Aðeins eitt álver – og það fyrir norðan

Pistlar
Share

Ein hliðin á stóriðjuumræðunni snýr að mengun og Kyoto samningunum sem Íslendingar eru aðilar að. Sá samningur setur takmörk fyrir því hversu mikið hægt er að bæta við stóriðjuna frá því sem nú er. Ef fram úr þeim takmörkunum verður að afla nýrra heimilda, annað hvort með sérákvæðum í alþjóðasamningum eða kaupum á kvótum frá öðrum þjóðum. Nú er verið að reisa álver í Reyðarfirði og stækka annað í Hvalfirði. Spurningin er: hvað er hægt að bæta við í stóriðjunni innan marka samningsins, kenndan við Kyoto?

Undanfarna daga hefur farið fram einkennileg umræða að því leyti að svarið við spurningunni breyttist skyndilega. Nú er allt í einu talað eins og hægt sé að reisa þrjú ný álver með 780 þús. tonna ársframleiðslu án þess að fara fram úr takmörkunum samningsins.

Til þessa hefur svarið verið: eitt álver. Einmitt vegna þess kom staðsetning næsta álvers til umræðu á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins. Samþykkt var tillaga með ríflegum meirihluta að það yrði á Norðurlandi. Framsóknarflokknum ætti að ekki vera skotaskuld úr því að bera þá samþykkt fram til sigurs með iðnaðarráðuneytið og sjálft forsætisráðuneytið í ríkisstjórninni, og hver á svo sem að vera á móti? Sjálfstæðisflokkurinn?

Á alþjóðlegri ál- og orkuráðstefnu í marsmánuði 2004 sagði Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar að enn væri rúm fyrir eitt nýtt álver á næsta áratug, frá árinu 2012 til 2020 skv. frásögn Morgunblaðsins. Í janúar 2005 kemur fram hjá Jakob Björnssyni, fyrrverandi orkumálastjóra, í grein í Mbl., það mat hans að heimildir samningsins yrðu uppurnar með Reyðarál og stækkun Norðuráls upp í 260 þús. tonn. En þá gerir hann ráð fyrir að tekin yrðu frá 300 þús. tonn af koltvísýringu til annars orkufreks iðnaðar en álframleiðslu. Jakob telur sem sé, að ekki sé hægt að bæta við nýju álveri til viðbótar þeim sem eru í byggingu.

Í Morgunblaðinu birtist 20. október 2005 frétt, þar sem greint var frá því að í Umhverfisráðuneytinu væri verið að undirbúa frumvarp um útstreymisheimildir. Rætt var við ráðuneytisstjórann Magnús Jóhannesson. Þar kom m.a. fram að Ísland hefði heimild til þess að auka losun á koltvíoxíði um 1.600 þús. tonn á ári að meðaltali á árunum 2008-2012 vegn a nýrrar stóriðju sem notar endurnýjanlega orku. Búið væri að ráðstafa 1.183 þús. tonnum skv. útreikningum Iðnaðarráðuneytisins.

Síðan segir orðrétt í fréttinni: “Þetta þýðir að Íslendingar hafa líklega um 417 þús. tonn. af koltvísýringi á ári til ráðstöfunar í samræmi við íslenska ákvæðið fram að og með fyrsta skuldbindingatímabilinu. Það lætur nærri að það dugi til byggingar á einu nýju álveri, en það fer þó eftir stærð þess.” Þá ættu öll kurl að vera komin til grafar. Svarið við spurningunni er: eitt álver og Framsóknarflokkurinn vill að það verði fyrir norðan.

Íslendingar styðja Kyotosamninginn. Umhverfisráðherrann sagði það skýrt á loftlagsráðstefnunni í Montreal í Kanada í desember síðastliðnum. Ráðherrann sagði að Íslendingar myndu uppfylla ákvæði samningsins og leggja sig fram við að gera betur en ákvæði samnings kveða á um. Þetta er skynsamlega mælt. Það þýðir að auka ekki mengun heldur að draga úr henni. Öllum á að vera ljóst að á næsta skuldbindingartímabili, sem hefst árið 2013, verður samið um minnkun á losun á gróðurhúsalofttegundum, ekki aukningu.

Þess vegna er það glæfralegt að ætla að auka losunina svo fram til 2012 að hún verði í upphafi árs 2013 langt umfram umsamdar heimildir. Það verður áfram hægt að bæta við fleirum álverum eða annarri stóriðju, en það verður þá að kaupa mengunarkvóta af öðrum þjóðum eða að vinna sér inn kolefniskvóta með aðgerðum hér heima, svo sem skógrækt eða landgræðslu. Eins er hægt fyrir íslendinga að vinna að verkefnum erlendis sem draga úr losun á móti stóriðjunni hér heima. Aðalatriðið verður að draga úr loftslagsmengun og við íslendingar eigum að skipa okkur eindregið í lið með þeim sem vinna að því. Við eigum ekki að hafa þá stefnu að semja okkur undan því að axla okkar ábyrgð á málinu. Það er kjarni málsins.

Athugasemdir