Þenslan er þjóðinni dýr.

Pistlar
Share

Þenslan í íslensku efnahagslífi er þjóðinni dýr. Vegna þenslunnar eru hærri vextir en ella væri. Erlent lánsfé er hægt að lána hér innanlands með 6 – 7% hærri vöxtum en greitt er af því til erlenda lánveitandans. Vegna þenslunnar er verðbólga meiri en annars væri. Verðbólgan er um 2 – 2,5% umfram markmið Seðlabankans. Vegna þenslunnar eru launakostnaður hærra hlutfall af útgjöldum fyrirtækja en en gerist hjá erlendum samkeppnisaðilum.

Stóriðjuframkvæmdirnar reyna verulega á hagkerfið. Stækkun álversins við Grundartanga, nýja álverið í Reyðarfirði og tilheyrandi virkjunarframkvæmdir kosta 250 – 300 milljarða króna. Því til viðbótar hefur bæst útlánasprenging vegna íbúðalána og útgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskri krónu.

Við þessar aðstæður þurfa stjórnvöld að draga úr umsvifunum og forðast að taka ákvarðanir sem viðhalda þensluástandinu til næstu ára. Það þarf að ná genginu niður og vextirnar verða að lækka. Annars munu störfin sem álverin skapa ryðja út af vinnumarkaðnum öðrum störfum, sem einkum eru í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og öðrum útflutningsgreinum.

Þá verður niðurstaðan frekar tilfærsla starfa milli atvinnugreina og landssvæða en heildaraukning. Þjóðhagslegur ávinningur rýrnar að sama skapi.Sérfræðingar viðskiptabankanna voru um það sammála á nýlegum fundi Viðskiptaráðs Íslands að þessar aðstæður væru uppi núna og að það væri fámenn landsvæði með einhæft atvinnulíf sem yrðu harðast úti. Þar tapast störfin og fólkinu fækkar, en ávinningurinn kemur fram þar sem álverin verða.

Þetta er óásættanleg þróun. Stóriðjustefnan er ekki rekin til þess að færa störf úr einu kjördæmi í annað, frá einu landsvæði til annars. Hún er til þess að bæta hag landsmanna í heild og styrkja atvinnu og byggð þar sem stóriðjan rís, en án þess að skaða önnur landssvæði.

Frekari stjóriðjuáform við núverandi aðstæður er þessum annmörkum háð, hún mun færa einu svæði ávinning, en skaða annað. Sjávarbyggðir víða um land eiga í vanda vegna efnahagsástandsins. Störf eru flutt til útlanda. Þetta gengur ekki. Það verður að velja rétta tíma fyrir næstu skref.

Í Fjármálatíðindum birtist í desember 1998 grein eftir Pál Harðarson og niðurstaða hans var að góð tímasetning skýrði um 60% af þjóðhagslegum ávinningi af stóriðjunni á árunum 1967 – 1997. Ráðist var í álversframkvæmdir eftir síldaraflabrestinn sem varð 1967 og svipaðar aðstæður voru eftir 1990 vegna mikils samdráttar á þorskafla. Framkvæmdirnar komu þegar efnahagslífið var í lægð, tryggðu atvinnu en þensla varð ekki.

Ef keyrt verður áfram með þær stórhuga stóriðjuáform, sem kynnt hafa verið, næstu árin í beinu framhaldi af núverandi framkvæmdum, má heita víst að háa gengið verði áfram sem og háu vextirnir og gífurlegi viðskiptahallinn og störfin munu streyma úr landi. Svo kemur verðbólguskellurinn að lokum.

Nú ríður á að hægja á og koma á jafnvægi í efnahagslífinu. Nú er tíminn til þess að virkja frumkvæði fyrirtækja og einstaklinga til atvinnusköpunar. Stóriðjan getur skilað góðum árangri, það þekkjum við, en aðeins á réttum tíma. Á röngum tíma verður frekari stóriðja skaðleg.

Athugasemdir