Mesta fylgi Framsóknarflokksins er í Norðvesturkjördæmi.

Pistlar
Share

Í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu eru að auki birtar upplýsingar um fylgi flokkanna í einstökum kjördæmum. Könnunin var unnin frá 28. desember 2005 til 30. janúar 2006. Úrtaksstærð var 5969 manns og svarhlutfall var 62%. Vikmörk eru 1-3% svo ætla verður að könnunin sé mjög marktæk. Rúmlega 20% tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og tæplega 6% sögðust myndu skila auðu ef kosið yrði í dag.

Litlar breytingar urðu á fylgi flokkanna frá síðasta mánuði, þær helstu að Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig 1% og Framsóknarflokkurinn tapaði 1% og mælist nú með 10,5% fylgi á landsvísu.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist mest í Norðvesturkjördæmi og er 19%. Næst kemur Suðurkjördæmi, en þar er fylgið 16% og Norðausturkjördæmið sjálft er aðeins í þriðja sæti með 15%.
Í Suðvesturkjördæmi er mælist fylgið 9%. Restina rekur svo Reykjavík með 7% fylgi í norðurkjördæminu og 5% fylgi í suðurkjördæminu.

Fylgi Samfylkingar er minnst í Norðvesturkjördæmi eða 22% og næstminnst fylgi Sjálfstæðisflokksins (34%) er þar. Frjálslyndi flokkurinn er með 5% fylgi og Vinstri grænir hafa 20% fylgi.

Þetta verða að telja athyglisverðar tölur, sérstaklega um stöðu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, í ljósi greinaskrifa og fjölmiðlaumfjöllunar síðan um miðjan janúar.

Athugasemdir