Tvær fylkingar

Pistlar
Share

Prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík er lokið og það er fyrir margra hluta sakir athyglisvert. Stærstu tíðindin eru hinu nýju starfshættir, að valinn hópur valdamikilla manna í flokknum,sem eru starfandi innan sem utan sveitarfélagsins, lætur boð út ganga um það hver eigi að vinna. Þetta hef ég gagnrýnt, enda er þetta ráðslag til þess fallið að sundra flokksmönnum í ólíkar fylkingar. Tveir frambjóðandanna til 1. sætis, þau Anna Kristinsdóttir og Óskar Bergsson tóku undir þessa gagnrýni mína í kosningabaráttunni og töldu þetta óeðlileg afskipti. Í gær skrifar Óskar Bergsson á heimasíðu sína eftirfarandi:

“Framboð okkar Önnu stóð í skugga framboðs sem borið var fram af forsætis- og félagsmálaráðuneytinu. Auk þess sem allir aðstoðarmenn ráðherra Framóknarflokksins, þingmaður, ráðherra, fyrrverandi ráðherra, formaður kjördæmasambandsins í Reykjavík norður og formaður fjáröflunarnefndar Framsóknarflokksins voru opinberir stuðningsmenn Björns Inga Hrafnssonar. Mörgum stuðningsmanna minna í flokknum þótti óþægilegt að styðja mig opinberlega vegna þess að með þeim hætti væru þeir í raun og veru að setja sig uppá móti formanni flokksins og ráðgjöfum hans.”

Þetta segir allt sem segja þarf. Viðbrögðin við gagnrýni minni eru að sumu leyti þannig að ástæða er til þess að hafa verulegar áhyggjur. Þegar því er haldið fram í alvöru, að gagnrýni mín og krafa um að áhrifamenn gefi kjósendum frið, séu afskipti af prófkjörinu sjálfu, þá er hlutunum snúið á haus. Það er sama villan og að skamma þann, sem sagði frá bjórdrykkju á ónefndum stað, en ekki þann sem stóð fyrir henni. Þeir, sem sjá veröldina svona, munu þá líklega handtaka þann sem sagði frá innbroti en sleppa innbrotsþjófinum, svo ég búi til einhverja hliðstæðu.

En úrslit prófkjörsins sýna tvær nokkurn vegin jafnstórar fylkingar. Enginn frambjóðandi fékk hreinan meirihluta. Björn Ingi Hrafnsson, sem vann, fékk rúmlega 45% greiddra atkvæða og hin tvö fengu samanlagt jafnmörg atkvæði í 1. sætið og Björn Ingi. Ef notuð hefði verið sú aðferð að sigurvegari verði að fá hreinan meirihluta í sæti, þá færi fram önnur kosning milli tveggja efstu og þá hygg ég að óvíst yrði hvor ynni. Þar sem Óskar og Anna voru að nokkru leyti samhljóða í málflutningi sínum finnst mér líklegt að kjósendur þeirra myndu standa saman í kosningu milli tveggja efstu.

Óskar og Anna skýrskotuðu í sinni kosningabaráttu meira til flokksbundinna framsóknarmanna, en Björn Ingi beindu máli sínu fremur að utanflokksfólki. Þetta finnst mér benda til þess, í ljósi þess hve fylkingarnar eru jafnar, að meirihluti flokksmanna sem kaus, hafi stutt Óskar eða Önnu í 1. sætið en Björn Ingi hafi haft umtalsverðan vinning hjá hinum hópnum.

Annað atriði sem mér verður starsýnt á er utankjörfundaratkvæðagreiðslan. Það held ég að hafi aldrei gerst í Reykjavík að fjórðungur greiddra atkvæða sé utan kjörfundar. Það verður að fá skýringar á þessari þátttöku. Ekki eru almenn sumarleyfi eða annað slíkt sem skýrir þennan mikla fjölda kjósenda, sem ekki átti heimangengt á kjördag.

Loks eru það ótrúlega skrýtin dreifing atkvæða. Í fyrstu tölum hafði Björn Ingi um 60% atkvæða í 1. sætið, en það voru utankjörfundaratkvæðin og nokkur kjörfundaratkvæði til viðbótar. Þá voru hvorki Óskar Bergsson né Anna Kristinsdóttir meðal 6 efstu og Óskar mun hafa verið neðstur af frambjóðendunum 11. Það er alveg skýrt hvaða línur voru lagðar í utankjörfundaratkvæðunum. Úr hinum atkvæðunum virðist Björn Ingi hafa haft aðeins rúmlega 35% atkvæða í 1. sætið, litlu meira en Óskar Bergsson, sem fékk næstflest atkvæði í 1. sætið þegar upp var staðið. Það virðist því sem að utankjörfundaratkvæðin hafi ráðið úrslitum.

Athugasemdir