kannski engin tilviljun að þessir tveir flokkar skyldu eiga samleið, það var beinlínis til þess stofnað. Sá maður sem átti mikinn þátt í stofnun þeirra beggja og Alþýðusambandsins var enginn annar en Jónas frá Hriflu. Hann ætlaði þeim að starfa saman og vera hvor á sinum vettvanginum, annar til sveita og hinn til sjávarins, eins og reyndar endurspeglaðist í stefnuskrá ASÍ.

Jónas Jónsson frá Hriflu skildi þörfina fyrir breytingar á stjórnmálaflokkunum og vann að því að búa til nýja flokka. Á fundi verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík 28. október 1915 var samþykkt tillaga Ottós N. Þorlákssonar um að koma á sambandi milli verkamannafélaganna. Félögin skipuðu hvert sína fulltrúa í undirbúningsnefnd og fulltrúi Hásetafélagsins var enginn annar en Jónas frá Hriflu. Var honum falið að semja drög að lögum Alþýðusambandsins, sem og hann gerði.

Á fyrsta reglulega þingi ASÍ, sem haldið var fáum mánuðum eftir stofnfund ASÍ, var Jónas Jónsson kosinn í embætti ritara ASÍ, sem undirstrikar hve hlutur hans í undirbúningi stofnunarinnar var stór. Jónas mátti ekki vera að því að dvelja lengi innan ASÍ því áform hans voru að stofna annan stjórnmálaflokk og honum lá á. Eftir aðeins viku í embætti ritara ASÍ sagði Jónas sig úr sambandsstjórninni til þess að vinna að stofnun Framsóknarflokksins. Jónas hafði samið fyrsta frumvarpið að lögum ASÍ og sat í nefnd þeirri sem samdi fyrstu stefnuskrá þess. Þá er Jónasi iðulega eignuð sú hugmynd að gera Alþýðuflokkinn að skipulagðri heild með Alþýðusambandinu.

Það er verðugt viðfangsefni að velta því fyrir sér hvort flokkakerfið í dag endurspegli þarfir þjóðfélagsins. Hvort þjóðfélagsbreytingarnar síðustu 90 ár kalli á uppstokkun á stjórnmálasviðinu og nýja flokka. Það verður ekki horft fram hjá því að síðasti áratugur hefur verið umbrotatími á vinstri væng stjórnmálanna, þar sem Jónas frá Hriflu ætlaði Alþýðuflokknum að starfa og að til er orðinn flokkur með þriðjung til fjórðung atkvæða að baki sér. Sú staðreynd hlýtur að leiða til þess að Framsóknarmenn skoði sína stöðu, sérstaklega ef flokkurinn er ekki lengur næststærsti flokkur þjóðarinnar. Hingað til hefur Framsóknarflokkurinn lengstum keppt við Sjálfstæðisflokkinn um forystuna í íslenskum stjórnmálum, en þeir tímar virðast að baki að öllu óbreyttu.

Hvað myndi Jónas frá Hriflu leggja til ef hann mætti nú skyggnast um sviðið? Hvaða leið sæi hann fyrir Framsóknarflokkinn til þess að hann megi áfram vera mótandi forystuafl um íslenskt þjóðfélag? Myndi hann ekki enn leggja áherslu á að alþýða landsins til sjávar og sveita eigi samleið og að Framsóknarflokkurinn eigi að einbeita sér að almannahagsmunum og gegn sérhagsmunum? Hver veit, en Jónas gæti bent á að þeir flokkar sem skilgreina sig sem félagshyggjuflokkar eigi að öðru jöfnu að vinna saman. En myndi hann telja nú þörf á tveimur flokkum eins og fyrir 90 árum?

Athugasemdir