Árni er aðal.

Pistlar
Share

Það fer ekki á milli mála að fjármálaráðherra er aðalmaðurinn. Í gær var send út fréttatilkynning frá fjármálaráðuneytinu þar sem almúganum og aumu Alþingi var tilkynnt: “hefur fjármálaráðherra ákveðið að gera skattalegar umbætur”. Ríkisútvarpið áttaði sig auðvitað á því hver er aðal og sagðist svo frá: Fjármálaráðherra hefur ákveðið að lækka skatta hjá nýsköpunarfyrirtækjum.

Við lestur fréttatilkynningar fjármálaráðuneytisins kemur í ljós að aðgerðirnar eru fjórþættar. Reglugerð er breytt, leggja á tvö lagafrumvörp fyrir Alþingi og skipuð nefnd til að skoða sértæka skattaívilnanir og ef það þykir vænlegt ráð þá verður flutt þriðja lagafrumvarpið. Ég hef staðið í þeirri meiningu að ef setja á lög gerist það með ákvörðun Alþingis. En það er víst misskilningur, nú eru lög sett samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningunni.

Fjármálaráðherra var um daginn að skrifa undir milljarða króna útgjöld fyrir ríkissjóð vegna tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavik. Þar var ríkissjóður skuldbundinn áratugi fram í tímann til þess að greiða árlega tiltekna upphæð. Honum sagðist svo frá að þetta gerði hann af mikilli ánægju. Varaformaður fjárlaganefndar sagði frá því í Silfri Egils á sunnudaginn að ráðherrann hefði enga heimild til þessarar skuldbindingar. Það þyrfti heimild frá Alþingi í fjárlögum og hún væri ekki fyrir hendi.

Varaformaður fjárlaganefndar skilur greinilega ekki stöðu og hlutverk Alþingis og heldur að það sé aðal. Eða að hann sé aðal. En fréttatilkynning fjármálaráðuneytisins leiðréttir þennan misskilning. Alþingi ákveður ekkert. Fjármálaráðherra ákveður. Punktur. En varaformaður fjárlaganefndar er líka að vestan, eins og fleiri.

Athugasemdir