Blair: Guð tók ákvörðunina með mér.

Pistlar
Share

Innrásin í Írak ætlar að verða myllusteinn um hálsinn á þeim sem að henni stóðu. Þrátt fyrir að innrásinni hafi lokið með algerum sigri innrásarherjanna á skömmum tíma, er stríðið langt í frá búið. Mannfallið er orðið gífurlegt bæði meðal hermanna og óbreyttra borgara. Innrásarliðið getur ekki haldið andspyrnuhreyfingu og hermdarverkarmönnum í skefjum og heldur fer mannfallið vaxandi en hitt. Er ástandið farið að minna óþyrmilega á Víetnam stríðið, sem kenndi mönnum að mesta herveldi heimsins gæti ekki unnið stríð sem háð væri við verulegan hluta þjóðar landsins.

BBC birti fyrir nokkrum dögum skoðanakönnun sem það lét gera í 35 löndum. Um 60% telja að stríðið hafi aukið líkur á hryðjuverkaárásum um heiminn en aðeins 12% að líkurnar hafi minnkað. Í 33 löndum voru þeir fleiri sem telja að hættan á hryðjuverkum hafi aukist en aðeins í 2 löndum voru fleiri á öndverðri skoðun. Þetta er afgerandi mat almennings í löndunum 35 og segir auðvitað að innrásin hafi misheppnast. Tilgangurinn með innrásinni var að uppræta hryðjuverkaógnina eða að minnsta kosti gera heiminn öruggari.

Í Berlingske Tidende er um helgina einmitt umfjöllun um Írakstríðið undir fyrirsögninni: Er Íraksstríðið tapað? Er vitnað til ummæla William F. Buckley nafntoguðum hægrimanni og stuðningsmanni Bush í Bandaríkjunum, sem hefur látið hafa það eftir sér að innrásin hafi mistekist og að Bandaríkjamenn verði að viðurkenna að 130 þúsund hermenn þeirra geti ekki tryggt öryggi manna í Írak. Bandarískur almenningur sé ekki reiðubúinn til þess að senda fleiri hermenn til Írak og því sé ekki hægt að vinna í þessi stríði. Þessi ummæli lætur hann falla eftir hryðjuverkahrinu síðustu vikna sem hefur fært ástandið í Írak nálægt hreinni borgarastyrjöld.

Um helgina var mikil umfjöllum í bresku pressunni um ummæli sem Tony Blair, forsætisráðherra Breta lét falla í þætti Michael Parkinson á laugardaginn um Írakstríðið. Bretar hafa alla tíð verið andsnúnir innrásinni og aðild sinni að henni, sérstaklega eftir að í ljós kom að ástæðurnar fyrir innrásinni voru ýmist ósannar eða byggðar á afar veikum grunni. Í áðurnefndri könnum BBC telja 77% Breta að innrásin hafi aukið á hryðjuverkaógninni en aðeins 12% að hún hafi minnkað.

Íraksmálið hefur reynst Blair afar erfitt og farið illa með trúverðugleika hans í augum Breskra kjósenda. Í viðtalinu er Blair spurður að því hvort rétt hafi verið að senda Breska hermenn til Íraks svara hann því til að Guð muni dæma um það. Eru það svipuð svör og Bush Bandaríkjaforseti hefur gefið. Spurður að því hvernig hann geti borið ákvörðun sína um innrás í Írak svarar Blair því til að ef maður hafi trú á ákvörðun sinni þá hafi hún einnig verið tekin af öðrum. Og ef maður trúi á Guð þá hafi Guð einnig tekið ákvörðunina.

Þarna er Blair kominn inn á hálar brautir og fer gegn ráðleggingum sem hann hefur virt til þessa sem forsætisráðherra, að blanda ekki saman trú og stjórnmálum. Þar ferst honum eins og ýmsum múslimaleiðtogum, sem vestræn ríki hafa gagnrýnt fyrir að láta trúna hafa áhrif á ákvarðanir í stjórnmálum og jafnvel sækja í trúarbrögðin rökstuðning og leiðbeiningu fyrir pólitískar ákvarðanir.

En svör hans bera með sér málsvörn rökþrota manns. Nauðvörnin er að vísa í Guð og fela honum að fella dóma yfir ákvörðuninni. Þar með er ekki hægt að gera Blair ábyrgan fyrir innrásinni, því að Guð réði málinu og það er ekki heldur hægt fyrir dauðlegu mennina að deila við Guð. Með öðrum orðum það er ekki hægt að ræða málið og deila um það, menn verða að beygja sig undir vilja Guðs. Blair verður ekki gagnrýndur.

Loks og kannski það hættulegasta í málinu. Blair og reyndar Bush líka, hefja sig upp fyrir almúgann og lýsa sig í raun umboðsmenn Guðs og handhafa hans vilja hér á jörð. Þeir náðu sambandi við sinn Guð og ákváðu innrásina afdrífaríku eftir það.

Þetta er það sama og konungar og keisararar sögðu um aldir. Þjóðir Evrópu að minnska kosti lærðu af sögunni og aðskildu trúmál og stjórnmál. Tekið var upp lýðræði með almennum kosningum og víst hefur það reynst farsælt og árangsríkt fyrirkomulag. En nú eru allt í einu komnir upp lýðræðislega kosnir menn, sem tala eins og þeir séu hafnir upp fyrir almenning með sérstöku og persónulegu sambandi þeirra við almættið. Enduróma valdamenn fyrir daga lýðræðisins.
Hvað er að gerast í vestrænum lýðræðisríkjum?

Athugasemdir