Þar skriplaði á skötu, Össur.

Pistlar
Share

Össur Skarphéðinsson á það til að fara fram úr sjálfum sér í skrifum á heimasíðu sinni. Ég er hræddur um að það hafi hent hann aðfararnótt síðastliðinn sunnudag, í pistli sem settur er inn á heimasíðuna kl 2:49 að nóttu. Þar segir Össur að það orki tvímælis að þingmenn þiggi boðsferðir Tævanskra stjórnvalda og segist sjálfur hafna þeim af prinsippástæðum.

Orðrétt segir í pistlinum: “Mér finnst það orka tvímælis af þingmönnum að taka þessar ferðir, sem tengjast þinginu ekkert. Vitaskuld er tilgangur Tævana sá að kaupa sér með þessu stuðning íslenskra stjórnmálamanna, með það fyrir augum að þegar viðkomandi boðsgestir eru komnir til áhrifa, þá muni þeir sjá um að Ísland viðurkenni fullveldi Tævan”.

Auðvitað eru Tævanar að bjóða íslenskum þingmönnum til þess að kynna sig og sjónarmið sín og vinna þeim fylgi. Það liggur í hlutarins eðli. Þeim er boðið vegna þess að þeir eru þingmenn. Þess vegna er það tóm endaleysa í Össuri að halda því fram að ferðirnar tengist ekki þinginu, enda segir hann sjálfur að tilgangur Tævana sé að þingmennirnir beiti sér í þeirra þágu þegar þeir eru komnir til áhrifa.

Spurningin er hvort það orki tvímælis að þiggja boðsferðir Tævana. Það er gild spurning og eðlilegt að farið sé yfir málið. Það er líka eðlilegt að einhver viðmið eða prinsipp séu til um það hvað telst á hverjum tíma eðlilegt og viðeigandi. Svarið við spurningunni hvort boðsferðin orki tvímælis er skýrt af minni hálfu, að svo er ekki. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi er það hluti af starfi alþingismanns að kynna sér mál og sjónarmið málsaðila. Í hverju máli, sem varðar stjórnmálin, eru hagsmunaaðilar og þeir eru flestir ófeimnir við að kynna sín viðhorf, sumir kalla það að reka áróður. Alþingismaðurinn verður að vega og meta hvert mál og leitast við að kynna sér allar hliðar þess og gera sér grein fyrir hagsmununum og hvernig þeir móta hvern og einn málsaðila.

Í öðru lagi sækir alþingismaður umboð sitt til kjósenda. Gangi hann erinda einhverra hagsmunaaðila á þann hátt að kjósendum líkar ekki, þá eiga þeir síðasta orðið. Þingmaður getur ekki vænst þess að halda starfi sínu með því að horfa til eins erlends hagsmunaaðila. Í þriðja lagi er algengt að alþingismönnum er boðið í ferðir innanlands og erlendis. Mörg dæmi eru um ferðir svipaðar Tævanferðunum.

Ég get nefnt ferð sem ég fór fyrir 11 árum til Kína. Þá fóru fulltrúar allra þingflokka í hálfsmánaðarferð í boði kínverska þingsins. Annað dæmi er um ferð þingmanna til þýska þingsins fyrir nokkrum árum. Árlega bjóða yfirvöld í Schlesvig-Holstein íslenskum þingmönnum á Kílarviku. Og eru þá aðeins nefnd fáein dæmi. Í öllum þessum ferðum er það gestgjafinn sem greiðir kostnaðinn að mestu leyti eða að öllu leyti. Boð Tævana nú er svipað og kínverjanna fyrir 11 árum. Farið er með gesti um landið, skoðaðir markverðir staðir, farið í söfn og fyrirtæki og fundir með stjórnvöldum. Gestrisni er mikil og gestgjafarnir keppast við að gera gestunum til hæfis. Stundum er boðið til þingmanna og stundum til Alþingis.

Ferðirnar eru mismunandi að tímalengd og kostnaður gestgjafans mismikill og líklega eru flestir á þeirri skoðun að einhver takmörk séu fyrir því hvað teljist eðlilegt eða við hæfi. Ég skal ekki skera úr um það í þessum pistli hver þau eru, en vil þó segja að Tævanferðirnar eru innan marka sem hingað til hafa verið látin óátalin. Þess vegna svaraði ég spurningunni að boðsferðin Tævan orki ekki tvímælis. Mér er ekki kunnugt um að Össur hafi dregið einhver prinsipp varðandi boðsferðir, en það væri rétt að hann upplýsti um hver þau eru og hvernig framkvæmdin hjá honum og flokksfélögum hans samræmist þeim prinsippum.

Minna má á að ráðherrar fá líka boð líkt og alþingismenn. Og af því að Össur Skarphéðinsson hefur verið ráðherra þá getur hann örugglega nefnt mýmörg dæmi um að hagsmunaaðilar, svo sem fyrirtæki, opinberir aðilar og ríki, hafi boðið ráðherrum í hóf, afhafnir, ferðalög eða annað þess háttar til þess að kynna sín sjónarmið eða hagsmuni.

Loks vil ég nefna framgöngu Íslendinga sjálfra. Þeir eru ófeimnir við að bjóða erlendum aðilum til landsins til þess að kynna sín mál. Á það við um stjórnvöld og Alþingi eins og aðra. Hvar dregur Össur línuna í þeim boðsferðum? Svo er það Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar ætla að verja um 600 milljónum króna til þess að vinna að því að afla stuðningi við framboð Íslendinga. Stofnað er til stjórnmálasambands við hin og þessi ríki og víst er að þar er misjafn sauður í mörgu fé svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ekkert hef ég heyrt af prinsippum Össurar um þá framgöngu.

Það er ekki gott að hann geri sér far um að gera ferðir alþingismanna tortryggilegar án þess að skýra í hverju athugasemd hans er fólgin. Það hafa 17 þingmenn farið til Tævan á undan þeim sem þar eru nú. Hafi ég réttar upplýsingar þá voru í síðustu ferð tveir félagar Össurar í Samfylkingunni. Ég velti því fyrir mér hvort hann hafi rætt sínar athugasemdir við þá.

En nokkuð ljóst er af því sem hann skrifar um Tævan að verulegrar ónákvæmni gætir um mikilsverð atriði og ummæli hans um ræðismann Tævana á Íslandi hefðu betur verið ósögð. Þá þykir mér taka í hnjúkana þegar Össur segist styðja heils hugar að 23 milljónir íbúa lýðræðisríkis verði gegn vilja sínum sameinaðir ráðstjórnarríkinu Kína. Á þeim bænum er ekki mikið spurt um vilja almennings. Meðal helstu afreka kommúnistastjórnarinnar er að ráðast gegn frelsinu á veraldarvefnum og Tævanar segja að 300 þúsund manns hafi verið ráðnir í vinnu í Kína til þess að þurrka út af netinu óæskilegar upplýsingar.

Í þessum pistli skriplaði Össuri á skötunni svo um munar. Hann er vanur að gera betur.

Athugasemdir