Kvótakerfið ófullnægjandi og óvinsælt.

Greinar
Share

Í gær var til umræðu á Alþingi frumvarp til laga um enn eina breytinguna á lögunum um stjórn fiskveiða. Þar er verið endanlega að taka út úr lögunum ákvæði um sóknardagakerfið sem lögfest voru fyrir réttum 7 árum. Reyndar var það vorið 2004 sem handfærabátarnir í dagakerfinu voru færðir í krókaaflamarkið og í raun tekin upp sama stjórnunin á allan flotann.

Dagakerfið reyndist að mörgu leyti vel framan af, sem leið fyrir nýja aðila inn í útgerð. Stofnkostnaðurinn var viðráðanlegur. En fjöldi veiðileyfa var takmarkaður og nýir aðilar þurftu að kaupa einhvern út. Þegar á leið fór verðið á veiðleyfunum og reyndar á sóknardögunum að hækka verulega og nálgast það sem var í kvótakerfinu. Þá varð óumflýjanlegt að stjórnkerfin rynnu saman hvað varðar smábátana. En handfærakerfið skilaði samt ágætum árangri fyrir veikar byggðir, þann tíma sem það stóð.

Í umræðunni í gær velti ég því fyrir mér hvort við værum komnir á leiðarenda í löggjöfinni og hefðum búið til hið fullkomna og óumdeilda kerfi. Svarið er nei, öðru nær. Á kvótakerfinu eru miklir gallar, þeir sömu og hafa verið augljósastir frá því að framsal var heimilað árið 1990. Hvert byggðarlagið á fætur öðru lendir í þeirri ógæfu að handhafar veiðiheimildanna ákveða að selja þær, innleysa verðmætin og stinga þeim í vasann. Eftir sitja íbúarnir með sárt ennið og sjá á eftir atvinnunni sem fer með veiðiheimildunum.

Frá síðustu Alþingiskosningum hefur þetta gerst á Akranesi, á Skagaströnd og á Akureyri. Fáum datt það í hug þá að þessir staðir myndi lenda í þessari ógæfu. Það væri bara hlutskipti þorpanna á Vestfjörðum og sunnanverðu Austurlandi, en stóru staðirnir eins og Akureyri gætu ekki tapað. En þeir gerðu það samt. Lærdæmurinn á þessu kjörtímabili er að enginn er óhultur fyrir áhrifum framsalsins.

Þetta er algerlega óviðunandi og ófullnægjandi, það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona leikreglur um helsta atvinnu sjávarbyggðanna. Þess vegna er ekki lokið því verki að finna réttláta löggjöf. Kvótakerfinu verður að breyta og tryggja umráðarétt yfir veiðiheimildum eða verðmætunum sem í þeim felast.

Þingeyingar vilja ráða því að orkan í jörðu verði aðeins nýtt til atvinnusköpunar í sýslunni og ekki flutt burtu. Ég er eiginlega sammála þeim. Það er sanngjarnt að náttúrurauðlindin verði þeim til uppbyggingar. Sama má segja um sjávarauðlindina. Það má minna á að landnámsmaður Bolvíkinga, Þuríður sundafyllir, sem setti Kvíarmið, tók á kollótta af hverjum sem nýtti þau mið. Bolvíkingar voru sem sé frumkvöðlar í gjaldtöku fyrir auðlindanýtingu.

Þjóðin er sammála því að kvótakerfið er svo gallað að því verður að breyta. Í könnum Gallup frá september 2004 kemur fram að 64% þjóðarinnar eru óánægð með kerfið en aðeins 18% ánægðir. Ekki hafði ánægjan vaxið mikið á þeim 6 árum sem liðin voru þá frá síðustu könnum eða óánægjan minnkað.

Hvorki meira né minna en 65% vildu breyta kvótakerfinu. Þeir voru fleirir sem vildu hreinlega leggja kerfið niður en hinir sem vildu hafa það óbreytt eða 19% á móti 16%. Meirihluti stuðningsmanna allra flokkanna vilja breyta kerfinu eða leggja það niður. Það á við um 61% stuðningsmanna Framsóknarflokksins og 70% kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Með þessi skilaboð frá þjóðinni þarf ekki að deila um það að kerfinu þarf að breyta verulega. Verkinu er ekki lokið, hvað svo sem kvótagreifarnir segja.

Athugasemdir